Tenglar

27. mars 2013 | vefstjori@reykholar.is

Hugurinn ber okkur hálfa leið

Hildur Sif Thorarensen.
Hildur Sif Thorarensen.

Ég heiti Hildur Sif Thorarensen, er 29 ára og leiði lista Pírata í Norðvesturkjördæmi. Ég er ættuð af Hrauni á Skaga en þar ólst hún amma mín upp. Það var svo hún sem ól mig upp og kenndi mér þann dugnað og baráttuvilja sem fylgir uppeldi á hrjóstrugum Skaganum. Amma mín kenndi mér ekki bara að vera dugleg, hún kenndi mér líka að bera virðingu fyrir eldra fólki, hafa samkennd og vilja láta gott af mér leiða.

 

Ég hef búið víða; á Spáni, í Líbanon, í Ísrael og á fleiri framandi stöðum. Ég hef einnig búið úti á landi og verið í sveit á sumrin. Mér hefur lengi fundist landsbyggðin eiga undir högg að sækja frá höfuðborginni og þykir mér það miður. Við vanmetum hlutverk hennar og gleymum að ósjaldan sækjum við út á land einmitt þegar við viljum hvíla hugann og fá ró í sálina. Landsbyggðin gegnir mikilvægu hlutverki og sem dæmi má nefna gjaldeyristekjur í gegnum sjómennsku, afurðir sem við neytum á heimilunum og ferðaþjónustu. Við þurfum á henni að halda því hún gerir okkur að betra fólki, við hvílumst, við fáum nýja sýn og við lærum að hugsa um aðra. Stór hluti af menningunni okkar kemur úr sveitunum og sjávarþorpunum og það myndi breyta þjóðfélaginu til hins verra að missa tengslin við upprunann.

 

Ég fæddist hvorki með gull- eða silfurskeið í munni og var ung þegar ég byrjaði að vinna. Ég flutti að heiman 18 ára og hef séð fyrir mér síðan. Ég kom sjálfri mér í gegnum framhaldsskóla, grunnnám í háskóla og er um það bil að ljúka meistaranámi í hugbúnaðarverkfræði meðfram vinnu. Ég hef alltaf unnið mikið og aldrei litið á eitthvert starf æðra öðru. Ég vann þrjú sumur sem uppvaskari á elliheimilinu Vitatorgi og kunni því vel ásamt mörgum árum við afgreiðslustörf í kjörbúð. Ég veit hvað það er að þurfa að nurla og ég veit hvað það er að þurfa að basla og á því auðvelt með að skilja hagsmuni venjulegs fólks því það eru hagsmunir mínir.

 

Síðan 2008 hef ég setið í stjórn Neytendasamtakanna og sinnt störfum þar í þágu neytenda. Árið 2010 var ég gerður gjaldkeri þeirra og hef setið í framkvæmdastjórn samtakanna síðan. Auk Neytendasamtakanna hef ég setið í stjórn safnaðarfélags Áskirkju frá 2009 og unnið sjálfboðastarf í þágu safnaðarins. Ég hef mikinn áhuga á samfélagsmálum og málefni eldri borgara standa mér þar næst enda er fátt sem mig svíður meira en hversu illa er komið fram við fólkið sem lagði grunninn að samfélaginu okkar með ósérhlífni og erfiðri vinnu. Eitt af markmiðum mínum er að bæta hag þeirra og sjá til þess að ömmur okkar og afar fái þá þjónustu sem þau þurfa í ellinni. Ég á mér mörg önnur markmið sem rúmast vel innan raða Píratanna enda erum við hópur af fólki sem vill leggja sitt af mörkum til að skapa betra og heiðarlegra samfélag.

 

Nafn flokksins okkar kemur mörgum spánskt fyrir sjónir enda er þar vísun í erlent heiti á þeirri alþjóðlegu hreyfingu sem við tilheyrum. Píratar eru starfandi í að minnsta kosti 63 löndum og við erum ört vaxandi stjórnmálaafl. Þótt nafnið geti verið tormelt þá byggir flokkurinn á góðum gildum og það er þess vegna sem ég býð mig fram fyrir hans hönd. Við leggjum upp með að leita lausna sem byggja á rannsóknum eða fordæmum og viljum nýta tækniþekkingu til að skapa störf í gegnum internetið eða með annarri frumkvöðlastarfssemi. Slík störf krefjast ekki öll tæknikunnáttu því fyrirtæki geta nýtt sér netið til að selja afurðir sínar og jafnframt vinna margir hjá tölvufyrirtækjum sem koma ekkert nálægt tæknistörfum. Notkun internetsins til að minnka atvinnuleysi hefur því ekki síður jákvæð áhrif fyrir landsbyggðina en borgarbúa.

 

Netið er ekki það eina sem við höfum áhuga á en við leggjum mikla áherslu á gagnsæi og að þjóðin fái réttar upplýsingar um málefni sem hana snertir. Við viljum að tekið sé mark á þjóðaratkvæðagreiðslum og þær nýttar oftar til að ná fram lýðræðislegum vilja þjóðarinnar. Við viljum einnig bæta hag heimilanna með því að finna lausnir sem endurspeglast ekki í hækkandi sköttum. Þetta eru einungis nokkur af þeim málefnum sem við berjumst fyrir en þau eiga það öll sameiginlegt að grundvallast á rannsóknum og rökstuddum ályktunum.

 

Málefnin geta verið ólík á milli staða og þar sem mitt framboð tilheyrir Norðvesturlandi vil ég leggja áherslu á málefni sem snerta íbúa á því svæði. Þar má meðal annars nefna lánamálin sem þyngja róðurinn hjá bændum og íbúum svæðisins, samgönguvandamál sem skapast með slæmum vegum og hárri skattlagningu á bensíni, reglugerðir sem hefta bændur í framleiðslu og sölu á afurðum og störf sem tekin eru úr bæjarfélögum með leigu á kvóta eða fiskvinnslu erlendis. Hingað til hefur höfuðborgin sogað skatttekjurnar til sín og landsbyggðin liðið fyrir það, þessu vil ég breyta. Ég hef alltaf verið mótfallin því að flytja flugvöllinn enda sjálf búið úti á landi og veit hversu mikilvægt er að hafa hann í Reykjavík.

 

Mig langar að vinna fyrir ykkur og góð samvinna er lykillinn að allri velgengni og ekki síst í stjórnmálum. Ég hvet ykkur því til að hafa samband við mig og benda mér á þau málefni sem við þurfum að vinna að saman. Þið getið sent mér póst á hildur@piratar.is og ég svara um hæl. Takk fyrir mig.

 

- Hildur Sif Thorarensen.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30