Náttúrubarnaskóli á Ströndum
Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðinemi skrifar
Náttúran er ævintýraheimur. Þar gerast alls konar ævintýri og þar er margt skemmtilegt að sjá og upplifa. Náttúrubarnaskólinn er nýtt verkefni á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum, þar sem börn og fullorðnir læra um náttúruna á fjölbreyttum námskeiðum, með því að sjá, snerta, upplifa og framkvæma. Námskeiðin samanstanda af skemmtilegri fræðslu um það sem er að finna í nágrenninu. Þar er talað um fjöruna og leyndardóma hennar, rekadrumba og þöngulhausa, einnig fugla, seli og plöntur.
Eins er sagt frá þjóðsagnapersónum og sögunni sem tengist svæðinu. Veðrið verður líka skoðað, skráð og skeggrætt um það með hjálp frá lítilli heimatilbúinni veðurstöð sem verður í Sævangi. Þá verður farið í gönguferðir og leiki. Eins stendur til að föndra og skapa listaverk, búa til jurtaseyði, rannsaka lífríkið, búa til fuglahræður, senda flöskuskeyti og margt fleira. Kennslan fer að miklu leyti fram utandyra og er verkleg, þó auðvitað verði að haga eftir seglum eftir vindum og veðri.
Strandir eru tilvalinn vettvangur fyrir námskeiðahaldið, svæðið er þekkt fyrir fallega og stórbrotna náttúru og fjölbreytt gróðurfar og fuglalíf. Því er tilvalið að skella sér á Strandir á námskeið í sumar. Verkefnið er hugsað til að fjölga afþreyingarmöguleikum á Ströndum fyrir fjölskyldur sem vilja skemmta sér saman. Auðvitað mega börnin samt líka koma ein í Náttúrubarnaskólann og fullorðnir líka.
Margt annað er í boði á Ströndum, þorpið á Hólmavík er í 12 kílómetra fjarlægð frá Sauðfjársetrinu í Sævangi. Það er tilvalið að skoða Galdrasýninguna á Hólmavík og Kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði, fara í sund í mögnuðum sundlaugum og út að borða á veitingastöðum. Ævintýraferð norður í Árneshrepp eða hringinn um Bjarnarfjörð og út á Drangsnes er skemmtileg upplifun. Eins er hægt að komast í siglingu og lundaskoðun út í Grímsey, hestaferð með Strandahestum eða skella sér á golfvöllinn í Skeljavík. Þá er nóg af gististöðum í grenndinni og ágæt tjaldsvæði.
Námskeiðin á vegum Náttúrubarnaskólans verða alla fimmtudaga í sumar, en fyrsta námskeiðið er 11. júní. Einnig verður boðið upp á þrjú helgarnámskeið, helgarnar 13.-14. júní, 18.-19. júlí og 22.-23. ágúst. Náttúrubarnaskólinn mun líka standa fyrir mörgum minni viðburðum sem verða auglýstir í sumar, til dæmis kvöldgöngum og kvöldvökum.
Hægt er að fylgjast með Náttúrubörnunum á Facebook.com/natturubarnaskoli auk þess sem við verðum dugleg að nota hastöggin #natturuborn og #natturubarnaskoli á samfélagsmiðlum í sumar. Skráningar og upplýsingar er hægt að fá í síma 661-2213 og á netfanginu natturubarnaskoli@gmail.com.
Námskeiðin eru hugsuð fyrir fólk á öllum aldri og alla sem vilja finna og komast í samband við sitt innra náttúrubarn. Verið hjartanlega velkomin á Strandir.
– Dagrún Ósk Jónsdóttir.