Tenglar

24. mars 2009 |

Nú hefst baráttan

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.

Einar Kristinn Guðfinnsson skrifar:

 

Nú að loknu gríðarlega fjölmennu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins hér í Norðvesturkjördæmi vil ég færa alúðarþakkir öllum þeim sem studdu mig og aðstoðuðu á alla lund. Stuðningur alls þess fólks var mér ómetanlegur og sú vinna sem gríðarlega margt fólk vítt og breitt um kjördæmið lagði á sig í mína þágu verður mér ógleymanlegur. Fyrir það mun ég aldrei fá fullþakkað.

 

Mér er það ákaflega mikilsvert að vita, að ég naut afdráttarlauss stuðnings í forystusætið mjög víða í kjördæminu. Fyrir þingmann eins og mig sem starfað hefur í Norðvesturkjördæmi frá því að það varð til árið 2003 er slíkur trúnaður og traust mikils virði.

 

Öllum meðframbjóðendum mínum færi ég sömuleiðis kærar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf í prófkjörsslagnum. Af fyrri reynslu og kynnum við allt þetta fólk vissi ég vel að þar væri á ferðinni afbragðsfólk og í prófkjörinu staðfestist það enn. Sigurvegaranum Ásbirni Óttarssyni færi ég hamingjuóskir og hlakka til samstarfs við hann, sem og aðra þá sem framboðslistann munu skipa. Við Ásbjörn hefur þekkst um árabil og unnið mikið og vel saman. Þannig verður það einnig í framtíðinni.

 

Lýðræðisleg stefnumótun

 

Nú er prófkjörið að baki. Það var þýðingarmikill þáttur og hafði það hlutverk að leita álits allra flokksbundinna sjálfstæðismanna á skipan framboðslista okkar. Nú höfum við fengið þá niðurstöðu og sem móta mun framboðslistann. Framundan er síðan endanlegur frágangur hans sem verður á kjördæmisráðsfundi um næstu helgi. Þar með erum við tilbúin í slaginn og munum ekkert gefa eftir.

 

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um næstu helgi kjósum við forystu flokksins og mótum stefnuna í bráð og lengd. Þar með er hinn málefnalegi upptaktur kosningabaráttunnar jafnframt orðinn fullskapaður. Stefnumótun flokksins fer þannig fram í höndum flokksmanna sem sækja umboð sitt til tugþúsunda flokksbundinna manna alls staðar að af landinu. Sérstök stefnumótun verður jafnframt samþykkt á grundvelli vinnu endurreisnarnefndar flokksins og Evrópustefnunefndar hans. Þessar nefndir hafa á umliðnum mánuðum haldið gríðarlegan fjölda funda um allt land til undirbúnings stefnumótunarinnar. Þannig hefur hið mikla afl flokksins verið virkjað með lýðræðislegum hætti og sem kallað hefur fram frjóar og athyglisverðar hugmyndir.

 

Stöndum vel saman

 

Hjá okkur í Norðvesturkjördæmi sem og annars staðar verður kosningabaráttan stutt og snörp. Nú er rétt um mánuður til kosninga og inni í því eru páskar. Það er því ljóst að eiginleg kosningabarátta verður trauðla nema um þrjár vikur. Framundan er því mikið starf.

 

Ég heiti á allt sjálfstæðisfólk að standa vel saman og vinna af alefli að góðum árangri flokks okkar hér í Norðvesturkjördæmi. Góð og mikil þátttaka í prófkjörinu - sú langbesta sem þekkist hjá flokknum okkar í prófkjörum að þessu sinni - segir okkur að í fylkingu flokksins hefur skipað sér mikill fjöldi manna og kvenna sem er tilbúinn til virkrar þátttöku, auk þeirra allra sem vilja leggja okkur lið í því að ná vopnum okkar í þeim mikilvægu kosningum sem eru framundan. Það er okkur ákaflega mikils virði og við frambjóðendur flokksins munum alls ekki láta okkar hlut eftir liggja. Öðru nær. Við heitum því að heyja snarpa og kröftuga baráttu og ekkert gefa eftir. Vikurnar framundan eru því tilhlökkunarefni fyrir svo samstæða og öfluga sveit.

 

Sameiginlega munum við öll ná þeim árangri sem að er stefnt; að tryggja Sjálfstæðisflokknum í Norðvesturkjördæmi gott brautargengi í kosningunum 25. apríl næstkomandi.

 

- Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30