Reykhólahreppur er kvennaríki
Hlynur Þór Magnússon skrifar:
Ekki finn ég á vef Hagstofunnar tölur um kvenræði eftir sveitarfélögum - var ég e.t.v. ósjálfrátt að skapa nýyrðið kvenræði sem núna hraut undan fingrum mér, eða var það til? Hitt veit ég, að orðið konuríki hefur eða hafði neikvæðan blæ. Ekki þótti virðulegt fyrrum þegar menn bjuggu við konuríki. Að minnsta kosti ekki virðulegt fyrir karlinn (hér kemur t.d. í hugann Björn í Mörk í Njáls sögu). Gissur gullrass í teiknimyndasögunum í gamla daga bjó við konuríki og Rasmína jafnan með kökukeflið á lofti. Sjálfur hef ég ekki kynnst slíku eldhúsáhaldi persónulega við aðra notkun en útflatningu á deigi í kleinur og smákökur (takist undan glasi eins og það var kallað í uppskriftabókum móður minnar) og þess háttar.
En varðandi Reykhólahrepp, þetta blágræna víðlenda ljúfa fallega milda og mjúka breiðfirska rúmlega þúsund ferkílómetra sveitarfélag: Hér er kvennaríki - í góðri og blíðri og jákvæðri merkingu. Sjálfur hef ég mjög lengi verið femínisti og samt ennþá eindregnari á síðari árum vegna áhrifa frá dóttur minni.
Segið svo að eggið geti ekki kennt hænunni (hananum í þessu tilviki).
Í Reykhólahreppi er sveitarstjórinn kona, allir starfsmenn á skrifstofu hreppsins eru konur. Oddvitinn er kona. Presturinn er kona. Skólastjóri Reykhólaskóla er kona. Skólastjóri leikskólans er kona. Forstjóri Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Barmahlíðar er kona. Forstöðumaður Grettislaugar og tjaldsvæðisins á Reykhólum er kona. Félagsmálastjórinn er kona. Ferðamálafulltrúinn er kona. Formaður leikfélagsins er kona (hún er reyndar með kökukefli við höndina í vinnunni). Drifkrafturinn í blakæfingum karla og kvenna er kona.
Formaður kvenfélagsins er kona.
Kaupmaðurinn á Reykhólum er kona. Þó að Eyvi sé meira áberandi í búðinni - ekki bara vegna stærðarinnar - er hann að eigin sögn vinnumaður hjá kaupmanninum.
Fyrir nú utan allar þær konur sem stjórna flestu bæði innan stokks og utan á heimilum sínum í Reykhólahreppi - án þess þó að þar sé um neitt konuríki að ræða.
Sjálfur stjórna ég engu og ekki einu sinni sjálfum mér enda er ég ekki kona.
Karlar í Reykhólahreppi eru í traustum en mjúkum höndum. Reykhólahreppur og flest sem hér er fengist við er í traustum en mjúkum höndum.
Er Reykhólahreppur einsdæmi hérlendis hvað þetta varðar?
Hjálpi mér ef ég gleymi einhverjum konum í þessari upptalningu. Nei, þetta er fíflalega sagt. Því yrði mjög mildilega tekið ef ég þekki mitt heima(kven)fólk í Reykhólahreppi rétt. Óþarfi að fá lánaðan hjálm hjá eiginmanni formanns kvenfélagsins til að verjast kökukeflum út af slíku.
Vafalaust vantar meinlega í upptalninguna hér að ofan enda er undirritaður / yfirskrifaður bæði fáfróður og minnislaus. Nefndi aðeins það sem kemur í hugann í fljótu bragði. Viðbætur eru vel þegnar í athugasemdadálkinn hér fyrir neðan.
Svo má víkja á landsvísu: Formaður Landssambands eldri borgara er kona í Reykhólahreppi.
Segi líkt og fornvinur minn eitt sinn um annað sveitarfélag og frægt varð: Það er gott að búa í Reykhólahreppi!
- Höf. er fyrrv. blekbóndi og afkomendur hans (sem og fyrrv. sambýliskonur) eru kvenkyns.
Hanna Dalkvist, laugardagur 14 janar kl: 17:19
Er ekki bankastjórinn líka kona? :)