Kvótasetning úthafsrækju er óþörf!
Þórður Már Jónsson skrifar:
Ég skrifaði grein ekki fyrir löngu síðan þar sem ég ræddi um ónýttar fiskitegundir sem hafa brunnið upp í höndunum á kvótakerfishönnuðunum í LÍÚ. Nefndi ég grálúðu og úthafsrækju sem dæmi um þetta, en um 80% úthafsrækjukvótans hefur dottið niður dauður undanfarin 5 ár. Heildarkvótinn á þessu tímabili var um 40.000 tonn og því duttu um 32.000 tonn niður dauð og óveidd. Þetta eru margmilljarðaverðmæti sem LÍÚ sægreifarnir láta detta niður dauð í stað þess að leyfa öðrum að nýta kvótann! Já, það þarf LEYFI (m.ö.o. að leigja af þeim) frá þeim því þeir hafa getað umgengist þessi verðmæti eins og þau séu þeirra einkaeign. Sem þau eru svo sannarlega ekki.
Ég setti í áðurnefndri grein minni fram þá hugmynd að ónýttar aflaheimildir yrðu innkallaðar og að gefinn yrði út nýr heildarkvóti í samræmi við fyrri kvóta. Ég hef hugleitt þetta nánar og komist að annarri niðurstöðu um enn einfaldari, fljótlegri og betri leið. Í 3. gr. laga um stjórn fiskveiða segir:
„Sjávarútvegsráðherra skal, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á.“
Þarna stendur skýrt og greinilega að sé nauðsynlegt að takmarka veiðar á einstökum nytjastofnum geti sjávarútvegsráðherra ákveðið með einni reglugerð hver leyfilegur heildarafli má vera. Það hlýtur að vera augljóst að Hafrannsóknastofnun hefur ákvarðað að rækjustofninn þoli 5 sinnum meiri veiði en sægreifarnir hafa séð sér hag í að færa að landi. Því er ljóst að veiðin er LANGT innan við það sem Hafrannsóknastofnun telur stofninn þola. Því eru öll rök fyrir kvótasetningu úthafsrækjunnar fallin um sjálf sig, enda engir verndarhagsmunir sem réttlæta hana ef eitthvað er að marka Hafró. Ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að veiðar á úthafsrækju séu tafarlaust gefnar frjálsar. Hið sama getur hugsanlega átt við varðandi grálúðuna sem hefur einnig verið vannýtt sem og fleiri tegundir.
Slíkar aðgerðir myndu vissulega ergja margan sægreifann, enda telja þeir sig eiga allan óveiddan fisk í sjónum. Í augum margra þeirra virðist úthafsrækjan ekki vera annað en veðandlag til þess að nálgast lausafé inn í rekstur sinn. Því er ekki rúm fyrir aðra til þess að sækja þessi verðmæti þar sem heimildirnar eru rígbundnar í höndum þessara manna þar sem þeim er leyft að brenna upp! Þrátt fyrir reiði sægreifanna held ég áfram að berjast fyrir stærsta réttlætismáli þjóðarinnar. Ekki vegna minna hagsmuna, heldur hagsmuna 99% þjóðarinnar.
- Þórður Már Jónsson, viðskiptalögfræðingur, skipar fjórða sæti á lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi.