Tenglar

16. nóvember 2010 |

Náttúran og náttúruauðlindirnar verði alltaf okkar eign

Bergljót T. Gunnlaugsdóttir.
Bergljót T. Gunnlaugsdóttir.
Bergljót T. Gunnlaugsdóttir skrifar:

 

Í samanteknum niðurstöðum frá nýafstöðnum þjóðfundi er talað um að stjórnarskráin eigi að tiltaka að auðlindir landsins séu sameign þjóðar og einnig er vernd þjóðarhagsmuna sem sameiginlegt markmið. Í 40. grein stjórnarskrár lýðveldisins stendur: Ekki má heldur taka lán, er skulbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.  Og í 21. grein segir: Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.

 

Eins og ég skil þetta er bannað nema með samþykki Alþingis, sem setur lagaheimildir, að veðsetja veiðiheimildir eða kvóta, þ.e. náttúruauðlind í landhelgi. Þetta er sem sagt allt undir Alþingi komið og það hefur samþykkt slíkar kvaðir með núverandi kerfi. Fjöregg okkar Íslendinga er sem sagt undirorpið því hverjir sitja á þingi hverju sinni, öflum frá hægri eða vinstri og því hversu sterkir eða veikir leiðtogar flokkanna eru. Og hversu sterkir hagsmunaaðilar eru í sínum kröfum.

 

Við þekkjum íslenskt flokksræði. Íslensk náttúra og náttúruauðlindir eiga ekki að vera spilapeningar ráðandi afla hverju sinni. Það ætti að vera okkur ljóst að margir munu ásælast þær, það hefur þegar komið í ljós. Ómenguð og heil náttúran er auðlind og auk þess trygging og farmiði okkar inn í framtíðina. Frá mínu sjónarhorni séð eru náttúruauðlindirnar og náttúran algjörlega nauðsynleg undirstaða okkar sem þjóðar. Náttúruna verður að vernda og náttúruauðlindirnar verður að nýta á sjálfbæran hátt. En umfram allt verður að tryggja með skýrum hætti í stjórnarskrá að náttúran og auðlindirnar séu ekki verslunarvara og ekki til ráðstöfunar fyrir einstakra hagsmunaaðila.

 

Tryggja verður í stjórnarskrá að náttúran og sjálfbær nýting hennar sé fyrir okkur og afkomendur okkar um alla framtíð. Sjá hugleiðingar um önnur atriði stjórnarskrár í www.bergljotgunnl.wordpress.com.

 

- Bergljót T. Gunnlaugsdóttir er frambjóðandi til stjórnlagaþings, nr. 7869.

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30