Tenglar

14. september 2011 |

Hvar er sáttin? Hverja þykist Ögmundur vera að sætta?

Kolbrún Pálsdóttir.
Kolbrún Pálsdóttir.

Kolbrún Pálsdóttir skrifar:

 

Nýlega var haldinn fundur hjá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, þar sem lögð var áhersla á bættar vegasamgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum (eins og gert hefur verið a.m.k. sl. 20-30 ár). Fundarmenn lýstu ánægju sinni með frumkvæði og sýndan vilja innanríkisráðherra til að höggva á þann hnút sem skapast hefur vegna uppbyggingar Vestfjarðavegar 60. Einnig lagði Fjórðungsþingið áherslu á að áhrif framkvæmda á samfélögin á sunnanverðum Vestfjörðum verði í forgangi og hvergi hvikað frá þeim markmiðum að koma á heilsárssamgöngum á láglendisvegi.

 

Sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum vilja að vegurinn fari þvert um Djúpafjörð og Gufufjörð. Vegagerðin hefur lagt til að farin verði svokölluð B-leið, sem þýðir þverun fjarðanna. Íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum hafa sent undirskriftalista til ríkisstjórnar með beiðni um bættar vegasamgöngur og þar með að þessir firðir verði þveraðir. Þeir sem leggjast á móti þessum framkvæmdum eru landeigendur, náttúruverndarsamtök og einstakir þingmenn og ráðherrar.

 

Því er spurningin þessi: Hverja er verið að sætta og hver er niðurstaðan? Jú, hún er sú að aka áfram sömu leið og gert hefur verið sl. 30-60 ár og treysta á guð og lukkuna á hverjum vetri að ekki verði stórslys.

 

Vöruflutningabílstjórarnir á stórum bílum, og oftast með aftanívagna, sem aka þessa vegi í öllum veðrum, fljúgandi hálku, blindhríð og snjó, það eru þeir sem forseti Íslands ætti að heiðra og sæma riddarakrossi fyrir að leggja líf sitt í hættu á þessari leið. Ég stórefa að fólk almennt geri sér grein fyrir þeirra hetjudáðum dag hvern við að koma afurðum til og frá byggðunum á sunnanverðum Vestfjörðum.

 

Á sama tíma og verið er að tala um aukna ferðaþjónustu, þá hlýtur allt vitiborið fólk að sjá að samgöngur eru frumskilyrði þess að það sé framkvæmanlegt. Það hefur ekki verið sama fjölgun ferðamanna hér á Vestfjörðum og annars staðar á landinu. Skýringin er einföld - bæði íslenskir og erlendir ferðamenn eru nötrandi og skjálfandi eftir að hafa keyrt um þessar ófærur. Margar bílaleigur neita að leigja bíla sína í akstur vestur á firði nema því aðeins að þeir keyri yfir Arnkötludal til Ísafjarðar og þaðan t.d. alla leið suður á Látrabjarg. Það sama má segja um rútufyrirtækin, þau vilja ekki leggja sín tæki á þessa vegi.

 

Þetta er kannski til bóta fyrir alla aðra en okkur sem búum hér. Það selst t.d. meira bensín, bílaleigurnar fá meira greitt fyrir kílómetrafjölda o.fl. þar sem þessi akstur er allt upp í 400 km lengri en annars þyrfti að vera.

 

Hvar voru náttúruverndarsamtök og aðrir sem vilja hafa vit fyrir okkur þegar Ikea var byggt í Hafnarfjarðarhrauninu? Hvar voru þau þegar vegir voru lagðir um allt hálendi Íslands? Vakna þau af dvala bara ef eitthvað á að gera á Vestfjörðum? Eða er búið að setja okkur Vestfirðingana í ruslflokk hjá ríkisstjórn Íslands, eins og svo vinsælt hefur verið nú eftir hrun hjá matsfyrirtækjum í fjármálageiranum?

 

En gott fólk, gleymið því ekki að sú var tíðin, að Vestfirðingar lögðu til 20-25% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Sú var tíðin að hver Vestfirðingur bar nítján Reykvíkinga á bakinu hvað verðmætasköpun snerti. Aðeins eru um 25 ár síðan og m.a. vegna samgangnanna hefur sigið á ógæfuhliðina. Við teljum okkur eiga fullan rétt á góðum akvegi eins og aðrir sem byggja þetta land.

 

Sama dag og Ögmundur ráðherra samgöngumála sló okkur utan undir og veitti áframhaldandi byggð og uppbyggingu í Barðastrandarsýslum náðarhöggið, sem helst mætti líkja við hryðjuverk, þá klippti hann á borðann á nýrri brú yfir Hvítá suður í Hrunamannahreppi, þannig að nú geta sveitungar í Bláskógabyggð nýtt sér Ríkið á Flúðum og íbúar í Hrunamannahreppi geta farið í banka hinumegin við Hvítá. Greinilega gildir ekki sama mat á því hvar er brýn þörf á samgöngubótum.

 

Nú óttast ég að þolinmæði Vestfirðinga sé á þrotum. Við sættum okkur ekki lengur við þetta aðgerðaleysi í vegamálum. Við erum væntanlega öll komin á 21. öldina.

 

- Kolbrún Pálsdóttir,

fyrrv. bæjarfulltrúi í Vesturbyggð og nú hótelstýra í Bjarkalundi í Reykhólasveit.

 

Athugasemdir

Eyvindur Magnússon, fimmtudagur 15 september kl: 08:04

Sammála, sammála og sammála

Guðbjörg Elín, fimmtudagur 15 september kl: 18:33

Ég er svo hjartanlega sammála vinkonu minni Kollu hótelstýru í Bjarkarlundi . Það er með ólíkindum að vegirnir hafi ekkert lagast síðan ég flutti frá Patreksfirði 1983. Ég skil heldur ekki að það sé endalaust hægt að laga vegi fyrir Ísfirðinga og þar í kring og síðan fyrir sunnan, ef ég nefni sem dæmi og á meðan má vegurinn til Patreksfjarðar bíða og bíða. Bara Bakkahöfn á suðurlandi er komin í 3,5 milljarða. Hvað þarf fólk sem býr við suðurfirðina á Vestfjörðum að gera, til að það sé hlustað á það af samgöngumálaráðherra og ríkissjórninni ?

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30