Tenglar

25. mars 2009 |

Meinfyndin sjávarútvegsstefna Frjálslyndra

Þórður Már Jónsson.
Þórður Már Jónsson.

Þórður Már Jónsson skrifar:

 

Sigurjón Þórðarson mótframbjóðandi minn í Frjálslynda flokknum fer hamförum í grein sinni frá því í gær þar sem hann sakar Samfylkinguna m.a. um níðingsverk og mannréttindabrot á íslenskum sjómönnum. Skörulegum málflutningi Sigurjóns er m.a. ætlað að varpa skugga á Jóhönnu Sigurðardóttur, sem var ein af þeim fjölmörgu stjórnmálamönnum sem fyrir hartnær 20 árum síðan samþykkti hið frjálsa framsal fiskveiðiheimildanna. Fáir aðrir en sjálfstæðismenn deila um að þar voru gerð hrapalleg mistök.

 

Samfylkingin hyggst nú beita sér fyrir því að þau mistök sem gerð voru verði lagfærð. Ætti Sigurjón raunar, sem yfirlýstur andstæðingur kvótakerfisins, að fagna því að loksins ætli einn af stóru flokkunum sem hefur raunverulega burði til þess að leiða þetta mál til lykta ætli að beita sér fyrir því að breytingar verði gerðar. Og þær munu verða gerðar til samræmis við álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og með hagsmuni þjóðarheildarinnar í huga. Þetta mun Sigurjón verða var við á komandi vikum og ætti hann að fagna því líkt og aðrir andstæðingar og fórnarlömb hins andstyggilega kvótakerfis. Sýnist mér þó að Sigurjón sé ekki líklegur til að fagna þessari afstöðu Samfylkingarinnar og geri í staðinn allt til að tortryggja hana vegna eigin hagsmuna. Mætti Sigurjón raunar einnig minnast á það að 3. málsl. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða var settur inn að stórum hluta til að tilstuðlan Jóns Baldvins Hannibalssonar. Án þessa málsliðar væri ógerningur að breyta kerfinu í dag án þess að greiða þyrfti handhöfum veiðiheimildanna fullt verð fyrir heimildirnar skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

 

Slegið um sig með góðu gríni

 

Sigurjóni virðist mjög umhugað um að láta taka sig alvarlega sem ábyrgan stjórnmálamann. Ég hef fylgst með skrifum Sigurjóns á bloggsíðu hans og þar rak mig í rogastans þegar ég sá hreint makalausa yfirlýsingu hans um áætlanir Frjálsynda flokksins ef hann kemst í stjórn sjávarútvegsmála. Ræðir hann þar um frétt af BBC-vefnum þar sem því er fagnað (af Bretum) að Íslendingar séu byrjaðir að sigla aftur með fisk til Grimsby. Þar segir Sigurjón orðrétt: „Það er alveg víst að ef Frjálslyndi flokkurinn kemst í stjórn sjávarútvegsmála í kjölfar kosninganna mun það leiða til stóraukinna veiða og siglinga með fisk sem mun ekki einungis gleðja Breta og íslenska sjómenn, heldur verða búhnykkur líka fyrir þorra landsmanna." Það er ekki laust við að maður hafi brosað út í annað við þessa yfirlýsingu Sigurjóns. Á meðan ábyrgir stjórnmálamenn keppast við að tala um fullvinnslu og fullnýtingu afurða vill Sigurjón sigla með aflann óunninn úr landi til að „gleðja Breta" vini okkar. Ef Sigurjón vill gleðja Breta, þá sýnist mér á þessu að það færi betur á því að hann reyndi að gleðja þá með bröndurum eins og þessum, enda eru Bretar vel þekktir fyrir að kunna að meta góðan húmor.

 

Það er makalaust að stjórnmálamaður sem vill láta taka sig alvarlega skuli láta slíkt og annað eins út úr sér. Reynt er að leita allra leiða til þess að auka gjaldeyristekjur Íslendinga, en svo leggja Frjálslyndir til að við flytjum auðlindirnar óunnar úr landi! Og það á þessum tímum. Tökum ábyrgð, látum ekki atkvæði okkar detta dauð niður.

 

- Þórður Már Jónsson, viðskiptalögfræðingur, skipar fjórða sæti á lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi.

www.thordurmar.blog.is

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30