Orkukostnaður í dreifbýli er óviðunandi
Raforku- og húshitunarkostnaður er víða þungur baggi á rekstri heimila og fyrirtækja á landsbyggðinni. Árum saman börðumst við margir þingmenn í landsbyggðarhéruðum og úr öllum flokkum fyrir því að þessi kostnaður yrði lækkaður til móts við verðlagningu á húshitun og raforku, til að mynda á höfuðborgarsvæðinu. Skemmst er frá því að segja að mikill árangur náðist í þessum efnum, sem betur fer. Því miður er nú að slá í bakseglin og orku- og húshitunarkostnaður hækkar að raungildi.
Frá árinu 2005 hafa nýjar reglur gilt, sem byggjast á nýjum og umdeildum raforkulögum. Þær reglur hafa það í för með sér að nú er landinu í raun skipt í tvennt. Þéttbýli þar sem búa fleiri en 200 manns og dreifbýli þar sem búa 200 manns eða færri. Reglurnar sem gilda um dreifbýlið eru í sem skemmstu máli þessar:
Reglurnar
Tekið er mið af hæstu gjaldskrá dreifiveitu að dreifbýlisgjaldskrám undanskildum, þannig að niðurgreiðslan verður ekki meiri en svo að verðið í dreifbýlinu, þ.e. á dreifbýlustu svæðum, verður aldrei lægra en svarar til hæstu gjaldskráa hjá dreifiveitum í þéttbýli. Í framhaldi af þessu voru síðan settar ýmsar reglugerðir til að ramma þetta mál betur inn og sérstök gjaldskrá sem gildir varðandi raforkuframleiðslu og lækkun á orkukostnaði þar sem dreifbýlissvæðin voru skilgreind. Þau voru skilgreind þannig að það væri strjálbýli þar sem byggju innan við 200 manns og þeir nytu ekki tengingar við flutningskerfi eða stofnkerfi.
Markmiðin voru sem sé skýr. Það átti að niðurgreiða rafmagnið sérstaklega inn á dreifbýlu svæðin. Og sú niðurgreiðsla átti að tryggja að raforkukostnaður yrði svipaður og í þéttbýli þar sem gjaldskrárnar eru hæstar.
En hefur þetta gengið eftir? Svarið er því miður nei. Það hefur dregið illilega í sundur og raforkukostnaður, þar með talin húshitunin, orðið hlutfallslega meiri í dreifbýlinu. Það er þess vegna rétt sem bændur og sveitarstjórnarmenn meðal annars hafa haldið fram. Orkukostnaðurinn hefur hækkað hlutfallslega meira í dreifbýlinu.
Orkukostnaður eykst miklu meira í dreifbýli
Ég grennslaðist fyrir um þetta á Alþingi í sumar með fyrispurn sem ég mælti fyrir 19. júní. Í svari iðnaðarráðherra fólst staðfesting á þessu. Þar kom fram að á árunum 2005 til 2009 hefði raforkukostnaður í þéttbýli hækkað um 15,8% að jafnaði. Í dreifbýlinu hækkaði raforkukostnaðurinn helmingi meira og rúmlega það, eða um 38,7%. Þetta er auðvitað gjörsamlega óviðunandi og alveg úr takti við þau fyrirheit sem voru gefin við setningu nýrra raforkulaga.
Það er svo önnur saga og dapurleg, að þessar athyglisverðu upplýsingar vöktu ekki athygli nokkurs fjölmiðils, ekki einu sinni hins ágæta Bændablaðs, sem hefði þó átt að láta sig þetta mál varða. Verður því þó ekki um kennt að athygli fjölmiðla hafi ekki verið vakin á þessu máli. Segir þetta sína sögu um fréttamatið í þjóðfélagi okkar.
Snúum bökum saman þvert á flokksbönd
Nú er enn komið að því að við þingmenn landsbyggðarinnar snúum bökum saman. Illu heilli boðar ríkisstjórnin að hækka skuli raforkuverðið með sérstökum sköttum og með því að draga skuli úr fjárveitingum til orkuniðurgreiðslu á landsbyggðinni. Þessu þarf að snúa við og reyna fremur að lækka húshitunarkostnaðinn, þrátt fyrir þrengingar ríkissjóðs.
Ég er þeirrar skoðunar að takist okkur að fá aukið fé til niðurgreiðslu á raforku eigi að láta hlutfallslega mest af því fé til þess að lækka raforkukostnað í dreifbýlinu. Þar hallar mest á, þar er óréttlætið mest og þar er þörfin mest himinhrópandi, án þess að lítið sé gert úr þeim málum annars staðar. Við þingmenn eigum að sýna þann myndarskap að sameinast um að beina hlutfallslega meiru af því fé sem vonandi fæst til aukinna orkuniðurgreiðsla þar sem þörfin er mest. Um það eigum við að sameinast þvert á stjórnmálabönd.
- Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður.