Raunir rjúpunnar
Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn skrifar:
Þó að kosti púl og puð,
pústra, strengi, eyrnasuð.
Ef ég kemst að ári í stuð
ætla ég mér þrjúhundruð.
Við Ísafjarðardjúp hefur frá fornu fari verið kjörlendi rjúpna. Hvarvetna birkiskógarhlíðar, fjalldrapamóar og víðikjarr til skjóls og fæðuöflunar ásamt fjölbreyttum berjaallsnægtum svo úr skotnum fuglum rann oft meiri berjasafi en blóð.
Í fyrstu snjóum þegar rjúpnaflotarnir komu af fjöllum ofan í aðalbláberin í kjarrinu og styggðust upp við smalahó eða skothvelli, er ekki miklu logið að þeir hafi byrgt mönnum sólarsýn. Drunurnar í símalínunum þegar hóparnir voru að fljúga á þær í dimmviðri eða myrkri eru og minnisstæðar, og eins þegar ungahóparnir voru að busla sig í leirkenndum og þurrum vegarköntum á haustin, er farið var að rökkva og flasfengnir ökumenn hjuggu skörð í stofninn.Við krakkarnir þurftum líka mjög oft að reka rjúpnaungahópana úr slægjunni, svo sláttuvélarljárinn sneiddi ekki undan þeim lappirnar.
Alla mína rjúpnaskyttuáratugi hélt ég dagbók og þarf því ekki að treysta á brigðult minni, en þá var talið sjálfsagður hlutur að fá 900 til 1300 fugla haust hvert, um 30 daglega að meðaltali. Fyrir kom að dagsafli náði 100 eða meira og 11. nóvember 1986 rúmlega 200 og varð ég þó skotfæralaus löngu fyrir dagsetur. Þá varð ofanritaður bjartsýniskviðlingur til.
Hvernig átti mig líka að gruna að þessi frjósami og firnasterki fuglastofn myndi innan fárra ára nánast vera þurrkaður út? Á þessum löngu liðnu rjúpahaustum var fátítt að sjá tófuslóð eða skolla yfirleitt. Minkurinn hélt sig enn við vatn, fálkinn tók sinn toll í rjúpu, en tvö hreiður voru hér í dalnum að jafnaði. Nú er það liðin tíð og fálki afar sjaldséður.
Refir í stað rjúpna
Vorið 1994 hóf ríkisvaldið refarækt á Hornströndum og fljótlega eftir það, venjulega um veturnætur, hvolfdist ófögnuðurinn yfir okkur og refaslóðir flúruðu allar hlíðar, þegar sporrækt var. Tilgangslaust varð að ganga lengur til rjúpna, enda slíkt orðið úr takt við heilbrigða skynsemi og sjálfsögð verndunarsjónarmið.
Í sumar sá ég í fyrsta skipti enga rjúpu með unga. Í göngum, tvær veðurgóðar helgar, 15 fullorðnir í hvort skipti, sáust samtals innan við 20 rjúpur. Í þriggja daga eftirleitum sá ég tvær rjúpur. Svo komu túristatófurnar að norðan og gengu hér um hlöðin eins og heimilishundar svo næstum því var hægt að reka í þær byssuhlaupið.
Annálaður göngugarpur sem fór hér um nálæg fjöll fyrstu veiðihelgina, sá á eftir þremur rjúpum. Að gefnu tilefni sem ég mun koma að í næstu grein, hef ég verið að afla mér vitnisburða um síðustu rjúpnavertíð.
Svo farið sé réttsælis um landið sást lítið af rjúpum, en því meir af tófuslóðum á Ströndum. Vön og kunnug skytta sem var á Skagaheiðinni þrjá fyrstu veiðidagana fékk 5 rúpur og þrjár tófur. Mjög lítið sást eða veiddist af rjúpu í Eyjafirði og austur um, á Héraði komu flestir veiðimenn heim með „byssuna í borunni“.
Kunningi minn í Breiðdal fór í friðað land sitt við góðar aðstæður og náði einni. Hann hafði ekki frétt af neinni teljandi veiði niðri á Fjörðum. Góðvinur minn í Laugarási í Biskupstungum segir mér að þar í hverfinu hafi 60-80 rjúpur á undanförnum árum haft þar vetursetu, en nú hafi hann mest séð sex í einu og oft tófur eða slóðir þegar hann ekur til vinnu á morgnana.
Reykvíkingur fór við þriðja mann í Skjaldbreið við kjöraðstæður. Þeir sáu enga rjúpu og heyrðu aðeins um 10 skothvelli, þrátt fyrir að a.m.k. 30 til 40 manns væru á svæðinu. Algjör ördeyða í Borgarfirði og rjúpnalaust á utanverðu Snæfellsnesi en nóg af tófuslóðum.
Þrautreynd meistaraskytta sem þekkir Dynjandisheiðina eins og handarbakið á sér fór þangað við annan mann fyrstu tvo veiðidagana. Seinni daginn bættist sá þriðji við. Afraksturinn varð 6 af 9 rjúpum sem sáust og meðafli 9 tófur og 3 minkar. Og til að fullkomna veruleikafirringuna krafðist formaður Skotvíss þess í DV 21. nóvember að fá fleiri daga til veiða, „stofninn hlyti að þola það“!
Um „þol“ rjúpnastofnsins og þátt „fræðinganna“ í því að svo er komið mun ég fjalla í næstu grein.
– Þessi grein birtist einnig í Morgunblaðinu í dag.