Tenglar

18. september 2015 |

Hugleiðingar um stjórnsýslu í Flatey

Gunnar Sveinsson.
Gunnar Sveinsson.

Gunnar Sveinsson, Eyjólfshúsi í Flatey skrifar

 

Töluverð umræða hefur orðið á undanförnum mánuðum um stjórnsýslu í Flatey og hvar stjórnsýsluheimili Flateyjar ætti að vera. Á það að vera áfram á Reykhólum (íbúafjöldi 271 árið 2014) þar sem stjórnsýsluheimilið hefur verið allar götur frá því að gamli Flateyjarhreppur rann inn í Reykhólahrepp, eða á það að vera í Stykkishólmi þaðan sem reglubundnar samgöngur eru, sjúkrahús, verslun og önnur þjónusta við Flatey? Um þetta ályktuðu allir íbúar Flateyjar á þann veg, að flytja ætti stjórnsýsluna þangað og sendu undirskriftalista til Stykkishólmsbæjar til kynningar og umfjöllunar. Hugur allra íbúa Flateyjar stendur því til að flytja stjórnsýsluheimilið frá Reykhólum til Stykkishólmsbæjar.

 

Og hver er svo ástæða þessara vistarveruskipta? Staðreynd er að allar samgöngur byggjast á sjóleiðinni Stykkishólmur – Flatey – Brjánslækur – Stykkishólmur, sem Sæferðir hafa hingað til þjónað ágætlega.

 

Staðreyndin er að Flateyingar sækja heilbrigðisþjónustu sína í Stykkishólm, sömuleiðis verslun, viðgerðir, varahluti og viðhaldsvinnu, ferðamenn til Flateyjar koma að stærstum hluta frá Stykkishólmi, stærri bátar eyjamanna eru gjarnan geymdir í Stykkishólmshöfn í stuttan eða langan tíma, allt vatn yfir sumartímann fyrir Flatey er flutt frá Stykkishólmi, fjölmargir er eiga hús í Flatey eiga lögheimili sitt í Stykkishólmi, allt sorp úr Flatey er flutt í Stykkishólm, fiskur frá strandveiðum og grásleppuveiðum Flateyinga fer ísaður í fiskkerum til Stykkishólms, allur póstur kemur frá Stykkishólmi, aðföng fyrir Hótel Flatey og Bryggjubúðina eru sótt suður, þvottur hótelsins er sendur um Stykkishólm til Grundarfjarðar, megnið af dún eyjamanna er flutt suður, nema Magnús í Krákuvör sendir á Stað, lömb til slátrunar eru flutt til Sauðárkróks (reyndar fyrst til Brjánslækjar) og svona mætti lengi telja.

 

Einnig verður að álykta að svo stórt sveitarfélag eins og Stykkishólmsbær er (íbúafjöldi 1.094 árið 2014) sé betur í stakk búið til að þjóna íbúum Flateyjar allt árið og jafnframt þeim fjölmörgu fjölskyldum sem eiga hús í Flatey, og ekki má heldur gleyma þeim vaxandi fjölda ferðamanna sem sækja heim þessa ferðamannaparadís.

 

En hvað sækja Flateyingar „upp eftir“? Þar skal fyrst telja, að lögregla fyrir Flatey situr á Patreksfirði en lögreglustjórinn situr á Ísafirði. Sýslumaðurinn á Vestfjörðum situr á Patreksfirði en einnig á Ísafirði, raforkuþjónusta við dísilrafstöðvar í Flatey er sótt til svæðisskrifstofu OV á Patreksfirði en höfuðstöðvar OV eru á Ísafirði. Okkar ágæti prestur Flateyinga, Elína Hrund, situr á Reykhólum, og það skal hér tekið fram að messað er einu sinni á ári í Flateyjarkirkju. Frábært hjúkrunar- og dvalarheimili, Barmahlíð, er á Reykhólum, sem sinnir þörf hreppsins. Og að lokum ber að nefna að stjórnsýslusetur Flateyjar er hjá Reykhólahreppi á Reykhólum.

 

Vegalengdir milli Flateyjar og sveitarstjórnarsetursins á Reykhólum eru býsna langar. Í þessu sambandi langar mig að vitna í það sem séra Elína Hrund sagði á héraðsfundi Vestfjarðaprófastsdæmis nú í haust. Þar sagði hún að það væri erfitt fyrir Reykhólaprest að sinna Flatey því engar samgöngur væru á milli Flateyjar og Reykhóla eftir að bátsferðir þar á milli lögðust af. Þyrfti Reykhólaprestur að aka á Brjánslæk til að komast í Baldur.

 

Þetta segir allt sem segja þarf. Samgöngur milli Reykhóla og Flateyjar eru afleitar og ekki beinlínis til að stuðla að miklum samskiptum eða heimsóknum þar í milli. Til að bæta gráu ofan á svart hefur verið talað um sameiningu sveitarfélaga og þá að Reykhólahreppur sameinist Dalabyggð eða Strandabyggð með stjórnarsetri á Hólmavík. Verði það raunin, þá verður um marga þröskulda að fara til að hitta og ræða við sveitarstjórnarmenn um málefni Flateyjar.

 

Í fundargerð sveitarstjórnar Reykhólahrepps fimmtudaginn 10. september sl. segir þegar rætt var um ágætt opið bréf frá Erlu Þórdísi Reynisdóttir sem birtist á Reykhólavefnum: „Sveitarstjórn Reykhólahrepps er sammála megininntaki bréfsins, fyrst og fremst snýst málið um að við sem búum í Reykhólahreppi erum eitt samfélag og eigum að hlúa hvert að öðru.“

 

En hlúir sveitarfélagið Reykhólahreppur að íbúum Flateyjar? Í heimsókn sveitarstjórnar Reykhólahrepps á vormánuðum kom fram „mikil óánægja meðal íbúa með samgöngur við eyjuna og þá sérstaklega hafnaraðstöðuna, að aðstaða skuli ekki vera fyrir hendi til að hafa báta á floti í öruggri höfn allt árið“ svo vitnað sé í fundargerðina. Þessu svarar sveitarstjórnin svo, að þetta séu samgöngumál „sem heyra undir ríkisvaldið“.

 

En á þessum fundum með íbúum Flateyjar 1. maí sl. kom fram miklu fleira en bætt hafnaraðstaða. Rætt var um skipulagsmál í Flatey, lélegt ástand ferjubryggju, ágang sjávar og landbrot í kjölfar þessara ægiafla í Flatey, brunavarnir í Flatey, stígagerð og móttaka ferðamanna, koma skemmtiferðaskipa til Flateyjar, sorphirðu- og raforkumál, vatns- og frárennslismál, siglingar til og frá Reykhólum og margt fleira. Og hvernig bregst sveitarfélagið við? Jú, það skipar dreifbýlisnefnd sem vettvang fyrir þær byggðir í sveitarfélaginu sem eru á jaðri byggðarinnar.

 

Það hefur jafnan verið sagt að til þess að drepa máli á dreif er skipuð nefnd sem hefur engan tímaramma til að skila niðurstöðu. Þegar leitarorðið dreifbýlisnefnd er slegið inn í leitarslóð á heimasíðu Reykhólahrepps kemur aðeins eitt svar upp og það er tilvísun í þessa sömu fundargerð frá 10. september sl. Nefndin hefur sem sagt ekki enn verið skipuð þrátt fyrir að næstum því fimm mánuðir séu liðnir frá fundinum í Flatey, og því er spurt:

 

Hvenær verður hún skipuð, hverjir munu sitja í henni, og þegar hún verður skipuð, mun hún fá einhvern tímaramma til að skila niðurstöðu?

 

En þarna kemur fyrir það stikkorð sem vert er að halda á lofti. Það er orðið jarðarbyggð og Flatey er vissulega á jaðri byggðarinnar. Hvernig fer fyrir jaðarbyggðum? Þeim hnignar smátt og smátt, fólk hættir að sýna þeim áhuga, fólkið flyst burt, húsin drabbast niður, samgöngur verða verri og verri, og að lokum er þar tómið eitt og þögnin hefur tekið völdin eða eins og Jökull Jakobsson sagði í sinni ágætu bók Síðasta skip suður þegar hann fjallaði um byggðina í Flatey 1962 þegar hún var á fallanda fæti:

 

Sólskinið sker úr um það að þú ert ekki staddur í sofandi þorpi sem hvílist eftir önn dagsins og mun vakna á nýjan leik, sólin skín í heiði og hvergi verður vart við lífsmark í þessum hljóðu húsum, á þessum auðu stígum, þetta er ekki sofandi byggð heldur deyjandi.

 

En þá og síðar tóku Flateyingar málin í sínar eigin hendur. Tóku til að endurreisa hús forfeðra sinna, huga að og byggja upp innviði þessa sérkennilega samfélags, komu á fót sinni eigin vatnsveitu, auðvitað allt í sjálfboðaliðsvinnu, fóru í gagngerar endurbætur á „kirkjunni sinni“, fengu sér til liðsinnis Minjavernd til að endurreisa fyrst Bókhlöðuna í Flatey, sem er elsta bókasafn landsins, og síðar var lagður grunnurinn að velreknu hóteli í stórmerkilegum húsum sem voru endurgerð af mikilli list og kostgæfni. Ráðist var í umfangsmikla stígagerð frá Tröllenda inn að Lundabergi og upp að kirkju.

 

Í kjölfarið tók ferðamannastrauminn að vaxa með tilheyrandi uppgangi. Flatey komst í tísku og var altöluð. Frægir kvikmyndagerðamenn heimsóttu eyjuna og afraksturinn varð góður og mikil umfjöllun varð um Flatey. Samtakamátturinn var treystur með stofnun Framfarafélags Flateyjar sem hélt sitt Eyjaþing með glæsibrag þar sem litið var til framtíðar. Það er bjartsýnisfólk sem vill eiga hús í Flatey og það er þrautseigt og dugandi fólk sem vill búa í Flatey allt árið. Við öll eigum að hlúa að þessu núverandi djásni Reykhólahrepps, sem Flatey er.

 

En lofa skal það sem vel er gert og vissulega hefur Reykhólahreppur fjölmargt gert fyrir Flatey og Flateyinga og er það vel.

  • Deiliskipulag í Flatey

Þrjú deiliskipulög hafa séð dagsins ljós fyrir Flatey á umliðnum árum og áratugum og er það sveitarfélagið sem hefur látið vinna þau. Tveimur þessara skipulaga var kastað fyrir róða, annað hvort sem óraunhæfum eða mættu mikilli mótspyrnu hjá Flateyingum. Hið síðasta af þessum deiliskipulögum er fyrir atvinnuhúsnæði á Tröllenda í Flatey og verða þar auglýstar tvær atvinnulóðir. Ekki er vitað til þess að andstaða sé þar meðal Flateyinga. Einnig er rétt að nefna deiliskipulagsvinnu við gerð smábátahafnar í Flatey sem því miður er ekki enn orðin að veruleika.

  • Rekstur upplýsingamiðstöðvar í Flatey

Eigandi frystihússins í Flatey, Þrísker ehf. og Bryggjubúðin, hefur um tveggja ára skeið staðið að rekstri upplýsingamiðstöðvar í húsinu yfir sumartíma. Þar hefur sveitarfélagið lagt til fjármuni sem komið hafa sér vel.

  • Sorphirða í Flatey

Eitt af verkefnum sérhvers sveitarfélags er að sjá um sorphirðu í sínu sveitarfélagi. Hér hefur Reykhólahreppur komið vel að málum fyrir Flateyinga og kostað flutning ruslagáma frá Flatey til Stykkishólms til tæmingar.

  • Eldvarnir í Flatey

Sveitarfélagið hefur alla tíð veitt fjárhagslegan stuðning til eldvarna í Flatey, m.a. til kaupa á vatnsdæluvagni með þeim útbúnaði sem til þarf. Jafnframt lagði sveitarfélagið til fé til kaupa á þremur brunahönum þegar Flateyjarveitur stóðu í framkvæmdum þar að lútandi. Enn vantar þó brunaslöngur fyrir þessa brunahana og vinnur vatnsveitan að fjármögnun þessa verkefnis. Þess ber einnig að geta, að enn vantar heildar eldvarnaáætlun fyrir Flatey og er þeim tilmælum beint til sveitarfélagsins að fullvinna hana sem fyrst.

  • Stuðningur sveitarfélags til margvíslegra annarra verkefna í Flatey

Sveitarfélagið hefur vissulega greitt götu ýmsa mála sem á döfinni hafa verið í Flatey hverju sinni og nauðsynlegt hefur verið að leggja stjórnsýslulega vigt og þunga á til að greiða málefninu leiðir til yfirvalda lands og þjóðar. Nefna má málefni um ágang sjávar í Flatey til Siglingamálastofnunar, smábátahafnar til fjárveitingarnefndar Alþingis og Siglingamálastofnunar, raforkumála til Orkubús Vestfjarða, stækkun ferjubryggju í Flatey til fjármála- og hafnaryfirvalda, uppbyggingu frystihússins í Flatey, hugmyndir um vatnslögn og rafstreng til Flateyjar til viðkomandi ráðuneytis o.s.frv. Einnig má geta þess að sveitarfélagið hefur lagt fram misháa styrki til ýmissa góðra verkefni í Flatey, s.s. Eyjaþingið, útgáfumál á vegum Framfarafélagsins o.s.frv.

 

Í dag er staðan í tilfærslu stjórnsýslu Flateyjar frá Reykhólum til Stykkishólms þannig, að bæjarstjórn Stykkishólms hefur lýst yfir jákvæðum viðbrögðum við erindi allra íbúa Flateyjar og hefur málið einnig verið kynnt innanríkisráðuneytinu. Reykhólahreppur segir hins vegar að málið hafi verið kynnt sveitarstjórn, en þar sem engin formleg ósk hefur borist er málið ekki komið lengra. Sveitarstjórinn, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, segir beinlínis að þar sem hreppurinn hafi ekki fengið formlegt erindi frá íbúum Flateyjar, það hafi verið sent Stykkishólmi, þá sjái Reykhólahreppur ekki ástæðu til að svara því.

 

Það er því brýnt að formlegt erindi frá íbúum Flateyjar berist sem fyrst, þannig að sveitarstjórn Reykhólahrepps geti formlega fjallað um málið og tekið afstöðu til þess.

 

Greinilegt er af viðbrögðum sveitarstjóra Reykhólahrepps að hún er mótfallin þessum breytingum enda segir sveitarstjórinn það berum orðum „að hreppurinn vilja halda Flatey, meðal annars vegna sögulegra tengsla“.

 

Til umhugsunar

Það er annars umhugsunarefni í vangaveltum um jarðarbyggðir, að þegar og ef Reykhólahreppur sameinist Strandabyggð og Hólmavík, þá verður Reykhólahreppur orðinn jarðarbyggð og Flatey verður því jaðarbyggð jaðarbyggðar. Það er ekki skemmtileg tilhugsun.

 

16. september 2015.

Gunnar Sveinsson,

Eyjólfshúsi, Flatey.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31