Reyndan mann í forystusætið
Guðný Helga Björnsdóttir skrifar:
Nú á laugardaginn standa okkur sjálfstæðismönnum margir góðir kostir til boða við val fólks á sterkan framboðslista flokksins til Alþingiskosninga. Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu margt öflugt fólk er tilbúið að ljá krafta sína þjóðfélaginu til heilla. En við getum einungis valið 6 aðila af þeim 17 sem gefa kost á sér og þurfum því að gaumgæfa val okkar vel.
Ég tel að við eigum að velja Einar Kristin Guðfinnsson til að leiða listann í komandi kosningum. Hann er með góða tengingu við fólk í öllu kjördæminu, sem er nauðsynlegt þegar kemur að því að vinna af krafti fyrir það allt. Það er nokkuð ljóst að það geta ekki öll svæði kjördæmisins átt fulltrúa í efstu sætum framboðslista og því þurfa þeir sem veljast þangað að hafa góða tengingu sem víðast í kjördæminu og hafa góða þekkingu á staðháttum þess.
Fyrir landbúnaðarhéröð, sem mörg eru í kjördæminu, er nauðsynlegt að hafa leiðtoga sem hefur þekkingu á innviðum landbúnaðarkerfisins, eins og Einar Kristinn hefur, eftir að hafa verið landbúnaðarráðherra á mjög erfiðum tímum. Ég tel hann hafa unnið eins vel úr málum landbúnaðarins og hægt hefur verið.
Það sem ég hef heyrt bændur helst setja út á hans störf er að hann hafi ekki staðið vörð um búvörusamningana og framlagning matvælafrumvarpsins. Þar tel ég Einar Kristin hins vegar hafa unnið eins vel að málum og hægt var í þágu bænda. Þegar kom að niðurskurði fjárlaga í haust varð landbúnaðarráðherrann Einar Kristinn að lúta í lægra haldi fyrir félögum sínum í ríkisstjórninni, þar sem ekki stóð annað til boða en að búvörusamningurinn lyti sömu lögmálum og almannatryggingabæturnar, þannig að ekki yrði um verðbætur að ræða á þeim á árinu 2009. Vilji hans stóð svo til að bæta sem best úr þeirri ráðstöfun með útfærslu á búvörusamningnum í samkomulagi við bændur, eins og kemur fram í grein formanns Bændasamtakanna í Bændablaðinu þann 26. febrúar sl., en tími vannst ekki til að klára þá vinnu vegna stjórnarslitanna.
Varðandi matvælafrumvarpið, þá var það langt á veg komið er Einar Kristinn tók við stóli landbúnaðarráðherra. Hann hefur tekið mjög mikið tillit til athugasemda bænda við lagfæringu á frumvarpinu og frestaði afgreiðslu þess til að vinna það betur eftir tillögum forystumanna bænda.
Einar Kristinn hefur einnig víðtæka þekkingu á sjávarútvegsmálum eftir að hafa verið ráðherra þess málaflokks. Í okkar kjördæmi er mikið byggt á þeirri atvinnugrein og spilar hún stórt hlutverk í endurreisn íslenska þjóðarbúsins. Því mun verða styrkur að hafa forystumann með þekkinguna og reynsluna sem Einar Kristinn hefur á þeim málum.
Einar Kristinn hefur, í sinni þingmennsku, unnið af krafti fyrir allt kjördæmið í mjög mörgum málaflokkum og eigum við að þakka honum það með því að styðja hann til að leiða framboðslista flokksins í kosningunum.
Tökum þátt í prófkjörinu og veljum þá sterku aðila sem við viljum láta vinna fyrir okkur, samfélagi okkar til hagsbóta. Auk Einars Kristins í fyrsta sæti þurfum við í efstu sæti framboðslistans kröftugar konur, athafnamenn og reynda bændur.
- Guðný Helga Björnsdóttir,
bóndi á Bessastöðum í Húnaþingi vestra.