Tenglar

16. mars 2009 |

Öflugur frambjóðandi

Guðrún G. Bergmann.
Guðrún G. Bergmann.

Guðrún G. Bergmann hótelstjóri skrifar:

 

Við í Norðvesturkjördæmi eigum því láni að fagna að eiga val um að kjósa Ásbjörn Óttarsson í komandi prófkjöri til starfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Alþingi. Ásbjörn er einn af þessum hreinskiptnu mönnum sem ávallt kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Skoðanir hans eru skýrar og ákveðnar, en hann er líka réttsýnn maður sem tilbúinn er að hlusta á rök og skipta um skoðun ef á þarf að halda. Því þótt staðfastur sé, býr hann nefnilega líka yfir sveigjanleika.

 

Þegar ég og maðurinn minn heitinn, Guðlaugur Bergmann, fórum að vinna að umhverfismálum á Snæfellsnesi voru ekki allir hlynntir þessu umhverfiskjaftæði okkar, eins og það var kallað. En eftir því sem fólks kynntist betur því sem í starfinu fólst fór áhuginn að vakna. Bæjarstjórn Snæfellsbæjar, undir forsæti Ásbjörns, tók hins vegar snemma skýra stefnu í umhverfismálum og hóf verkið með staðfastri stefnu í vinnu að Staðardagskrá 21. Snæfellsbær var síðan leiðandi í samstarfi sveitarfélaga á Snæfellsnesi þegar þau ákváðu að leita eftir umhverfisvottun Green Globe. Bæjarstjórn Snæfellsbæjar sýndi mikla framsýni og tók þá áhættu að leiða verkefni sem ekki allir voru sammála um og gera breytingar á rekstri bæjarfélagsins svo það félli að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Sjálfstæðismenn í stjórn Snæfellsbæjar, og þar með talinn Ásbjörn, leiddu þannig markvissa vinnu í umhverfismálum, því á Nesinu er það vani manna að láta verkin tala.

 

Mikil umskipti hafa orðið á Snæfellsnesi öllu frá því þetta umhverfisstarf hófst árið 1999 og þar til vottun Green Globe fékkst um mitt síðasta ár. En þótt Ásbjörn hafi fylgt vottun Green Globe fast eftir í bæjarstjórn, hefur hann um langan tíma sjálfur stundað virka umhverfisvernd með því að ganga með félögum sínum um fjörur á Útnesinu hvert vor og hreinsa þær. Hljótt hefur farið um það vinnuframlag hans, en þessi samfélagsvinna sem honum þykir svo sjálfsögð, sýnir hvern mann hann hefur að geyma.

 

Að auki hefur Ásbjörn mikinn áhuga á að efla ferðaþjónustu í kjördæminu og stuðla að frekari uppbyggingu Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og annarra áfangastaða sem draga ferðamenn inn á svæðið. Hann er framsýnn og öflugur frambjóðandi sem Sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi eiga að fylkja sér um.

 

Guðrún G. Bergmann,

hótelstjóri á Hótel Hellnum, Snæfellsbæ.

 

Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31