Kveðja til íbúa Reykhólahrepps
Það var einkar vel tekið á móti okkur ferðaþjónum á Vestfjörðum sem fjölmenntum í Reykhólasveit um helgina á aðalfundarhelgina okkar. Gestrisnin var til fyrirmyndar og gleðin og fjörið sem heimamenn skópu munu seint eða aldrei renna úr minni nokkurs manns sem þangað mætti. Sveitin skartaði sínu fegursta og gestgjafar okkar tóku sérlega vel á móti okkur. Það var gaman að sjá og heyra af þeim áformum sem eru í gangi í ferðaþjónustunni í sveitinni og finna fyrir þeim krafti og orku sem við finnum að hefur verið að leysast úr læðingi í Reykhólahreppi. Ég er sannfærður um það eftir dvöl okkar að það er gott samfélag í sveitinni, þar sem yngri kynslóðin er hvött áfram og þau fá að finna það að framlag þeirra skiptir máli. Meðan þannig er getur eingöngu verið bjart framundan.
Ég vil fyrir hönd okkar allra sem sóttum aðalfundarhelgina koma sérstökum kveðjum til Hörpu Eiríksdóttur ferðamálafulltrúa Reykhólahrepps. Það eru engar ýkjur að við erum öll agndofa yfir þessum ótrúlega karakter og megi sem flestir smitast verulega af krafti hennar og gleði. Ef öll sveitarfélög á Vestfjörðum ættu slíkan starfsmann til að sinna málefnum ferðaþjónustunnar og býr í Hörpu, þá væri lífið ekki bara skemmtilegra og þægilegra heldur væri nokkuð víst að nokkur árangur væri í sjónmáli. Það segi ég satt. Af fullri einlægni vil ég óska íbúum sveitarinnar hjartanlega til hamingju með að hafa svona starfsmann. Við getum öll öfundað ykkur af henni. Takk kærlega fyrir okkur Harpa.
Kolla, Oddur og allt starfsfólk Hótel Bjarkalundar fór um okkur mjúkum höndum og við nutum innilegrar gestrisni þar í góðu atlæti. Matur og gisting eru fyrsta flokks og það er ánægjulegt að sjá hvaða alúð er lögð við alla uppbyggingu á og við hótelið. Ég vil fyrir hönd Ferðamálasamtaka Vestfjarða óska ykkur öllum velfarnaðar í þeirri vönduðu uppbyggingu sem þið standið í um þessar mundir. Þetta gamla sögufræga sveitahótel mun skína bjart á 65 ára afmæli þess sem er framundan í sumar. Innilegar þakkir fyrir okkur.
Kærar þakkir frá okkur færum við Sveini Ragnarssyni og Hlyni Þór Magnússyni fyrir að standa sig eins vel og raun bar vitni við fundarstjórn og fundarritun. Það er gott að hafa aðgang að svo vönduðum mönnum sem þið eruð. Kærar þakkir fyrir okkur.
Það var gaman að fá fregnir af þeirri uppbyggingu sem er framundan hjá gistiheimilinu Álftalandi á Reykhólum þar sem stendur til að bæta við enn fleiri herbergjum. Að fá að heimsækja Sjávarsmiðjuna í þorpinu og kynnast eins og kostur var þaraböðunum og öllum þeim áformum sem eru framundan þar. Svanhildur tók þar á móti okkur með þeim þokka sem einungis prýðir sómafólk. Kærar þakkir fyrir okkur.
Það var ekki síður ánægjulegt að sjá hve vel hefur til tekist að spinna saman Hlunnindasýninguna og Bátasafnið. Það er vel gerð vinna og ber vitni um að þar er vandað til verka. Upplýsingamiðstöðin á sama stað gerir staðinn að þeirri þungamiðju sem er nauðsynleg hverju þorpi sem vill láta taka sig alvarlega í ferðaþjónustu. Fregnir af frekari uppbyggingu á tjaldsvæðinu á Melanesi og því sem er framundan hjá Arnarsetrinu í Króksfjarðarnesi þar sem stendur til að opna litla kynningarsýningu um verkefnið í sumar á handverksmarkaði Össu eru enn önnur dæmi um þann dug og kraft sem finna má í Reykhólahreppi.
Heimsókn okkar til feðganna á Seljanesi á bíla- og dráttarvélasafnið er í einu orði sagt mögnuð upplifun. Maður verður orðlaus og agndofa yfir þeim dugnaði og áhuga sem skín þar í gegn af hverjum hlut á þeim magnaða stað. Fyrir utan hvað þeir feðgar eru óhemju skemmtilegir og gaman að hlýða á og vera með. Það var ekki síður upplifun að fá að smakka á kjötinu og bjúgunum frá Reykskemmunni á Stað sem hjónin Eiríkur og Fríða standa svo myndarlega að. Ég man ekki eftir því að reyktar landbúnaðarafurðir bráðni jafnvel í munni og það sem þau buðu upp á. Starfsemi þeirra er góður vitnisburður um hvernig hefðbundinn landbúnaður getur tónað vel við ferðaþjónustuna og áminning um hvað greinarnar styrkja hvor aðra.
Leikfélagi sveitarinnar og öllum þeim sem styttu okkur stundir og stóðu fyrir dagskránni á hátíðarkvöldinu þökkum við kærlega fyrir. Þið eruð einfaldlega óborganlega skemmtileg.
Reykhólasveit er dularfull veröld þar sem ævintýri eru að finna í hverju spori. Heimafólk hefur komið auga á svo ótal mörg tækifæri og það verður sérlega spennandi að fá að fylgjast með hvað Reykhólahreppur muni hafa upp á að bjóða í nánustu framtíð, fá að verða vitni að því hvernig ferðaþjónustan þar á eftir að springa út. Það er bjart framundan í Reykhólasveit. Við fórum öll heim til okkar með þá vissu.
Kæru íbúar og ferðaþjónustufólk í Reykhólahreppi. Bestu þakkir fyrir okkur. Þið eruð frábær.
Reykhólahreppur er með'etta. :)
Fyrir hönd Ferðamálasamtaka Vestfjarða
Sigurður Atlason
formaður