Siðferði og internetið
Eru umgengnisreglur sem við höfum komið okkur saman um í hinu daglega lífi ekki notaðar þegar kemur að hegðun eða skrifum á hinu svokallaða interneti? Gerum við okkur ekki nógu vel grein fyrir jákvæðum og neikvæðum eiginleikum netsins?
Fólk verður að gera sér grein fyrir því að þau skrif sem það sendir frá sér í netheima, bæði í gegnum fésbókina, bloggsíður eða heimasíður, eru opinber skrif sem koma fyrir augu margra. Íbúar Reykhólahrepps ættu að taka sér til fyrirmyndar gott siðferði þegar kemur að opinberum skrifum, bæði vegna náungans og vegna þeirrar auglýsingar sem skrifin eru fyrir samfélagið út á við.
Gott siðferði, sanngjarnt og gott viðmót eru auglýsingar líka. Hvernig auglýsum við okkur?
Hvernig sjá aðrir okkur þegar þeir horfa til okkar og reyna að kynna sér sveitarfélagið? Þarf náunginn að hafa áhyggjur af óskemmtilegum færslum á fésbókinni? Hvers konar fyrirmyndir erum við börnunum okkar?
Þetta eru spurningar sem við þurfum að spyrja okkur sjálf.
Verum góðar fyrirmyndir, það er ódýr og góð auglýsing!
- Ingibjörg Birna Erlingsdóttir.
Hanna Lára, fstudagur 18 mars kl: 11:44
Alveg sammála þessu :) varð hugsað til auglýsingunnar í sjónvarpinu með strákinn í kringlunni. Hann sagði ljótt um skólafélaga sinn og það var sagt í hátalarakerfi kringlunnar og þá skammaðist hann sín þegar hann heyrði þetta yfir allt. Hugsum áður en við skrifum á netinu í fljótfærni eða segjum ljóta hluti við hvert annað. Aðgát skal höfð í nærveru sálar.