Tenglar

9. apríl 2022 | Sveinn Ragnarsson

Jóhanna Ösp býður fram krafta sína

Jóhanna Ösp Einarsdóttir
Jóhanna Ösp Einarsdóttir

Kæru sveitungar

Nú er það orðið ljóst að engir framboðslistar eru í gangi í Reykhólahreppi og ég mun gefa kost á mér aftur til að sitja í sveitarstjórn.

 

Kjörtímabilið sem er að líða hefur verið mjög lærdómsríkt fyrir mig og ég hef unnið að verkefnum samfélagsins að heilum hug. Auðvitað hafa ekki allar ákvarðanir verið auðveldar en ég hef tekið þær ákvarðanir út frá innri sannfæringu út frá því hvað ég tel best fyrir sveitarfélagið. Auðvitað eru ekki allir sammála um hvað er best hverju sinni en ég hef líka borið virðingu fyrir öðrum sjónarmiðum og skoðað allar hliðar. Lærdómurinn sem ég tek með mér út úr kjörtímabilinu sem er að líða verður ekki kenndur á neinum öðrum vettvangi en að fá að starfa í þessu starfi. Síðastliðið ár hef ég fengið þann heiður að sinna formennsku stjórnar Fjórðungssambandsins og Vestfjarðastofu og hef ég virkilega lagt mig fram af heilhug að starfa í þágu fjórðungsins í heild og hefur það verið mikill heiður! 

 

Það eru ansi mörg verkefni sem eru að hefjast sem ég tel vera stór tækifæri fyrir Reykhólahrepp ef vel tekst til að vinna þau áfram. Þar má nefna vindmyllugarð, græna iðngarða, þörungamiðstöð Íslands og áframhaldandi uppbyggingu innviða.

 

Á nýju kjörtímabili myndi ég vilja fara í deiliskipulag á þorpinu í samvinnu við íbúa. Að skapa framtíðarsýn fyrir þorpið, hvar við viljum sjá þjónustu hlutann (eða miðbæ) hvernig við viljum sjá hafnarsvæðið, lóðir undir húsnæði og iðnaðarlóðir. Mikilvægt er að halda áfram í að vinna að því að ný atvinnustarfsemi geti sest hér að og fengið aðgang að orku og lóðum. Ég myndi líka vilja ýta undir og styðja við atvinnuþróun í dreifbýlinu.

 

Ég myndi vilja halda áfram að vinna að því að Reykhólahreppur leggi áherslu á að öll þjónusta við börn verði ódýr eða ókeypis. 

 

Við stöndum frammi fyrir mögulegum sameiningum sveitarfélögum og þá er það mitt eina markmið að nýtt sveitarfélag standi sterkara en Reykhólahreppur gerir núna, þjónustuaukning við íbúa og uppbyggingarmöguleikar, þá þarf fjárhagslegur hvati til sameiningar að vera góður. En þetta er málefni sem þarf að skoða mjög vel með íbúum. Reykhólahreppur er sveitarfélag sem ég er stolt af og að mínu mati góður staður fyrir fjölskyldufólk að búa á. 

 

Annars er erfitt að skipuleggja heilt kjörtímabil með loforðum þar sem starfið snýr að stórum hluta að því að grípa þá bolta sem sendir eru á mann og nýta þá til að búa til tækifæri. 


Ég er búin að eiga mjög gott samstarf við Ingimar, Karl og Emblu og þakka þeim kærlega fyrir samstarfið. Ekki er nú samstarfið við Árný og Ingu Birnu síðra og ég vona svo innilega að ég fái að njóta þess heiðurs að vinna með þeim áfram, ásamt því að fá að vinna með nýju fólki fá ný sjónarmið inn og vinna með duglegu áhugasömu fólki. 

 

Ég vil þakka kærlega fyrir traustið sem mér var sýnt á kjörtímabilinu og ef þið viljið ræða málin eitthvað frekar þá er velkomið að hafa samband. 

Jóhanna Ösp Einarsdóttir

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31