Næsta skref
Ásbjörn Óttarsson skrifar:
Prófkjöri sjálfstæðismanna í kjördæminu er lokið. Vonandi eru flestir sammála um að hópur efstu manna sé fjölbreyttur og listinn um leið líklegur til afreka í kosningunum sem framundan eru. Næsta skref okkar sjálfstæðismanna er að fylkja liði, snúa bökum saman og vinna sem einn maður að því markmiði að Sjálfstæðisflokkurinn varðveiti afdráttarlaust forystuhlutverk sitt á sviði stjórnmála í kjördæminu. Í þeirri vinnu mun ég leggja allt mitt af mörkum og ég hlakka til þess spennandi verkefnis að leiða listann og laða til hans eins mikið fylgi og frekast er unnt.
Ég þakka það traust sem mér var sýnt í prófkjörinu. Í því tókust frambjóðendur á af einurð og festu á málefnalegum og heiðarlegum grunni. Stórir hópar stuðningsmanna lögðu hart að sér í vinnu fyrir sitt fólk og vonandi ríkir almenn sátt um niðurstöðurnar. Ég læt í ljós von um að prófkjörið og niðurstöður þess muni styrkja Sjálfstæðisflokkinn í Norðvesturkjördæmi enn frekar. Ég þakka meðframbjóðendum mínum fyrir drengilega prófkjörsbaráttu og stuðningsmönnum, bæði minna og annarra, fyrir þeirra mikilvæga þátt í að gera prófkjörið jafn glæsilegt og raun bar vitni.
- Ásbjörn Óttarsson.