Tenglar

23. júlí 2009 |

Já, en hvaða ESB?

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson skrifar:

 

Við erum lögð af stað eftir hraðbrautinni til Brussel í boði Samfylkingar og Vinstri grænna. Tilgangurinn, að sögn, er sá að komast að því hvað í boði sé. Fyrstu vísbendingarnar um trakteringarnar sem bíða okkar hafa komið í ljós; hótanir og afarkostir Hollendinga. Fengin reynsla kennir okkur að Bretar eru örugglega skammt undan.

 

Aðdragandi samningsumleitanna er ákaflega sérstakur. Þetta var nokkurs konar tilraun til þess að bræða saman ósamrýmanleg sjónarmið VG og Samfylkingar, sem lyktaði með því að fyrrnefndi flokkurinn féllst á skilyrði hins síðarnefnda. Og nú hefur umsóknin verið send, með kærri kveðju og alúðarþökkum, frá Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni.

 

Þegar gengið verður á fund ESB fylgir væntanlega með í farteskinu nefndarálit meirihluta Utanríkismálanefndar Alþingis. Þar er tekin saman greinargerð um meginhagsmuni okkar í væntanlegum samningaviðræðum. Nauðsynlegt er að vekja athygli á að þetta er greinargerð og umfjöllun um meginmarkmið. Ekki samningasskilyrði eða neitt í þá veruna.

 

Nýtt ESB?

 

Það vekur hins vegar athygli hvernig þessi mál eru sett fram. Í sem skemmstu máli má segja að róið sé fyrir flestar eða allar víkur ( svo alþekkt orðalag utanríkisráðherrans við ýmis tilefni, sé viðhaft) Meirihlutaálitið er þannig úr garði gert að þess er freistað að nefna til sögunnar flest þau mál, sem tilgreind hafa verið á undanförnum misserum sem mögulegir ásteytingssteinar þegar kemur að viðræðum okkar við ESB.

 

Allt ber þetta vitni mikilli óskhyggju, sem stjórnast bersýnilega af því að plaggið er tilraun til þess að berja saman fulltrúa gjörólíkra sjónarmiða. Þ.e. andstæðinga ESB aðildar og fylgismenn hennar.

 

Fyrir vikið verður þessi listi meginmarkmiða einhvers konar lýsing á veruleika sem er algjörlega óskyldur því Evrópusambandi sem helst hefur verið rætt um. Hættan hlýtur því að vera sú þegar forráðamenn ESB fara að grennslast fyrir um forsendur umsóknar Íslands, að þeir komist að raun um að umsóknin hafi verið stíluð á rangt heimilisfang. Það ESB sem um er rætt af forráðamönnum málsins hér á landi sé enn ófundið og umsóknin verði því að bíða betri tíma.

 

Sjávarútvegur og landbúnaður

 

Þetta sjáum við til dæmis af umfjöllun um sjávarútvegs og landbúnaðarmálin í áliti meirihluta Utanríkismálanefndar Alþingis. Ekki vantar, að reynt er að halda mörgum hagsmunamálum okkar til haga. En hitt er alveg ljóst ,að eins og málin eru sett fram, markast málatilbúnaðurinn af mikilli óskhyggju; jafnvel draumórum.

 

Hverjum dettur til dæmis í hug að breytingar á fiskveiðistjórn hér á landi verði að undirlagi íslenskra stjórnvalda innan ESB, eins og nefndarálitið nefnir? Eða að forræði þjóðarinnar yfir sjávarauðlindinni verði tryggt? Og sjá menn ekki draumórana sem ofnir eru saman við óskina um að íslenska efnahagalögsagan verði sérstakt íslenskt fiskveiðistjórnarsvæði? Og hvað þá að við förum áfram með samningsforræði varðandi deilistofnana, svo ekki sé talað um þá fullyrðingu að ekki verði veitt svigrúm fyrir erlendar útgerðir til fjárfestingar í útgerð hér á landi? Varðandi hið síðast nefnda má þó hrósa því, að þar er að hluta til dregið í land, í nefndaráliti meirihlutans.

 

Svipaða sögu má segja um landbúnaðinn. Þar eru álíka sjónarmið uppi. Haldið til haga helstu áhyggjuefnunum varðandi íslenskan landbúnað inni í ESB. Blasir þó við að óhugsandi er annað en að tollar falli niður við gildistöku ESB aðildar okkar sem landbúnaðurinn myndi ekki ráða við að óbreyttu. Sama er síðan að segja um tillögur um að við gætum leitað skjóls í ákvæðum Rómarsáttmála um stöðu afskekktra héraða og eyja. Þar er þó skjótlega dregið í land, enda textahöfundum væntanlega ljóst að þarna séu menn á hálum ís í rökfræðinni.

 

Stílað á rangt heimilisfang?

 

Þeim sem settu vangaveltur sínar um meginhagsmuni og helstu markmið á blað er auðvitað vorkunn, í ljósi þeirrar pólitísku stöðu sem ESB málið er í innan ríkisstjórnarsamstarfs Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Fyrir vikið gat niðurstaðan varla orðið önnur en að nefna af mikilli hirðusemi flest þau álitamál sem borið hafa á góma í Evrópuumræðunni. En afleiðingin er óljósara upplegg og fjær þeim veruleika sem aðild að ESB er í rauninni.

 

Því læðist sá illi grunur að manni að líklega sé umsóknarbeiðni þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar ranglega stíluð á forystumenn þess Evrópusambands sem hefur höfuðstöðvar Framkvæmdastjórnar sinnar í stórbyggingunni Berlaymont við Lagagötu í Brussel. Umsóknin hefur sannarlega farið af stað, en í ljósi þeirra forsendna sem hún byggir á, hlýtur það að vera ætlunin að sækja um eitthvað allt annað Evrópusamband.

 

- Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður.

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30