Tenglar

3. október 2014 | vefstjori@reykholar.is

Ráðalaus ríkisstjórn!

Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.

 

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður skrifar

 

Allt virðist ætla að verða þessari ríkisstjórn að ógæfu. Það er eins og að hún sé ekkert í tengslum við almenning í landinu. Ákvarðanatökur hennar lýsa skilningsleysi og skeytingarleysi um kjör þess hluta þjóðarinnar sem þarf að hafa sig allan við til að ná endum saman. Auðveldara reynist henni að sýna samstöðu með þeim efnameiri og stórútgerðarfyrirtækjum landsins, sem vafin eru í bómull og hlíft við samfélagslegri ábyrgð með því að greiða ekki sjálfsagða skatta og auðlindarrentu. Samráð virðist ekki vera til í hennar orðabók, hvorki við stjórnarandstöðu, sveitarfélög né aðila vinnumarkaðarins.

 

Hvert skyldi nú vera innlegg ríkisstjórnarinnar í kjarasamningaviðræður sem framundan eru á almenna vinnumarkaðnum? Jú, það er hækkun á virðisaukaskatti á matvæli, en láglaunafólk ver stórum hluta tekna sinna í matarinnkaup. Þá er það hækkun virðisaukaskatts á rafmagn og heitt vatn, sem leggst þungt á svokölluð köld svæði, sem oftar en ekki eru láglaunasvæði.

 

Bótatímabil atvinnuleysisbóta er stytt úr 3 árum í 2,5 ár, stórlega dregið úr framlögum til vinnumarkaðsmála og nokkrum útibúum Vinnumálastofnunar er lokað út um land. Hvert á þetta fólk að fara? Segja sig á sveitina? Framlög til framhalds- og vinnumarkaðsfræðslu í gegnum Vinnustaðanámssjóð eru skorin niður, sem og námstækifæri fyrir atvinnuleitendur.

 

Framhaldsskólunum er ekki gert kleift að taka við eldri nemendum sem hafa hafið nám að nýju í gegnum ýmis úrræði eins og „Nám er vinnandi vegur“. Möguleikar fólks á vinnumarkaði til að sækja nám í framhaldsskólum eru þar með skertir mikið og framlag til framhaldsfræðslu fyrir fólk með litla formlega menntun er skert mikið. Símenntunarstöðvar eru skornar niður við trog. Er það ekki þjóðfélagslega hagkvæmt að fólk hafi tækifæri til að afla sér menntunar á öllum aldri til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaðnum í framhaldinu? Ég hefði haldið það.

 

Áfram eru boðaðar álögur á sjúklinga með mikilli hækkun á lyfja- og lækniskostnaði. Ekkert bólar á byggingu nýs Landspítala þó þörfin sé brýn og uppsagnir og flótti heilbrigðisstétta haldi áfram ef ekkert verður að gert.

 

Tillögur Vinstri grænna um að fjármagna byggingu nýs Landspítala með auðlegðarskatti liggja fyrir og ríkisstjórnin hefur það í hendi sér hvort þjóðin fái nýjan Landspítala sem þjónar nútímakröfum um hátækni og góða aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk.

 

Framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða er skert um 20% á ári á næstu fimm árum. Þetta mun koma mjög illa við þá sjóði sem hafa mikla örorkubyrði og mun skerða lífeyrisréttindi félaga í þessum sjóðum mikið til framtíðar.

 

Stjórnvöld ákveða einhliða án nokkurs samráðs að falla frá þríhliða samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um fjármögnun á Virk, starfsendurhæfingarsjóði, sem skerða mun möguleika fólks sem lent hefur í alvarlegum slysum eða veikindum á að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Ekki er gert ráð fyrir neinum auknum fjármunum til að mæta mikilli þörf fyrir úrbætur í húsnæðismálum, hvorki í almenna húsnæðiskerfinu eða félagslega kerfinu.

 

Einhverjum þætti þessi listi ríkisstjórnarinnar sem innlegg inn í komandi kjarasamningaviðræður vera mikill eldiviður í harðar deilur á vinnumarkaðnum.

 

Samt er þetta ekki tæmandi listi í þeirri aðför að launafólki sem birtist í fjárlögum fyrir árið 2015.

 

Á sama tíma velur ríkisstjórnin að lækka skatta á eigna- og hátekjufólk og afsala sér tekjum af stórútgerðinni í veiðigjöldum.

 

Hvað gengur ríkisstjórninni til? Vill hún rífa í sundur alla sátt í landinu um að eftir erfiðan niðurskurð í kjölfar Hrunsins eigi viðsnúningur í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar að sjálfsögðu að koma almennu launafólki til góða og nýtast til uppbyggingar í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu?

 

Þessi ríkisstjórn er á hættulegri vegferð. Við Vinstri græn munum beita okkur af fullum krafti við að koma í veg fyrir þá eyðileggingarstarfsemi sem hér er á ferðinni.

 

- Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður VG.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30