Tenglar

18. september 2011 |

Plan B við leið B

Oddur Guðmundsson.
Oddur Guðmundsson.

Oddur Guðmundsson skrifar:

 

Það er góð regla að eiga alltaf til „plan B“ eins og kallað er og Vestfirðingum er eiginlegt að hafa alltaf eitthvað upp á að hlaupa. Þetta á við í vegagerð eins og öllu öðru og á við um „leið B“ eins og aðrar leiðir. Þegar vaðið er yfir okkur með frekju og yfirgangi á skítugum skónum verðum við að finna okkur aðra leið. Það er til ágætis plan B við leið B, að vísu nokkru dýrara en samt örugglega ódýrara en jarðgöng undir Hjallaháls.

 

Höldum okkur við leið B eins og hún liggur frá Skálanesi um Grónes á Hallsteinsnes og inn með Þorskafirði að vestanverðu inn á Grenitrésnes, eða Kleifarnes, eða annars staðar þar sem hagstæðast er að þvera Þorskafjörðinn fyrir utan Teigsskóg. Komið yrði að landi að austanverðu í Laugalandshrauninu eða þar um bil, eftir því sem hagstæðast væri, og farið inn með firðinum að núverandi leið sunnan Kinnarstaða.

 

Með þessu höldum við í láglendisveg og látum þá vætti er í Teigsskógi búa óáreitta og getum geymt hann fyrir ókomnar kynslóðir, sem vonandi verða víðsýnni en okkar kynslóð. Þetta afbrigði af leið B er ívið styttra en sú upphaflega og væntanlega líka snjóléttara.

 

Jarðgöng undir Hjallaháls koma örugglega til með að kosta mun meira en þessi leið. Fyrir nú utan það, að með jarðgöngum þar væri búið að loka fyrir alla stórflutninga inn á suðursvæði Vestfjarða, því að jarðgöng loka fyrir slíka flutninga frá Ísafirði þó menn vildu fara þá leið.

 

Það er algjörlega óásættanlegt, nú á tuttugustu og fyrstu öldinni, að stíga það afturfaraspor að leggja nýjan veg um hálsa sem allir íbúar svæðisins eru búnir að hafna. Hafi núverandi ríkisstjórn ekki dug til þess verðum við bara að bíða eftir þeirri næstu. Við erum búin að bíða lengi hvort eð er, svo að tvö ár í viðbót eru ekki svo mikið.

 

Núverandi ríkisstjórn getur þá bara haldið áfram með vestari hluta leiðarinnar Þverá-Eiði og Skálanes-Hallsteinsnes og tengt með vegi inn með Djúpafirði að austanverðu við núverandi Hjallaháls. Og látið öðrum eftir að klára málið á mannsæmandi hátt.

  

[Smellið hér til að sjá pdf-kort þar sem leiðin samkvæmt „plani B“ er rissuð inn með penna. Stækkið eftir atvikum í prósentureitnum efst.]

  

- Oddur Guðmundsson,

íbúi í Vesturbyggð og framkvæmdastjóri Hótels Bjarkalundar í Reykhólasveit.

 

Athugasemdir

Einar Örn Thorlacius fyrrv. sveitarstjóri, sunnudagur 18 september kl: 19:25

Ég man að Þórður í Árbæ sagði einhvern tíma við mig að hann skildi ekkert í því hvers vegna sú leið sem Oddur leggur hér til væri ekki farin. Og er þetta ekki bara lausnin? Menn geta þá dáðst að Teigsskógi handan fjarðar um leið og menn aka út með Þorskafirði austanverðum. Og allt á láglendi!

Bjarni Pétur Magnússon, mnudagur 19 september kl: 16:34

Þegar veglínan um Teigsskóg var ákveðin var unnið skipulag fyrir Reykhólahrepp og Dali.
Formaður þess hóps var þáverandi vegamálastjóri og í hópnum var núverandi skipulagsstjóri. Hins vegar eru öfl innan Vegagerðarinnar sem hafa aldrei geta sætt sig við veglínuna um Teigsskóg. Sú veglína var ákveðin þar eð hún lá beinna við en sú sem Oddur getur um.
Veglínan um Teigsskóg og út nesið yrði með fegurstu veglínum landsins og náttúrunni í engu spillt, ávinningurinn yrði betri samgöngur og fegurra mannlíf (fleiri fengju að njóta þess að upplifa fegurð Breiðafjarðar af Hallsteinsnesi) En ráðherran treystir sér ekki til þess að andmæla vegargerðarmönnum og því er lakasti kostur valinn.
Það rifjast upp fyrir mér þegar ég ók fyrst til Reykhóla í snjókomu og kom að brúnni að Bæ (yfir Bæjaránna) sem þá var ófær, mér var þá bent á það að allir í sveitinni vissu að við slík skilyrði ætti að aka um gömlu brúnna því hún yrði ekki ófær. Þeir hjá Vegargerðinni hlustuðu þá sem nú ekki á heimamenn.Þá má benda á að um vorið 1995 þegar hálsarnir (Hjalla og Ódrjúgsháls) voru ófærir og kosningar fóru í hönd, neitaði Vegargerðin að moka hálsana hafði ekki fjármagn til þess að tryggja mannréttindi fólksins í Gufudalssveit. Það á eftir að snjóa í Reykhólasveit löngu áður en göngin koma og Vegargerðin fjárvana sem aldrei fyrr en þeir sem þar ráða ráðum virðist vera á sama þar um.

Bjarni G.Einarsson, mnudagur 19 september kl: 18:11

Oft hefi ég undrast það sjónarmið sem valdið hefir því að um nokkurra missera skeið hefir tekist að hamla vegagerð um vestanverðan Þorskafjörð,og hefir þar kjarrivagsin h líð verið hafin til skýanna sem stærsta samfellda skoglendi vestfjarða, sem er fjarstæða.Sannleikurinn virðist hinsvegar vera sá að innan vegagerðarinnar virðast vera þverhausar sem virðast komast upp það að að kjörin yfirvöld koma ekki í framkvæmd sjálfsögðum vegabótum.Þingmenn okkar eru slíkar liðleskjur að þeir láta þetta viðgangast án þess að því er virðist að hreifa hönd né fót. Þetta er með slíkum ólíkindum að menn setur hljóða.

Arnar Guðmundsson, rijudagur 20 september kl: 16:55

Oft hefur maður skoðað á korti það sem Oddur kallar b við leið B. Hún er eflaust ekki verri en B. Maður taldi helst að sjávardýpi við Hallsteinsnes koma í veg fyrir þessa leið. Norðanáttin hjálpar líklega einnig til við að blása fjúki af veginum. Með álíka tillögu hefði Ögmundur getað höggvið á þennan reifarakennda hnút sem þetta mál hefur verið í. Alltof lengi. Hann kýs ferkar að slá einhverjar HELgrænar innanflokkskeilur. Fjallvegir til framtíðar þarna er alveg fáránlegt og einungis bjóðandi þeim sem aldrei eiga þangað erindi.
Svo er eitt í þessu sem ótrúlega lítið er rætt; en það er að það er a.m.k. tvær tegundir vegfarenda á þessari leið. Annars vegar þeir sem þurfa að flytja hvers konar varning frá a til b, á sem fljótastan, ódýrastan og öruggastan hátt: Leið B (Bb).
Og svo hinir; íslenskir ferðalangar sem útlendir, sem vilja ferðast um landið og skoða og njóta fagurra staða. Slíkt yrði örugglega í hendi með leið B (Bb). Maður heyrir gjarna orðið náttúruperla þegar andstæðingar leiðar B nefna svæðið. Það er mun síðara uppi á fjöllum (hjöllum) þarna. Enn síðri yrði upplifun ferðalanga inni í fjallinu og að því leitinu fráleitt að eyða miklu fé í afleita framkvæmd.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30