Mikil samstaða um samningaleiðina
Meginniðurstaða Endurskoðunarnefndarinnar kemur fram í eftirfarandi orðum í niðurstöðukafla skýrslunnar: „Meirihluti starfshópsins telur rétt að gerðir verði samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr. Samningarnir skulu m.a. fela í sér ákvæði um réttindi og skyldur samningsaðila, kröfur til þeirra sem fá slíka samninga, tímalengd og framlengingu samninga, gjaldtöku, aðilaskipti, ráðstöfun aflahlutdeilda sem ekki eru nýttar, meðferð sjávarafla o.fl.“
Hér er skýrt kveðið að orði. Starfshópurinn gerir það að tillögu sinni að byggt verði á aflamarks- og aflahlutdeildarkerfi og að aflaheimildum sé ráðstafað með formlegum samningi til langs tíma, þar sem gert sé ráð fyrir að samningarnir verði framlengdir, nema því aðeins að um skýlaus samningsbrot verði að ræða.
Samningaleiðin er niðurstaða nær allra nefndarmanna
Þessi leið sem varð ofan á, var borin saman við aðra kosti sem hafa verið nefndir í umræðunni. Jafnskjótt og samningaleiðin varð niðurstaðan, var öðrum leiðum, þ.m.t. fyrningarleiðinni í ýmsum útfærslum, hafnað. Það leiðir af eðli málsins, að um leið og ein leið er valin, eins og í þessu tilfelli, er verið að hafna öðrum. Mjög mikilvægt er að þetta verði lagt til grundvallar á komandi mánuðum.
Samningaleiðin er niðurstaða nær allra nefndarmanna, eftir að hafa farið yfir ýmsa þá kosti við fiskveiðistjórnun sem hafa verið ræddir. Til grundvallar liggja vandaðar úttektir sem meðal annars leiða í ljós með óyggjandi hætti að fyrning aflaheimilda muni hafa gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútveg okkar og þar með samfélagið. Það er þess vegna mjög þýðingarmikið að málin hafa skýrst að þessu leyti. Langtímasamningar um fiskveiðiréttindi, þar sem byggt er á aflahlutdeildum, ættu að skila þeim árangri að unnt verði að marka sjávarútveginum öruggt rekstrarumhverfi til langs tíma.
Þessi leið sem niðurstaða hefur orðið um í nefndinni er í samræmi við leikreglur þær sem gilda munu við nýtingu annarra auðlinda, þ.e. leigu á vatns og jarðhitaréttindum í eigu íslenska ríkisins. Þar er gert ráð fyrir nýtingarsamningum til langs tíma með endurnýjunarákvæðum.
Tvennt þarf að leggja sérstaka áherslu á.
Samningar til langs tíma - skýrt framlengingarákvæði
1. Úthlutun aflaheimilda samkvæmt samningaleiðinni verður til þeirra sem í dag hafa fiskveiðiréttindin. Mjög mikilvægt er að samningarnir verði til langs tíma, rétt eins og gilda mun við nýtingu orkuauðlinda sem ekki eru í einkaeigu. Samningstími í tilviki orkuauðlinda er miðaður við afskriftartíma orkumannvirkjanna og með skýru framlengingarákvæði. Miðað við þær forsendur má ætla að samningarnir í sjávarútvegsmálum taki mið af afskriftartíma og verði til langs tíma. Jafnframt að skýrt sé kveðið á um endurnýjun samninganna. Framundan er margs konar fjárfestingarþörf í sjávarútveginum. Ljóst er að ef einhver óvissa verður varðandi tímalengd samninganna um fiskveiðiréttinn eða endurnýjun þeirra, mun það bitna harðast á nýliðum og veikari fyrirtækjum, draga mjög úr vilja til fjárfestinga og þar með framförum. Slíkt rýrir og vilja og getu undirstöðuatvinnuvegar okkar til þess að taka þátt í uppbyggingu efnahagslífsins.
Aflaheimildir í byggðalegum tilgangi
2. Gert er ráð fyrir í tillögum starfshópsins að lítill hluti af heildarúthlutun aflamarks fari til ráðstöfunar í byggðalegum, félagslegum og atvinnulegum tilgangi. Kveðið verður á um að sú úthlutun verði fest við tiltekna hlutdeild af heildarúthlutuninni. Nokkrum hluta aflamarksins hefur á undanförnum árum verið deilt út á þessum grunni, svo ekki er um stefnubreytingu að ræða. Niðurstaða nefndarinnar er á hinn bóginn að festa þessa hlutdeild, þannig að hún verði ætíð sama hlutfallið af úthlutuðum heildarkvóta. Það er mjög til bóta og í raun ein forsenda þeirrar niðurstöðu sem fengist hefur. Eðlilegast er að þessi úthlutun sé sama hlutfall af heildarúthlutun og fer núna til byggðakvóta, rækju- og skelbóta, línuívilnunar og strandveiða. Verði um aukningu að ræða frá því hlutfalli má segja að verið sé að fyrna veiðirétt, sem er algjörlega óviðunandi og gengi þvert á anda þess samkomulags sem náðist í nefndinni.
Ríkisstjórnin virði niðurstöðuna
Nú þegar þverpólitísk endurskoðunarnefnd, skipuð fulltrúum hagsmunasamtaka í sjávarútvegi, hefur skilað af sér nær samhljóða áliti um meginatriði fiskveiðistjórnarinnar, er lögð mikil ábyrgð á herðar ríkisstjórnarinnar. Það verður í verkahring hennar að leggja fram frumvarp sem byggir á niðurstöðu nefndarinnar. Það frumvarp verður vitaskuld að fylgja þeirri meginlínu sem nefndin markaði og hér hefur verið lýst. Nefndarmenn tóku þátt í starfinu af fullri einurð og heilindum. Það var leitað málamiðlana og samkomulags í erfiðum úrlausnarefnum. Þegar því verki er lokið, þá verður að ætlast til þess að ríkisstjórnin virði þann vilja og þá niðurstöðu sem þannig var fundin. Tilraunir til þess að víkja frá þeim meginsjónarmiðum, sem liggja til grundvallar nær einróma niðurstöðu fjölskipaðrar nefndar ólíkra hagsmunahópa og stjórnmálaflokka, væri bara hægt að túlka sem rof á samkomulagi sem menn gerðu í góðri trú. Fyrirfram verður það hvorki ætlað né því trúað að tilraun verði gerð til slíks. Í trausti þess stendur undirritaður, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í endurskoðunarnefndinni, að þessari niðurstöðu sem finna má í áliti nefndarinnar.
Ýmis álitamál
Um ýmis álitamál varðandi tilteknar útfærslur, sem ekki lúta að þessum megindráttum, varð ekki samstaða. Stjórnmálaflokkarnir og hagsmunasamtökin munu væntanlega kunngera afstöðu sína í þeim efnum, þegar tilefni er til. Afstaða mín og Sjálfstæðisflokksins mun mótast af því leiðarljósi sem við viljum fylgja varðandi breytingar á fiskveiðistjórnuninni. Við teljum afar brýnt að ætíð sé þess gætt að lög um fiskveiðimál tryggi sjávarútveginum gott rekstrarumhverfi, sveigjanleika og svigrúm til hagræðingar. Þess vegna á almenna fiskveiðilöggjöfin að stuðla að slíku. Vegna sérstöðu sjávarútvegsins er réttlætanlegt að ráðstafa litlum hluta fiskveiðiréttarins í öðrum tilgangi, svo sem nú er gert og flokkurinn hefur staðið að. Við styðjum að lög gildi um kvótahámark, teljum að breytingar sem dragi úr framsalsmöguleikum eigi að gerast á lengri tíma, svo sem áréttað er í niðurstöðu nefndarinnar. Algjört grundvallaratriði er að hver útgerð hafi ráðstöfunarrétt yfir sínum aflaheimildum og tryggt verði að virðiskeðjan frá veiðum til markaðar sé órofin. Þannig geta fyrirtækin skipulagt markaðsstarf sitt út frá öruggri vitneskju um aflahlutdeild sína.
Undirritaður fagnar því að niðurstaða sé fengin í erfiðu deilumáli. Til þess að það tækist, þurftu allir að sýna mikinn samstarfsvilja og sveigja frá ítrustu sjónarmiðum. Þessa niðurstöðu eiga stjórnvöld að virða og standa að því samkomulagi sem náðist með þessum hætti í nefndinni.