Tenglar

29. apríl 2009 |

Sigur Vinstri grænna - þökkum frábæran stuðning

Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason.

Jón Bjarnason skrifar:

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vann stórsigur um allt land, en ekki síst í Norðvesturkjördæmi. Við fengum hér þrjá menn kjörna á þing. Þar komu ný inn þau Lilja Rafney Magnúsdóttir á Suðureyri og Ásmundur Einar Daðason bóndi á Lambeyrum í Dalasýslu. Ásmundur er jafnframt yngsti þingmaðurinn sem nú tekur sæti á Alþingi, 27 ára gamall, fæddur 1982. Geta má þess einnig að fyrsti varaþingmaður VG í kjördæminu, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir í Reykholti, er fædd 1981, og 2. varaþingmaður VG, Telma Magnúsdóttir í Steinnesi, Austur-Húnavatnssýslu, er fædd 1983.

 

Kosningarbarátta VG í kjördæminu var bæði kraftmikil og skemmtileg. Formlegar kosningaskrifstofur voru á 10 stöðum í kjördæminu en auk þess var á mörgum heimilum, götuhornum og hvar sem fólk hittist rekin kosningabarátta og málin skýrð. Við háðum heiðarlega og málefnalega baráttu sem hvíldi á okkar eigin málstað og pólitískri sýn.

 

Við síðustu Alþingiskosningar fyrir 2 árum fengu Vinstri græn 16% atkvæða í kjördæminu og juku fylgi sitt þá um 60% frá kosningunum 2003 og voru hársbreidd frá því að fá tvo menn kjörna. Nú fékk hreyfingin 22,8% atkvæða og hefur þá ríflega tvöfaldað fylgi sitt frá kosningunum 2003. Einungis vantaði 18 atkvæði til að VG yrði stærsti flokkurinn í kjördæminu.

 

Fyrir hönd okkar sem erum nú kjörin á þing fyrir VG í Norðvesturkjördæmi og annarra þeirra sem skipuðu sæti á listanum okkar vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu sem lögðu á sig ómælda vinnu, hug og hönd sem leiddi okkur fram til þessa glæsilega sigurs. Kjósendum þökkum við stuðninginn og traustið.

 

Við höfum verk að vinna, vorið með björtum nóttum fer í hönd.

 

Með óskum um gleðilegt sumar og baráttukveðjum á hátíðisdegi verkafólks 1.maí.

 

- Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi.

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30