Tenglar

15. apríl 2010 |

Íslenskri landbúnaðarstefnu hafnað

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson skrifar:

 

Þegar ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar fékk framgengt því ætlunarverki sínu að sækja um aðild Íslands að ESB, blasti við að fyrr en síðar hlytu menn að þurfa að takast á við ýmis erfið pólitísk úrlausnarefni. Allir vita að sá eldmóður sem fylgdi umsókninni af hálfu margra áhugamanna er lítt til staðar í dag. Kulnað hefur í hugsjónaglæðunum. En áfram strita menn þó við að semja sig til aðildar.

 

Það sem helst hefur frést af því máli er að Framkvæmdastjórn ESB hefur brugðist við málaleitan íslensku ríkisstjórnarinnar. Álit Framkvæmdastjórnarinnar birtist okkur nýverið. Fátt kom þar á óvart í málaflokkum landbúnaðar og sjávarútvegs. Álitið var eins konar samandregin skoðun ESB á kunnum viðhorfum sambandsins til þessara mála.

 

Þetta plagg ESB varð mér tilefni til þess að óska eftir sérstökum fundi í Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis og sem haldin var á dögunum til þess að fara yfir sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin. Það var fróðleg og nauðsynlegt yfirferð sem varpaði skýrara ljósi á málið allt.

 

Hverfa yrði frá núverandi landbúnaðarstefnu

 

Það sem við blasir í landbúnaðarmálum er heilmikið. Aðild okkar að ESB mun fela í sér að falla þarf í rauninni frá þeirri landbúnaðarstefnu sem hér hefur verið fylgt. Minnt skal á að sú stefna hefur verið mótuð og hún framkvæmd með atbeina allra stjórnmálaflokka á Alþingi um langa hríð. Það er ljóst mál að hverfa verður frá því stuðningsfyrirkomulagi sem hér hefur gilt, hvort sem um er að ræða í mjólkurframleiðslu eða sauðfjárrækt. Þessi stuðningur hér á landi er í veigamiklum atriðum framleiðslutengdur. Það rímar hins vegar alls ekki við landbúnaðarpólitík ESB. Aðild að bandalaginu yrði þess valdandi að láta yrði slíkum stuðningi.

 

Í annan stað er ljóst að tollverndin í landbúnaði hyrfi með ESB aðild. Ytri tollar bandalagsins myndu gilda og ná til landbúnaðarins eins og annars. Það þarf ekki að orðlengja neitt um áhrifin á landbúnaðarframleiðsluna. Hægt yrði að flytja inn tollfrjálsar landbúnaðarvörur frá ESB ríkjum við aðild.

 

Í þriðja lagi er ljóst að umsýslukostnaður myndi snaraukast. Það staðfesti raunar Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í orðaskiptum okkar á Alþingi á dögunum.

 

Nú verða ráðherrarnir að svara afdráttarlaust

 

Þetta eru allt saman grundvallaratriði. Þetta eru ekki spurningar um útfærsluatriði, né eru hér á ferðinni umsemjanleg framkvæmdaatriði. Þetta eru sjálf meginefnin - prinsippin - í Evrópusambandinu, Evrópuréttinum sjálfum, hvorki meira né minna. Menn þurfa ekkert að ganga hér að neinu gruflandi. Það er ekki verið að ræða tæknileg úrlausnarefni sem embættismenn geta útfært.

 

Nú er komið að því að íslensk stjórnvöld þurfa að svara. Láta af þögninni. Hér þarf einfaldlega að krefjast afdráttarlausra svara. Og það eru íslenskir ráðherrar, hinir eiginlegu ábyrgðarmenn málsins, sem þurfa að svara þessum spurningum. Nú er komið að þeim að segja skoðanir sínar afdráttarlaust.

 

Utanríkisráðherra sagði aðspurður í orðaskiptum okkar á Alþingi á dögunum, að fullkominn einhugur ríkti í ríkisstjórninni varðandi framgang ESB umsóknarinnar. Það var fróðlegt að heyra. Svo hefur nefnilega mátt skilja að um þessi mál væri ágreiningur í ríkisstjórninni. Nú hefur það verið staðfest af ráðherra utanríkismála að svo sé ekki og enginn úr ráðherrahópnum hefur mótmælt þeirri fullyrðingu. Verður því að ætla að um það sé einhugur að mál gangi áfram hvað varðar umsókn okkar að ESB. Ríkisstjórnin fer með forræði málsins og ræður förinni, úr því sem komið er. Ágreiningur á þeim bæ ætti því ekki að tefja að hinum pólitísku spurningum sé svarað.

 

Það er þess vegna mjög áríðandi að ráðherrarnir í ríkisstjórninni svari þeim stórpólitísku spurningum sem fyrir þá eru í raun lagðar með ákvörðun um að sækja um aðild að ESB. Nú dugir ekki að bera kápuna á báðum öxlum, tala gegn ESB aðild í héraði, en undirbúa aðildina á öðrum vettvangi.

 

Þetta eru stórpólitískar spurningar

 

Spurningarnar sem svara þarf eru fyrst og síðast pólitískar; stórpólitískar, þegar kemur að landbúnaðarmálunum, til dæmis. Ætla menn að fórna landbúnaðarstefnunni, eru menn tilbúnir að taka upp tollastefnu ESB og hverfa frá tollvernd landbúnaðarins? Hefur enginn áhyggjur af hundraða milljóna herkostnaði við nýtt stuðningskerfi fyrir landbúnaðinn?

 

Þetta eru ekki tæknilegar spurningar. Þetta eru hápólitískar spurningar. Þeim spurningum geta engir svarað nema þar til bærir ráðherrar. Þess verður að krefjast að þeir svari þessum spurningum refja- og undanbragðalaust. Verður haldið áfram á þessari braut? Það blasir að minnsta kosti við að tæknileg úrslausnarefni eru sem hjómið eitt í samanburði við þau stórmál, sem hér eru nefnd og verður ekkert undan vikist að takast á við. Ráðherrarnir verða að koma undan þagnarábreiðunni. Þeir geta ekki látið sem ekkert sé að gerast. Það er í höndum þeirra - og engra annarra - að móta stefnuna og stika út leiðina sem á að fara.

 

- Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður og fyrrv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30