Öldungaráð í öll sveitarfélög landsins
Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Mýrartungu II, Reykhólahreppi
formaður Landssambands eldri borgara skrifar
Nú standa fyrir dyrum sveitarstjórnarkosningar í vor. Við eldri borgarar, sem jafnframt erum stækkandi hópur í þjóðfélaginu, viljum gjarnan vera með í að móta tillögur um okkar málefni og fylgjast með hvernig þeim málum er fyrirkomið í okkar nærsamfélagi. Þó að við séum ekki að hugsa til framboðs höfum við öll kosningarétt! Því vil ég með þessum orðum hvetja stjórnir félaga eldri borgara vítt og breitt um landið til að hafa samband við þá sem hyggjast bjóða sig fram í vor í þeirra sveitarfélagi og fá þá á fund og spyrja spurninga.
Hvað ætlar ný sveitarstjórn að gera á næsta kjörtímabili í málefnum eldri borgara? Hvernig er heimaþjónustan? Eru heimsendingar á mat? Er einhver starfsmaður á vegum sveitarfélagsins að sinna þörfum eða starfsemi fyrir eldri borgara? Hvað um húsnæði fyrir starf Félags eldri borgara? Er það fyrir hendi eða nægilegt? Verður kosið öldungaráð hjá ykkur?
Finnst ykkur, góðir félagar, það vera metið að verðleikum allt það starf sem félög eldri borgara eru að leggja fram til að halda uppi félagslegri starfsemi? Þar er vissulega mikil sjálfboðavinna á ferð. Það starf er vafalaust stór þáttur í því að rjúfa félagslega einangrun, sem oft sækir að á efri árum. Væri það starf ekki jafn mikið og raun ber vitni væri andleg heilsa eldri borgara miklu verri en hún er og það hefur áhrif á líkamlega heilsu, sem svo aftur bitnar á heilbrigðis- eða félagslega kerfinu. Nýleg rannsókn á heilsufari eldri borgara sýnir að þeir sem eru félagslega virkir búa við betri heilsu en aðrir.
Öldungaráð
Til þess að koma á fót samráðsvettvangi fyrir sveitarstjórnarmenn og félög eldri borgara ættu allar sveitarstjórnir að skipa öldungaráð að loknum kosningum, eða láta kjósa það með beinni kosningu. Slík öldungaráð starfa samkvæmt lögum á öllum löndum á Norðurlöndunum nema Íslandi og Færeyjum. Öldungaráð er þó starfandi í Hafnarfirði og tillaga var samþykkt hjá borgarstjórn Reykjavíkur sl. vetur um öldungaráð, en hefur ekki komist í framkvæmd enn svo vitað sé.
Helstu reglur um starfsemi öldungaráða t.d. í Danmörku eru þannig að í hverju sveitarfélagi skal stofna a.m.k. eitt öldungaráð og það skipa fimm menn og fimm til vara. Kjósa skal einstaklinga til setu í öldungaráði með beinni kosningu. Einstaklingar, 60 ára og eldri sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, hafa kosningarétt og kjörgengi til öldungaráðs. Kosningar geta fylgt sveitarstjórnarkosningum eða a.m.k. farið fram á fjögurra ára fresti eins og kosning í aðrar nefndir. Sveitarstjórnin gefur út samþykkt um starfsemi öldungaráðs og það setur sér starfsreglur. Öldungaráð ráðleggur sveitarstjórn um málefni aldraðra og stuðlar að skoðanaskiptum eldri borgara og kjörinna fulltrúa um stefnu og framkvæmd þeirra mála.
Við höfum reynsluna
Oft hefur verið um það rætt að á uppgangsárum í fjármálalífi Íslendinga hafi bankarnir unnið að því að koma eldra fólkinu frá og setja yngra fólk í ábyrgðarstöður. Jafnvel er talið að þar hafi fjármálastofnanirnar gert mikil mistök með því að kasta burt reynslu hinna eldri og reyndari, og hafi það átt sinn þátt í hruninu. Minna má líka á það að í mörgum þjóðfélögum hefur verið litið til elsta hópsins með virðingu og hann haft ákveðið hlutverk sem leiðandi í ákvarðanatöku fyrir samfélagið í heild.
Við eldri borgarar höfum ekki aðstöðu til mikilla áhrifa þegar við erum hætt störfum á vinnumarkaðnum. Við höfum aðeins áhrif með orðum, skrifum og ályktunum. Margir eru þó enn vel í stakk búnir til að miðla af reynslu sinni og uppsafnaðri þekkingu í gegnum lífið. Þessa þekkingu og reynslu á að nýta okkur öllum til hagsbóta. Það er meðal annars hægt að gera með stofnun öldungaráða í öllum sveitarfélögum landsins. Og þar sem við miðum okkur oft við nágrannaþjóðir okkar er tími til kominn að við séum ekki eftirbátar nágranna okkar annars staðar á Norðurlöndum í þessum efnum.