Tenglar

24. mars 2009 |

Opið bréf til Kristjáns L. Möller samgönguráðherra

Kristinn Bergsveinsson.
Kristinn Bergsveinsson.

Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal skrifar:

 

Sæll vertu.

 

Þann 17. apríl 2007 birtist grein í Skessuhorni eftir fyrirrennara þinn, þar sem taldar eru upp framkvæmdir í Norðvesturkjördæmi í vegamálum næstu fjögur árin. Þar eru nokkur stærri verk, sem ýmist er lokið eða langt komin. Svínadalur, Flókalundur, endurbygging vega og þverun fjarða eru talin eiga að fá 2.160 milljónir króna. Það eina sem lokið er við af því eru 9 kílómetrar, Skálanes-Eyri í Kollafirði.

 

Vegurinn Kjálkafjörður-Vatnsdalur getur ekki verið inni í þessari upphæð því samkvæmt ákvörðun þinni greiðist það af flýtifé vegna þorskaflaskerðingar „og engum verkum verður frestað vegna þessa" segir í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar 16. júlí 2007. Sama á við um veg í austanverðum Þorskafirði, sem ákveðinn var í andstöðu við sveitarstjórn og án þess að fyrir lægi framkvæmdaleyfi eða skipulag fyrr en eftir að verk var hafið. Hvorugt þessara verka var í núgildandi vegaáætlun.

 

Þverun Þorskafjarðar er búin að vera í áratug eða meira á skipulagi Reykhólahrepps. Sú leið er búin að fara í umhverfismat og samþykkt af Skipulagsstofnun. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að bjóða það verk út, að fengnu framkvæmdaleyfi Reykhólahrepps. Engar deilur eða kærur eru í gangi varðandi það verk. Líkur eru á að mjög hagstæð tilboð fáist nú. Verkið skapar mörg störf við smíði brúar. Kostur er að klára það sem fyrst. Stytting er um 10 km.

 

Þverun Þorskafjarðar er I áfangi af B-leið Bjarkalundur- Skálanes. II áfangi, Þórisstaðir-Skálanes, yrði svo boðinn út þegar Vegagerðin, landeigendur og umhverfisöfgamenn hafa komist að niðurstöðu. Ég hélt að vegalög giltu varðandi samskipti Vegagerðar við landeigendur, en það virðist ekki í þessu verki.

 

Endurbygging 50 ára gamalla vega í Gufudalssveit er nú sett aftarlega á merina eins og oft áður. Það ferðast enginn á yfirlýsingum þínum eða fyrrverandi ráðherra. Allar hafa þær verið markleysa hvað varðar þessa leið.

 

Það er því krafa að farið verði að láta verkin tala og hefja framkvæmdir. Annað væri áframhaldandi lítilsvirðing við íbúa og aðra sem búa við „þessa verstu vegi á landinu" eins og þú komst sjálfur að orði eftir að þú hafðir farið þessa leið haustið 2007.

 

Ég hef fullan skilning á að fresta þurfi fjárfrekum framkvæmdum nú þegar kreppir að. Þessi leið þolir þó engar tafir lengur. Nógu oft er búið að draga menn á asnaeyrum með loforðum sem ekki hafa staðist.

 

Reykhólum, 23. mars 2009.

 

- Kristinn frá Gufudal.

 

Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30