Hvernig sköpum við atvinnu?
Guðmundur Steingrímsson skrifar:
Alla tíð hefur það verið vandamál á Íslandi að fjármagn til atvinnusköpunar hefur ekki boðist landsmönnum öllum jafnt eða atvinnugreinum jafnt, eftir almennum og skynsamlegum reglum. Á síðustu árum, í tíð einkabankanna, batnaði þetta fjármögnunarumhverfi lítið. Gott ef það versnaði ekki. Bankar og fjármálastofnanir tóku þá opinberu afstöðu að lána ekki út á land, nema hugsanlega til sumra.
Nú er þetta kerfi hrunið. Það eru vissulega slæm tíðindi en í því hruni liggja þó tækifæri. Í hinu nýja, endurreista fjármálakerfi þarf að tryggja að svo sé um hnútana búið að öllum landsmönnum bjóðist aðgangur að fjármögnun í sem fjölbreyttustu formi, til atvinnuppbyggingar, séu hugmyndir góðar og sannfærandi. Slíkan ramma fyrir fjölþætta atvinnusköpun þurfa stjórnmálamenn að skapa. Þetta er lykilatriði. Nú er tækifærið, sem alrei fyrr, til þess að koma þessu í kring.
Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að í hina nýja endurreista bankakerfi verði aðgangur að alþjóðlegum fjármálamörkuðum tryggður með aðkomu erlendra fagaðila að rekstri einhverra bankanna. Hið opinbera ætti einnig að halda eftir hlut. Aðalatriðið er að upp rísi bankar sem skoði faglega og með opnum huga fjármögnun hugmynda - á góðum kjörum - um land allt. Ef þetta tekst, þarf landsbyggðin engu að kvíða.
Ekki skortir nefnilega hugmyndirnar að atvinnusköpuninni. Þorskeldi, lax- og bleikjueldi er komið af stað á Vestfjörðum og víðar, en þarfnast stuðnings. Rannsóknar- og menntastofnanir eru komnar á koppinn og dafna vel. Kræklingur bíður ræktunar í sjó, grænmeti má framleiða í stórum stíl, möguleikar í framleiðslu á lífrænu eldsneyti eru sívaxandi, ferðamennska er æ stærri vaxtarbroddur, orkuauðlindir bíða skynsamlegrar nýtingar og svo mætti lengi telja.
Aðalatriðið er hins vegar þetta: Ef jarðvegurinn til atvinnusköpunar er ekki réttur, vex lítið. Hlutverk stjórnmálamanna er að skapa frjóan jarðveg. Aldrei hafa gefist betri tækifæri til þess en nú. Framsóknarflokkurinn, ef hann kemst í aðstöðu til, mun vinda sér í það verk af festu og einurð, að koma á fót á Íslandi fjármálakerfi sem landsmönnum öllum - í Norðvesturkjördæmi og annars staðar - býðst aðgangur að til fjármögnunar eigin góðra hugmynda.
Að þessu grundvallaratriði gefnu þarf síðan fleira að koma til, svo atvinnusköpun verði fjölbreytt og atvinnurekstur samkeppnishæfur. Rannsóknarstyrkir og styrkir til nýsköpunar og markaðssetningar þurfa að standa atvinnulífinu til boða í mun meiri mæli, ásamt góðum samgöngum, samkeppnishæfum aðgangi að raforku, fjarskiptum, flutningaleiðum og síðast en ekki síst: Hæfu vinnuafli. Þar gegna hinar öflugu menntastofnanir sem sprottið hafa upp í Norðvesturkjördæmi einkar mikilvægu hlutverki.
Allt ber þetta að sama brunni. Í dugnaði og samvinnu einstaklinganna - fái þeir það svigrúm til og hvatningu sem hér hefur verið lýst - felst björt framtíð íslensku þjóðarinnar.
- Guðmundur Steingrímsson.