Tenglar

26. mars 2011 |

Nokkur orð til lesenda og notenda þessa vefjar

Umsjónarmaður vefjar Reykhólahrepps skrifar:
 
Líklega hafa flestir margt þarfara að iðja en liggja á netinu, eins og það er kallað. Ýmsir líta þó öðru hverju inn á vef Reykhólahrepps og renna yfir fréttirnar í miðdálkinum á forsíðunni. Þar standa nú sex fréttir hverju sinni en voru fimm til skamms tíma. Þegar ný frétt kemur efst hverfur sú neðsta af forsíðunni. Því er þessi pistill skrifaður einmitt núna, að í gær og fyrradag voru birtar samtals níu fréttir. Þegar slíkt gerist eru fréttir fljótar að hverfa niður.

 

Að gefnu tilefni skal þess vegna á það minnt, að mjög einfalt er að líta yfir þær fréttir sem horfnar eru niður. Neðan við neðstu frétt á forsíðunni er annars vegar hægt að smella á Eldri fréttir (vinstra megin) og hins vegar á Skoða allar fréttir (hægra megin). Prófið hvort tveggja og sjáið muninn. Ef það er gert þarf ekki að útskýra það neitt frekar.

 

Einn kostur enn er að nota leitarslóðina Leita á síðu... (allra efst til hægri). Þá finnur leitarkerfið öll orð sem hafa að geyma innslegna stafaröð. Þar er samt að einhverju að gæta.

 

Dæmi: Lesandi vill finna alla þá staði á vefnum þar sem bæjarnafnið Erpsstaðir kemur fyrir. Hugsanlegt er í því tilviki sem öðrum, að á einhverjum stað sé nafnið eingöngu í þolfalli - Erpsstöðum. Ef nafnið Erpsstaðir væri slegið inn í heild myndi kerfið ekki finna það á þeim stað. Ráðið við þessu er að nota ekki fullt nafn eða heilt orð. Í þessu dæmi myndi t.d. stafaröðin Erps henta vel (eða erps - engu skiptir hvort notaðir eru hástafir eða lágstafir). Prófið þetta sjálf. Naumast þarf að taka fram, að stafaröðin verður að vera nákvæmlega rétt. Stafaröðin Ersp skilar engri niðurstöðu.

 

Hitt getur gerst, ef leitarslóðin er of almenn, að kerfið finni svo margar fréttir og greinar og annað, að leitin yrði af þeirri ástæðu næsta gagnslítil eða gagnslaus. Ef stafaröðin jón er slegin inn finnur kerfið t.d. alla staði þar sem nafnið Jón kemur við sögu, allir Jónssynir og allar Jónsdætur, einnig ljón (ef út í það færi þótt ósennilegt megi telja á næstunni eins og dýralífi í héraðinu er háttað um þessar mundir), tjón, hjón, Skjóni, sjónarsviptir o.s.frv. Þegar þetta er prófað núna birtast 713 niðurstöður.

 

Úr því að ferð fellur, eins og sagt er: Fyrir vef eins og þennan skiptir öllu að fólkið hjálpi til - sendi ábendingar um fréttnæma viðburði í héraðinu og ljósmyndir af mannlífi og atburðum. Netfangið er vefstjori@reykholar.is en líka er það allra neðst til vinstri á vefnum og nægir að smella þar til að póstgluggi spretti upp. Símarnir eru 892 2240 og 434 7735.

 

Í þessu sambandi verður ekki of oft hnykkt á því, að mjög margir aðrir en íbúar Reykhólahrepps fylgjast með vefnum að staðaldri. Heimsóknir á vefinn á degi hverjum eru mun fleiri en íbúar sveitarfélagsins allt frá vöggu samanlagt. Ekki síst er þar um að ræða fólk sem er brottflutt eða með rætur í héraðinu eða einhver önnur tengsl, fólk sem hefur áhuga á að fylgjast með því sem er að gerast á þessum slóðum. Þannig er vel þegið að fá til birtingar sitthvað sem jafnvel hvert mannsbarn heima í héraði veit um eða allir sem málið varðar sérstaklega vita um.

 

Miklu skiptir að lesendur utan héraðs geti séð hvað er á döfinni hverju sinni, sjái að hér er blómlegt mannlíf og margt að gerast - sjái að líf er í tuskunum í þessu víðlenda og fagra en fámenna sveitarfélagi. Þetta skiptir ekki aðeins máli fyrir fjarstadda heldur ekki síður og raunar öllu frekar fyrir sjálft héraðið - fyrir Reykhólahrepp, ímynd hans, ásýnd og orðspor.

 

Smáræði varðandi ljósmyndir til birtingar á vefnum: Að flestu leyti er auðvelt að lagfæra myndir furðuvel áður en þær eru settar inn á vefinn, lýsa þær og skerpa, skera og snúa og laga rauðar glyrnur. Verra er það viðureignar þegar fjarlægðin er ekki rétt stillt (út úr fókus) og viðfangið mjög óskýrt af þeirri ástæðu.
  

Vefur Reykhólahrepps er í eigu allra íbúa sveitarfélagsins. Hlutverk hans er að þjóna eigendum sínum - og kannski væri þá ekki ósanngjarnt að þeir reyndu að þjóna honum obbolítið líka. Litlar fréttir eru iðulega skemmtilegri en stórar. Þar er ekki síst átt við svipmyndir úr daglegu lífi - af fuglum við iðju sína, hundum og köttum eða börnum að leik, sauðburði eða sólarlagi við Breiðafjörð, þannig að eitthvað sé nefnt, og annað af því tagi.

Telja verður að vefur Reykhólahrepps sé kjörinn vettvangur til skoðanaskipta í héraðinu. Hann er opinn öllu fólki og öllum skoðunum og allri gagnrýni. Einungis er tilskilið að gagnrýni sé rökstudd og kurteisleg, ekki persónulega meiðandi á nokkurn hátt og undir fullu nafni. Fólk er hvatt til að nýta sér þennan vettvang. Engar áhyggjur þarf að hafa af stafsetningu, málfari, framsetningu eða öðrum frágangi. Allt er lesið gaumgæfilega fyrir birtingu og allt sem nefnt hefur verið er lagað ef ástæða þykir til. Greinar og pistlar birtast undir tenglinum Sjónarmið / Aðsent efni, jafnframt því sem skrifuð er frétt á forsíðu til að vísa inn, a.m.k. þegar fólk í héraðinu eða með sérstök tengsl við héraðið á hlut að máli.
 
Loks skal enn á ný mælst til þess, að umsjónarmaður verði látinn vita af missögnum og öðru sem aflaga fer á vefnum, svo að laga megi og leiðrétta. Betur sjá augu en auga, eins og sagt er. Jafnframt væri gott að fá tillögur um það sem fólki þætti rétt að hafa á vefnum en er þar ekki. Raunar er þó líklega fáum ljósara en einmitt umsjónarmanni hversu mörgum efnisþáttum mætti bæta við og ætti vissulega að bæta við. Allt hefur sinn tíma.

 

Núna þegar þessum innslætti lýkur og hvarflað er upp til fyrirsagnarinnar áttar skrifari sig á því, að orðalagið „nokkur orð“ gefur e.t.v. ekki alveg rétta mynd af því sem á eftir kemur. Samt verður þetta látið standa. Enda ekki leiðum að líkjast. Fyrir nokkrum áratugum skrifaði ónefndur ritstjóri ónefnds dagblaðs öðru hverju gríðarlega löng viðtöl í blað sitt, aldrei undir þremur heilsíðum ef rétt er munað, undir samheitinu Í fáum orðum sagt ...
 

Athugasemdir

Jónas Ragnarsson, laugardagur 26 mars kl: 18:55

Ég uppfylli ekki þau skilyrði að vera búsettur í hreppnum eða burtfluttur úr honum. Samt skoða ég þennan vef mjög oft, sæki þangað fróðleik og dáist að dugnaði og vandvirkni ritstjórans. Hreppsnefndin getur verið stolt af þessu verkefni.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Aprl 2025 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30