Plan B við leið B
Oddur Guðmundsson skrifar:
Það er góð regla að eiga alltaf til „plan B“ eins og kallað er og Vestfirðingum er eiginlegt að hafa alltaf eitthvað upp á að hlaupa. Þetta á við í vegagerð eins og öllu öðru og á við um „leið B“ eins og aðrar leiðir. Þegar vaðið er yfir okkur með frekju og yfirgangi á skítugum skónum verðum við að finna okkur aðra leið. Það er til ágætis plan B við leið B, að vísu nokkru dýrara en samt örugglega ódýrara en jarðgöng undir Hjallaháls.
Höldum okkur við leið B eins og hún liggur frá Skálanesi um Grónes á Hallsteinsnes og inn með Þorskafirði að vestanverðu inn á Grenitrésnes, eða Kleifarnes, eða annars staðar þar sem hagstæðast er að þvera Þorskafjörðinn fyrir utan Teigsskóg. Komið yrði að landi að austanverðu í Laugalandshrauninu eða þar um bil, eftir því sem hagstæðast væri, og farið inn með firðinum að núverandi leið sunnan Kinnarstaða.
Með þessu höldum við í láglendisveg og látum þá vætti er í Teigsskógi búa óáreitta og getum geymt hann fyrir ókomnar kynslóðir, sem vonandi verða víðsýnni en okkar kynslóð. Þetta afbrigði af leið B er ívið styttra en sú upphaflega og væntanlega líka snjóléttara.
Jarðgöng undir Hjallaháls koma örugglega til með að kosta mun meira en þessi leið. Fyrir nú utan það, að með jarðgöngum þar væri búið að loka fyrir alla stórflutninga inn á suðursvæði Vestfjarða, því að jarðgöng loka fyrir slíka flutninga frá Ísafirði þó menn vildu fara þá leið.
Það er algjörlega óásættanlegt, nú á tuttugustu og fyrstu öldinni, að stíga það afturfaraspor að leggja nýjan veg um hálsa sem allir íbúar svæðisins eru búnir að hafna. Hafi núverandi ríkisstjórn ekki dug til þess verðum við bara að bíða eftir þeirri næstu. Við erum búin að bíða lengi hvort eð er, svo að tvö ár í viðbót eru ekki svo mikið.
Núverandi ríkisstjórn getur þá bara haldið áfram með vestari hluta leiðarinnar Þverá-Eiði og Skálanes-Hallsteinsnes og tengt með vegi inn með Djúpafirði að austanverðu við núverandi Hjallaháls. Og látið öðrum eftir að klára málið á mannsæmandi hátt.
[Smellið hér til að sjá pdf-kort þar sem leiðin samkvæmt „plani B“ er rissuð inn með penna. Stækkið eftir atvikum í prósentureitnum efst.]
- Oddur Guðmundsson,
íbúi í Vesturbyggð og framkvæmdastjóri Hótels Bjarkalundar í Reykhólasveit.
Einar Örn Thorlacius fyrrv. sveitarstjóri, sunnudagur 18 september kl: 19:25
Ég man að Þórður í Árbæ sagði einhvern tíma við mig að hann skildi ekkert í því hvers vegna sú leið sem Oddur leggur hér til væri ekki farin. Og er þetta ekki bara lausnin? Menn geta þá dáðst að Teigsskógi handan fjarðar um leið og menn aka út með Þorskafirði austanverðum. Og allt á láglendi!