Tenglar

13. febrúar 2015 |

Misskiptingin klýfur þjóðina

Kristinn H. Gunnarsson.
Kristinn H. Gunnarsson.

Kristinn H. Gunnarsson fyrrv. alþingismaður, ritstjóri blaðsins Vestfirðir:

 

Þeir ríku verða ríkari með hverju árinu sem líður. Þeim sem eiga erfitt að veita sér sómasamleg lífskjör fer fjölgandi á sama tíma. Tiltölulega fámennir hópar í þjóðfélaginu hafa sótt sér hærri kauphækkun en almennir kjarasamningar hafa kveðið á um. Enn er þessi þróun í gangi, nú síðast með verkfalli og stórfelldum kauphækkun lækna. Verkafólki er í kjölfarið vísað á 3-4% dyrnar og það gert ábyrgt fyrir efnahagslegum stöðugleika í þjóðfélaginu.

 

Síðustu 20 árin hefur þróunin verið meira og minna stöðugt í þessa átt. Skattar á háar tekjur og eignir hafa verið lækkaðir og eru ákaflega hóflegir, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Skattar á lágar tekjur og engar eignir eru óhóflegir. Aldraðir, veikir og sjúkir hafa mátt upplífa að að hafa verið ýtt til hliðar og er gert að lifa af litlu og taka upp veskið hvenær sem bankað er upp á hjá heilbrigðiskerfinu. Afleiðingin er stöðug og vaxandi gliðnun í íslensku þjóðfélagi, sem lýsir sér í harðnandi deilum milli þjóðfélagshópa og minnkandi trausti og trú á lykilstofnanir þjóðfélagsins.

 

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, lýsir því í viðtali við blaðið Vestfirðir, að launin eru orðin svo lág að einstæðir foreldrar hrekist úr starfi og leiti á náðir atvinnuleysisbóta eða örorkubóta til þess að reyna að bæta ömurleg kjör sín lítilsháttar. Atvinnufyrirtæki landsins borga þúsundum launamanna svo lág laun að fyrirtækjunum er til skammar. Kauptaxtar verkafólks eru frá 201.000 til 238.000 kr. fyrir dagvinnuna á mánuði.

 

Útvistun verkefna er örugg leið til launalækkunar fyrir verkafólk. Ræstingafólkið á Landspítalanum fær ekki læknakauphækkun heldur er gert að vinna meira og hraðar fyrir minna fyrir uppskafningana sem maka krókinn sem verktakar. Bílstjórar í ferðaþjónustu fatlaðra eru reknar vegna útvistunar og aðrir ráðnir á lægri launum og þeir leggja niður vinnu strax fyrsta mánuðinn sem þeir sjá launaseðilinn. Fólkið í frystihúsinum fær um 300 þúsund krónur þegar allt er talið, bónusar og yfirvinna á árum metgróða af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Á nokkurra ára tímabili var útborgaður arður um 80 milljarðar króna í sjávarútvegi.

 

Andstæðan við láglaunastefnuna í þjóðfélaginu er hágróðastefnan. Hún lýsir sér í því að þeir ríku verða stöðugt ríkari. Ríkasta 1% landsmanna, um 1900 fjölskyldur, átti árið 2012 hvorki meira né minna en nærri fjórðung alls auðs landsmanna. Hlutur þessa hóps hafði aukist úr 17% í 23% á aðeins 10 árum. Það er hvorki meira né minna en þriðjungs aukning á hreinni eign þessa hóps. Hver fjölskylda í þessum hópi á 244 milljónir króna að meðaltali. Eignaaukning hennar á síðustu 10 árum eru nærri 60 milljarðar króna. Misskiptingin er orðin svo alvarleg að fjölskylda sem er í miðjunni á nánast ekkert. Meirihluti þjóðarinnar á lítið sem ekkert og hagur hans batnar ekki. Þvert á móti verður þessi hópur af fullum þunga fyrir stöðugum niðurskurði í bótakerfinu, menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu.

 

Þetta er ekki tilviljun, heldur árangur af pólitískri stefnu. Það er gegn þessari stefnu sem verkalýðshreyfingin er nú að rísa. Starfsgreinasambandið ætlar ekki að una þessum afarkostum í þjóðfélaginu. Þess vegna er farið gegn láglaunastefnunni og þess krafist að launin verði að lágmarki orðin 300 þúsund krónur innan þriggja ára. Það mun draga á eftir sér viðmiðanir í velferðarkerfinu sem ákvarða atvinnuleysisbætur, örorkubætur, ellilífeyri og greiðsluþátttöku í opinberri heilbrigðisþjónustu.

 

Það er ólíklegt að kauphækkun á þennan lægsta hóp muni flæða yfir allan vinnumarkaðinn. Þvert á móti. Vegna þess að láglaunahópurinn er fjölmennur munu atvinnufyrirtæki ekki hafa svigrúm til þess að hækka hina sem mun betur eru settir. Bætt kjör láglaunafólks setur hálaunafólkinu skorður. Það mun ekki geta bæði fengið umframhækkun á sínum launum og setið klofvega ofan á láglaunafólkinu og notið efnahagslegs stöðugleika.

 

Kjarabarátta verkafólks núna er krafa um meiri jöfnuð í þjóðfélaginu, krafa um ábyrgð ríka fólksins á íslensku velferðarþjóðfélagi, krafa um að allir séu um borð í sama báti og deili þar kjörum.

 

- Leiðari ritstjóra í blaðinu Vestfirðir 12. febrúar 2015.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30