Tenglar

12. apríl 2011 |

Krafan er sú sama – höggvum á hnútinn

Einar Kristinn Guðfinnsson.
Einar Kristinn Guðfinnsson.
Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður skrifar:

 

Umræðan um Vestfjarðaveg 60 í Gufudalssveitinni hefur þegar sannað gildi sitt. Frumvarp okkar Ásbjörns Óttarssonar og Gunnars Braga Sveinssonar sem mælt hefur verið fyrir á Alþingi gerir ráð fyrir að lögfest verði svo kölluð B-leið. Það er að vegur verði lagður út með Þorskafirði vestanverðum, þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar, frá Hallsteinsnesi, að Grónesi og yfir á Melanes, innan til við Skálanes á milli Djúpafjarðar og Kollafjarðar. Þessi leið er vel undirbúin og ef Alþingi samþykkir, er ljóst að hægt er af tæknilegum ástæðum að hefjast mjög fljótt handa við framkvæmdir. Um eitt þúsund Vestfirðingar hafa nú hvatt okkur þingmenn til þess að styðja við þessa leið. Um hana hefur verið víðtæk samstaða heimamanna, þar með talið sveitarstjórnarmanna.

 

Sjálfur hef ég ítrekað ákallað þá sem ekki vilja fara þessa leið að koma fram með aðra kosti í stöðunni. Bið hefur orðið á því að slíkt liti dagsins ljós. En lengi má manninn reyna.

 

Tillaga um jarðgöng

 

Hin mikla umræða sem hefur skapast hefur neytt menn til þess að horfast í augu við þá alvarlegu stöðu sem vegagerðarmálin eru í á þessum slóðum og kallað fram tillögu að lausn á þeim vanda sem við erum stödd í með vegagerð á þessum slóðum. Hér er ég að vísa til hugmyndar sem sett hafði verið fram um jarðgangagerð undir Hjallaháls og Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður hefur nú teflt fram. Það er sannarlega gott og skiptir máli. Breytir þá engu að hugmyndin er sett fram í þröngri stöðu, eftir að íbúar hafa kallað á skýr svör stjórnmálamanna. Tillaga þarf í sjálfu sér ekkert að vera verri þó hún sé sýnilega sett fram í örvæntingu.

 

Dýrari kostur skv. mati Vegagerðarinnar

 

En til þess að hægt sé að líta á tillögu um jarðgöng undir Hjallaháls sem raunverulegan valkost þarf að vinna hratt og samkvæmt ákveðnu markmiði. Vandkvæðin við jarðgangahugmyndina eru nefnilega ótalmargir. Í dag er hér því miður bara á ferðinni lausleg hugmynd. Hún er óútfærð, enginn veit hvort hún sé framkvæmanleg í því formi sem hún er sett fram, né hvort hún dugi til þess að leysa samgönguvandann. Raunverulegt kostnaðarmat hefur ekki farið fram, en fyrir liggur að sá jarðgangakostur á þessum slóðum, sem Vegagerðin skoðaði, er mun dýrari en B-leiðin um Þorskafjörð og með þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar.

 

Það er líka ljóst að þessi leið felur í sér uppbyggingu vegar um Ódrjúgsháls. Er það fullnægjandi leið að vetri til? Sömuleiðis blasir við að þessi kostur mun fela í sér mjög umtalsverða umhverfisröskun. Skering hlíðarinnar við utanverðan Djúpafjörð, sem verður afleiðing af vegagerð um Ódrjúgsháls, verður lítið augnayndi. En kannski kæra eftirlits- og umhverfisstofnanir sig kollóttar og landeigendur í Þorskafirði láta sér það kannski í léttu rúmi liggja, til þess að losna við vegagerð um eigin landareign?

 

Þá þarf að gera ráð fyrir þverun við innanverðan Gufufjörð, til þess að sneiða hjá snjóflóðakafla og breyttu vegstæði í Djúpafirði. Það kallar örugglega á nýtt umhverfismat sem hluti af nýrri leið.

 

Verður forgangsröðun í jarðgangamálum breytt?

 

Og svo er það enn eitt. Jarðgangagerð á þessum slóðum er hvergi á áætlun og hefur ekki hlotið neinn undirbúning. Hálft annað ár er liðið frá því að Hæstiréttur hafnaði vegagerð samkvæmt B-leið. Frá þeim tíma hefur framkvæmdavaldið haft ráðrúm til þess að móta tillögur um aðra vegagerðarkosti. Frumkvæðisskylda er tvímælalaus hjá samgönguyfirvöldum og hin pólitíska ábyrgð hjá ráðherrum innanríkis- og samgöngumála og þeim pólitíska meirihluta sem í landinu ræður. Hingað til hefur ekki glitt í neitt af því tagi; amk. hefur ekkert slíkt verið kynnt. Tíminn hefur liðið og er í rauninni að hlaupa frá okkur.

 

Ef eitthvert gagn á að vera að jarðgangahugmynd þarf því greinilega að skapa pólitíska samstöðu um að hleypa jarðgangagerð undir Hjallaháls fram fyrir aðrar jarðgangaframkvæmdir. Eins og kunnugt er hefur upp á síðkastið helst verið rætt um jarðgöng undir Vaðlaheiði, sem að hluta til yrði einkaframkvæmd, ný Oddskarðsgöng til Norðfjarðar, og loks Dýrafjarðargöngin, sem nú eru fullhönnuð. Ekkert bendir til annars en að í mesta lagi verið farið í einar jarðgangaframkvæmdir á hverjum tíma næstu árin; og kannski varla það. Sést það meðal annars af því, að engar jarðgangaframkvæmdir hafa verið í gangi hér á landi frá því að gerð Bolungarvíkurganga lauk 25. september. Enginn veit á þessari stundu hvenær næstu jarðgangaframkvæmdir geta hafist. Hugmyndir um jarðgöng undir Hjallaháls, sem hvergi eru á blaði, kalla bersýnilega á breytta forgangsröðun, eigi þau að verða að veruleika.

 

Tíminn vinnur gegn okkur

 

Tíminn vinnur mjög á móti okkur í þessu máli. Því er það sjálfsögð krafa að yfirvöld setji fram skýrar línur í málinu og það tafarlaust. Ég hef nú nýverið lagt fram fyrirspurn á Alþingi til innanríkisráðherra, ráðherra samgöngumála, til þess að leita eftir viðhorfum hans til málsins.

 

Nú háttar svo til, að vonir standa til þess að í haust verði boðinn út myndarlegur vegarkafli á Vestfjarðavegi 60. Hér er átt við veg frá Eiðinu við Vattarfjörð, þar sem slitlagi úr Kollafirði sleppir, og að Þverá í Kjálkafirði, en þar endar slitlagskaflinn sem gerður var úr Vatnsfirði í fyrra. Tillaga Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir þverunum í utanverðum Mjóafirði og í Kjálkafirði frá Þveránni. Það verður þó væntanlega háð niðurstöðu umhverfismats. En ávinningur slíkra þverana er mikill. Stytting leiðar, greiðfærari og snjóléttari leið, jafnari umferðarhraði og loks aukið umferðaröryggi. En það síðastnefnda má víst ekki nefna til sögunnar í sambandi við vegagerð, samkvæmt Hæstarétti, svo ég bið lesendur um að fara varlega með þær upplýsingar.

 

Framkvæmdir í Gufudalssveit hefjist í síðasta lagi 2013

 

Verði þessi mikilvægi kafli boðinn út í haust má búast við að honum verði lokið árið 2013. Þá þarf í síðasta lagi að liggja fyrir fullhönnuð og samþykkt leið um hinn umdeilda kafla í Gufudalssveitinni, veginn frá Þorskafirði að Skálanesi. Þeir sem ekki vilja fara þá leið sem við Ásbjörn Óttarsson og Gunnar Bragi Sveinsson leggjum til í frumvarpi þurfa því að fara að bretta upp ermarnar. Það nægir ekki - jafnvel ekki til pólitísks heimabrúks - að skella fram hugmyndum í pólitískri örvæntingu. Það þarf að sýna fram á gildi þeirra og hrinda þeim í framkvæmd. Til þess er tíminn núna orðinn naumur, enda þurfa þær ákvarðanir að komast inn í nýja samgönguáætlun sem leggja á fram í haust.

 

- Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30