Tenglar

3. september 2012 |

Opið bréf til helstu forsvarsmanna samgöngumála

Kristinn frá Gufudal.
Kristinn frá Gufudal.

Kristinn frá Gufudal skrifar:

 

 

Opið bréf til helstu forsvarsmanna samgöngumála

 

Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri

Ögmundur Jónasson, samgönguráðherra

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra

 

Samrit:

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis

Ólína Þorvarðardóttir, varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis

 

Ég fékk í hendur loftmyndir um leiðir sem Vegagerðin ætlar að fara með í umhverfismat. Þar er B-leið ekki tekin með.

 

Á síðasta sumri (2011) fékk ég vegamálastjóra og samgönguráðherra í hendur tillögu um að vegur kæmi með fjörum, neðan við kjarrið, eins og víða er á þjóðvegum 60 og 61, sem endurbyggðir hafa verið á undanförnum árum. Engin svör eða viðbrögð hef ég fengið frá ykkur, en margir hafa þakkað mér fyrir og talið að sú lausn sé raunhæfur kostur. Hagstæðara gæti þó verið að fara eftir jeppaslóðanum út undir Teigsskóg og þaðan neðan skógar um nes og voga.

 

Sömu rök Vegagerðarinnar hljóta að gilda á þessari leið og lögð voru fram í umhverfismati á vegi í Mjóafirði og Kjálkafirði.

 

Ég tek undir ályktun sveitarstjórnar Reykhólahrepps frá 23. júlí 2012 um að fara eigi eftir aðalskipulagi hreppsins, og vil bæta við deiliskipulagi. Þær þrjár leiðir sem Vegagerðin leggur til eru allar óraunhæfar, sérhver með stóra galla, rústa skipulagi og skerða nytjaland til búskapar.

 

Jarðgöng í stað fárra kílómetra vegar á láglendi eru algjört rugl og engum sæmandi. Þau væru móðgun við þá sem bíða eftir lífsnauðsynlegum göngum.

 

Kostnaður við hverja af þessum þremur leiðum Vegagerðarinnar, hver sem væri valin, yrði að líkindum 3,5 til 4,5 milljörðum hærri en kostnaður við B-leið.

 

Það er því mikið á sig leggjandi að setja þessi deilumál til hliðar. Þar er ábyrgð umhverfisráðherra mikil. Trúarofstæki þarf að leggja af en leggja fram í staðinn líffræðileg rök og rannsóknir sem sanni að einmitt þarna sé auðugra lífríki en við aðra innfirði Breiðafjarðar. Slík rök hafa ekki sést ennþá.

 

Nú eru að verða níu ár síðan þverun Þorskafjarðar var samþykkt í umhverfismati. Samgöngunefnd Alþingis hundsar óskir íbúa í Gufudalssveit um að farið sé í þá framkvæmd sem fyrst, en hún hefði í för með sér styttingu leiðar um tíu kílómetra. Konurnar í Gufudalssveit sem sækja vinnu á Reykhólum munar um það. Börnin sem ferðast með skólabílnum dag hvern munar um það.

 

Vegagerðinni er ekki sæmandi að hræðast hótanir um áframhaldandi málaferli. Hæstaréttardómurinn snerist um vinnubrögð þáverandi umhverfisráðherra, ekki að bannað væri að leggja veg ofan eða neðan við Teigsskóg.

 

Náist ekki að leysa þetta mál ber Alþingi skylda til að setja sérlög um B-leið.

 

 

Reykhólum, 3. september 2012.

Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal.

 

Athugasemdir

Jón Halldór Gunnarsson, sunnudagur 09 september kl: 12:47

Skinsamlega skrifað og raunverulega eini raunhæfi kosturinn.

Magnus S Gunnarsson, sunnudagur 09 september kl: 17:51

Ég þekki Kristinn og hann var bóndi í mörg ár í Gufudal,hann þekkir þetta landsvæði betur en margir aðrir,og hefur oft þurft að ferðast um það í misjöfnum veðrum.Ég þekki þetta svæði,þó kannski ekki eins mikið og hann,en er fæddur í "Reykhólasveit" eins og sá hreppur hét fyrir sameiningu,nú sem hluti af Reykhólahreppi hinum nýja.
Leið sem heitir "B" er eina vitið,skynsamlegust,ódýrust,það þarf að hugsa fyrir hvernig best og öruggast er fyrir íbúa svæðisins að ferðast um það,á hvaða árstóma sem er.
Ég styð heilshugar Kristinn,og mér finnst það nú lélegt að bréfum hans er ekki svarað,það er nú lágmarks kurteisi að gera svo.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30