Tenglar

17. desember 2012 |

Kjaramálin eru margskonar

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.
Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Eftir Jónu Valgerði Kristjánsdóttur, Mýrartungu II í Reykhólasveit, formann Landssambands eldri borgara

 

Nýlega stóð Landssamband eldri borgara fyrir ráðstefnu ásamt ASÍ um kjaramál eldri borgara. Þar voru flutt fróðleg erindi um mörg þau mál sem snerta okkur, s.s. almannatryggingar, lífeyrissjóðina, tillögu starfshóps um endurskoðun almannatrygginga, launamun kynja, fjölgun í hópi aldraðra og fleira.

 

Ég hef oft sagt að kjaramálin eru eilífðarverkefni, þeim lýkur aldrei, því sífellt taka við ný verkefni. En hvað eru kjaramál? Er það bara að horfa á kaupmáttinn, horfa á prósentuhækkun almannatryggingabóta? Horfa á hvað aðrir fá í laun og bera það saman við okkar kjör?

 

Vissulega er það stór hluti af kjaramálum aldraðra því við viljum njóta jafnréttis í því sem öðru.

 

En kjaramál eru svo miklu meira. Það er hvernig búið er að öldruðum á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Það er hvaða þjónustu eigum við völ á meðan við getum búið heima. Það er heilbrigðiskerfið almennt. Það skiptir líka máli hvað lyfin okkar kosta og hvort þau eru niðurgreidd eða ekki. Hvað tannviðgerðir kosta eldri borgara, þar sem enn er endurgreidd sama krónutala og árið 2004. Hvernig við eigum völ á sjúkraþjálfun og hvað hún kostar. Hvaða leiðir eru færar til endurhæfingar eftir sjúkdóma. Hvaða búsetuform standa okkur til boða. Allt þetta snertir kjör okkar og lífsafkomu á efri árum.

 

Öllu þessu þurfum við að fylgjast með og hafa áhrif á og til þess höfum við stofnað Landssamband eldri borgara (LEB) sem eru regnhlífarsamtök 53 félaga eldri borgara um allt land með tæplega 20.000 meðlimi. Það er hins vegar ekki hægt að gera öllu skil í stuttri blaðagrein.

 

Umboðsmaður aldraðra

 

Eitt er það sem verulega brennur á mörgum eldri borgurum og það er hvernig á að ná í allar þær upplýsingar sem oft er nauðsynlegt að fá þegar ýmis vandamál koma upp. Hvert á þá að leita? Það er enginn einn aðili sem býr yfir þeim upplýsingum. Eitthvað er hjá Tryggingastofnun, annað hjá lífeyrissjóðnum, heimilislæknirinn getur sagt okkur eitthvað, félagsmálafulltrúi sveitarfélagsins hefur eitthvað.

 

Það vantar að hægt sé að leita á einn stað og í mörg ár hefur LEB sent frá sér ályktanir um embætti umboðsmanns aldraðra, sem væri æskilegt að koma á fót. Og þó að vissulega sé hægt að hafa allar upplýsingar um allt mögulegt á netinu er það ekki fyrir alla að finna það og allra síst eldra fólk.

 

Ef LEB gæti rekið upplýsingagátt fyrir eldri borgara og haft starfsmann við að sinna því, þá gæti það að einhverju leyti komið í stað embættis umboðsmanns aldraðra. Í LEB unnum við að slíkri upplýsingagátt á sl. ári í samstarfi við Háskóla Íslands. Það lofaði góðu en fjármuni vantar til að hægt sé að ljúka við og starfrækja upplýsingagáttina.

 

Við eldri borgarar höfum orðið fyrir skerðingum á kjörum okkar á undanförnum árum, um það er ekki deilt. En leiðréttingar láta standa á sér. Ég tel að að eldri borgarar hafi fæstir átt þátt í að skapa þær aðstæður sem leiddu til fjármálahrunsins. En það var byrjað á að skerða kjör þeirra þegar þurfti að skera niður ríkisútgjöld.

 

Við viljum að það sem okkur var lofað að væri tímabundin ráðstöfun, eins og skerðing grunnlífeyrisins vegna lífeyrissjóðstekna, sem tók gildi 1. júlí 2009, verði dregið til baka. Þær lagabreytingar sem þá voru gerðar spöruðu ríkinu í lífeyrisgreiðslum til eldri borgara fram til næstu áramóta um 13 milljarða króna, því bætur almannatrygginga voru þá einnig frystar í fastri krónutölu. Á meðan tóku greiðslur almannatrygginga engum verðlagshækkunum eins og lög um almannatryggingar gera ráð fyrir. Frystingin var síðan afnumin 1. júní 2011 og bætur hækkuðu samkvæmt kjarasamningi sem þá var gerður, en í þeim kjaraviðræðum hafði LEB samstarf við ASÍ. Þó eru aðilar ekki á eitt sáttir um að ríkið hafi staðið að fullu við þann kjarasamning.

 

Tekjutengingar eru allt of miklar

 

Eitt af því sem við leggjum mikla áherslu á er að sú tillaga sem starfshópur um endurskoðun almannatrygginga hefur náð samstöðu um verði að veruleika með breytingu á lögum um almannatryggingar sem tæki gildi árið 2013. Með tillögunni er verið að minnka þær tekjutengingar sem í dag valda því að fólk sér engan ávinning af því að hafa lífeyrissjóðstekjur allt að 73.000 kr. Þar er skerðing á sumum bótaflokkum almannatrygginga 100%.

 

Við leggjum til að minnka þá skerðingu í 80% á næsta ári og síðan niður í 45% á næstu þremur árum. Einnig að bótaflokkar verði sameinaðir í einn eftirlaunaflokk.

 

Ef við náum þessu fram verður það til hagsbóta fyrir okkar fólk á næstu árum auk þess að einfalda kerfið verulega. LEB leggur jafnframt til endurheimt grunnlífeyris með sérstakri bókun. Enn bólar þó ekkert á því þegar þetta er skrifað að slíkt frumvarp komi fram á Alþingi og finnst mér það alveg furðulegur seinagangur.

 

Að lokum vil ég minna á þau einkunnarorð sem við völdum á kröfuspjöld sem Landssamband eldri borgara fór með í kröfugöngu 1. maí sl. og ég tel að hafi átt vel við á ári aldraðra:

 

Aldraðir eru auðlind - Við viljum eiga val - Barátta til betri kjara.

 

- Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30