Sáttin rofin!
Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður skrifar
Stundum trúir maður ekki einhverju fyrr en maður tekur á því. Það átti við um mig, sem er 1. varaformaður atvinnuveganefndar, en nefndin hefur verið með til umfjöllunar þingsályktunartillögu um vernd og nýtingu landsvæða, tillögu verkefnastjórnar 3. áfanga rammaáætlunar um að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki í nýtingarflokk. Um þá tillögu ríkir langt í frá sátt, en hún hefur þó farið í gegnum þá faglegu ferla sem lög um rammaáætlun kveða á um og er nú í umsagnarferli og í meðferð atvinnuveganefndar.
Formaður atvinnuveganefndar hefur ekki farið dult með áhuga sinn á því að kippa með í leiðinni 7 virkjanakostum, en 5 þeirra hafa ekki fengið þá málsmeðferð sem lög mæla fyrir um og 2 kostir voru ekki tilbúnir til ákvarðanatöku hjá verkefnastjórn þar sem faghópar höfðu ekki skilað af sér.
Þegar formaður nefndarinnar var farinn að kalla fyrir nefndina aðila til að fjalla um aðra virkjanakosti en Hvammsvirkjun, sem var þar til umfjöllunar, þá fóru vissulega að renna á mann tvær grímur um að honum væri full alvara með að taka með í leiðinni aðra virkjanakosti, sem ég tel að við höfum ekkert umboð til að gera miðað við málsmeðferðarreglur laga um rammaáætlun.
Hvað gengur mönnum til með slíkum vinnubrögðum, sem kalla á að allt rammaáætlunarferlið verður í uppnámi og þeirri miklu samstöðu sem náðist á Alþingi á síðasta kjörtímabili með samþykkt löggjafar um rammaáætlun sé hent fyrir róða?
Það er eðlilegt að menn greini á um vernd og nýtingu landsvæða, en mikilvægt er að virða þá verkferla og leikreglur sem við höfum sett okkur sjálf og okkur er treyst til að vinna eftir.
Núverandi ríkisstjórn hefur ekki farið í grafgötur með áhuga sinn á áframhaldandi uppbyggingu stóriðju í landinu, sem kallar á auknar virkjanaframkvæmdir, og hefur hún ekki látið náttúruverndarsjónarmið trufla sig mikið hingað til.
Það er umhugsunarvert, að í dag fara 80% raforkuframleiðslu í landinu til stóriðju, 15% til annarra fyrirtækja og aðeins 5% til heimila landsins. Og á Suðurlandi, þar sem stærstur hluti raforkuframleiðslu í landinu fer fram, fer langstærstur hluti hennar til stórnotenda utan Suðurlands. Við eigum næga orku fyrir landsmenn til langrar framtíðar í dag og í þeim virkjanakostum sem nú þegar eru í nýtingarflokki, en það er spurning í hvaða starfsemi við viljum að orkan fari.
Það er því ekki skrýtið að íbúar á Suðurlandi spyrji sig hvort nýta megi náttúruauðlindir landshlutans með annað í huga en áframhaldandi uppbyggingu stóriðju.
Ferðaþjónustan hefur verið á mikilli siglingu upp á við undanfarin ár og ferðaþjónustuaðilar óttast að ef gengið er hart fram í virkjanaáformum á kostnað umhverfissjónarmiða muni það koma í bakið á okkur síðar meir og tek ég undir þær áhyggjur.
Við verðum að fara að venja okkur á að hugsa til lengri tíma í einu en ekki aðeins til eins kjörtímabils í senn, að hafa langtímasjónarmið að leiðarljósi en ekki stundargræðgi eins og núverandi stjórnarflokkar eru þekktir fyrir.
Hvernig ætlum við að skila landinu til næstu kynslóðar? Ætlum við að vera búin að ráðstafa stærstum hluta auðlinda okkar varanlega óafturkræft svo að komandi kynslóðir hafi ekkert val?
- Hvað með umhverfisvæna orkugjafa til þess að nýta á skipa- og bílaflota landsmanna?
- Hvað með þá staðreynd, að nær allir ferðamenn sem koma til landsins koma vegna náttúru þess?
- Hvað með samfélagsleg áhrif vegna umdeildra virkjanaframkvæmda og nýtingu orkunnar?
- Hvað með hugmyndir um sæstreng til Evrópu og hærra orkuverð til landsmanna í kjölfarið?
- Hvað með hugmyndir um raflínur yfir Sprengisand sem spilla ósnortnu hálendi landsins!
Allt eru þetta spurningar sem við sem samfélag þurfum að komast að niðurstöðu um og fara eftir þeim leikreglum sem við höfum sett okkur og ástunda fagleg vinnubrögð.
Síðasta útspil formanns atvinnuveganefndar er ekki spor í átt til sáttar né faglegra vinnubragða. Því miður.
- Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG og 1. varaformaður atvinnuveganefndar.