Tenglar

23. janúar 2019 | Sveinn Ragnarsson

Sjónarmið sveitarstjórnarmanns

Jóhanna Ösp Einarsdóttir
Jóhanna Ösp Einarsdóttir

 

Þá er það síðasti pistillinn um vegamál (frá mér) í bili og mig langar að tala um baráttur. Við eigum öll í okkar litlu baráttum á hverjum degi. Baráttan við makann hver á að ganga frá eftir matinn, baráttan við að koma börnunum í rúmið kl. 8, baráttan við tryggingafélagið sem segir manni að það sé ekki hægt að tryggja heimilið fyrir því að það hellist 20 lítrar af málningu yfir forstofuna.

 

En þetta er pís of keik miðað við allar innri barátturnar sem maður þarf að eiga við sjálfan sig, sjálfsstjórn, agi og að taka rétta ákvörðun. En hvað er rétt ákvörðun, ég tel það vera þá ákvörðun sem veldur manni ekki hugarangri þegar maður svo leggur höfuðið á koddann eftir erfiðan dag. Það er alltaf auðveldara að taka ákvarðanir sem maður er tilbúinn að leggja hjartað á borðið fyrir heldur en ákvörðun sem maður sjálfur er ekki einu sinni viss um að sé rétt ákvörðun. En ég stend með minni ákvörðun og ætla lauslega að útskýra fyrir ykkur hvers vegna og innri baráttuna við að komast að niðurstöðu.

 

-Samkvæmt vegalögum má sveitarfélag ekki víkja frá tillögu vegagerðarinnar ef ný veglína felur í sér minna umferðaröryggi. Þarna takmarka vegalög skipulagsvald sveitarfélaga að einhverju leiti. Svo erum við ekki sammála um hvort að Barmahlíðar vegurinn eigi að falla undir þessa framkvæmd eða ekki. Umferðarþungi hefur áhrif á umferðaröryggi og við það að bílaumferð aukist um nokkur hundruð bíla á dag hefur það áhrif á umferðaröryggi. Miðað við núverandi umferð er nóg að laga kafla á leiðinni, það er til dæmis í kringum Gjárnar og í kringum Hrafnanesið. Miðað við 500 bíla umferð þarf að laga allan veginn. R var því ekki fær í raun og veru.

 

-Ég segi í bókun minni að sveitarfélaginu hafi verið settar fjárhagslegar skorður. Það snýr ekki að leiðarvalinu sjálfu og kostnaðarmun á leiðum, heldur rannsóknarskyldu sveitarfélagsins. Það eru enn óvissuþættir varðandi R leiðina sem geta haft áhrif á kostnað, þar má nefna botnrannsóknir, eða bergmálsmælingar á botninum í mynni Þorskafjarðar. Þessar rannsóknir kosta töluvert og eru ekki rannsóknir sem sveitarfélagið getur eða hefur bolmagn til að fjármagna. Allur aukakostnaður er fljótur að telja, bara kostnaður við að senda fólk á fundi til Reykjavíkur er fljótur að telja í svona litlu sveitarfélagi, og nú er jöfnunarsjóður að draga saman seglin og tel ég fjármagni sveitarfélagsins betur varið í annað en að halda áfram rannsóknum á vegstæði. Við erum nú þegar búin að leggja fram ansi háar fjárhæðir vegna rannsóknarskyldu sveitarfélagsins á aðalskipulagsbreytingu.

 

-Ég tel að ákveðið traust milli sveitarfélaga á Vestfjörðum hafi verið rofið. Reykhólahreppur tók sér rúmlega hálft ár í að skoða nýjan valkost sem kom upp, sem er skylda sveitarfélagsins. En fékk hvorki svigrúm eða stuðning til að klára þessa vinnu. Upphrópanir og reiði í garð sveitarfélagsins úr vestri og norð-vestri sveif yfir allri vinnunni. Á fjórðungsþingi, á aðalfundi fjórðungssambandsins, á fundumog síðast en ekki síst í fjölmiðlum. Þetta er erfitt mál og margar skiptar skoðanir og Reykhólahreppur tók þá ákvörðun að skoða þennan nýja valkost í staðin fyrir að sópa Múltí skýrslunni ofan í skúffu. Vinnan hefði verið okkur mun auðveldari ef að nágrannar okkar hefðu sýnt okkur stuðning og gefið okkur svigrúm til að klára vinnuna, því við hefðum komist að sömu niðurstöðu. Þannig að ég tel að nú þurfi að fara að byggja upp, og ég vona að þetta fái að gróa.

 

-Það er engin skýrsla hafin yfir gagnrýni og er hægt að setja út á og leiðrétta allar skýrslurnar sem hafa komið út. Það er bara fólk eins og þú og ég sem stendur á bak við þessar skýrslur, hvort sem það er fólk sem vinnur fyrir Vegagerðina, Viaplan eða Muticonsult.

 

-Nú breytist væntanlega hópurinn sem lýsir yfir óánægju sinni í fjölmiðlum, en upphrópanirnar halda áfram, þessu máli er langt frá því lokið. En mig langar að taka fram að samstarfið innan hreppsnefndar hefur verið til fyrirmyndar í þessu ferli. Karl og Ingimar hafa staðið sig með prýði og staðið á sínum hugsjónum. Ég deili ekki þessum hugsjónum, að R sé besti kosturinn, með þeim en það þýðir ekki að þeir eða ég hafi rangt fyrir sér. Ég styð þeirra baráttu áfram og vona að þeir leggi ekki árar í bát því það þarf svona fólk til að berjast fyrir sínu. Þeir hafa aldrei reynt að hafa áhrif á skoðanir okkar hinna og virt okkar skoðanir í öllu ferlinu. Það eru þó ansi margir aðrir sem hafa reynt að hafa áhrif á skoðanir okkar með símtölum og tölvupóstum.

 

-Nú hef ég verið að fá hamingjuóskir og þakkir með þessa ákvörðun. Það er enginn sigur unninn, þetta er bara skref í einhverja átt, ekki endilega rétta en einhverja. Það er réttur landeigenda í Þ-H að kæra og berjast fyrir sínu og ef ég væri í þeirra sporum myndi ég líka gera það og nota til þess öll ráð sem ég hefði þannig að þau fá minn skilning líka. Sama hvaða leið hefði verið valin, landeigendur hafa rétt á að berjast fyrir sínu. Ég þekki fólk sem myndi hagnast með öllum leiðunum og fólk sem myndi tapa með öllum leiðunum, ég kann vel við þetta fólk, enda sveitungar mínir, en ákvörðunin var ekki tekin út frá þeim og ég vona að þeir sem tapa með Þ-H sýni því skilning. Undanfarin 15 ár hef ég ekki haft sterkar skoðanir á leiðarvali í gegnum sveitarfélagið en haft þá skoðun að sú leið sem er vænlegust til að verða kláruð fyrst sé sú leið sem er best. Sem íbúi í Reykhólahreppi er Þ-H ekki sú leið sem myndi henta mér best, en sú leið sem ég tel að verði fyrst tilbúin og í stóra samhenginu skiptir það mestu máli. Ég stend því við ákvörðun mína og tel að þetta hafi verið skref í rétta átt, en ekki lokið neinum áfanga og enginn sigur fyrir einn né neinn.

 

Í þessu ferli erum við búin að eiga í baráttu við ríkið, Vegagerðina, nágranna, íbúa og fleiri en við þurfum að vera sátt við okkur, þess vegna er innri baráttan sú sem skiptir máli.

 

Lofa skal [dag að kveldi] mey að morgni.

Engin meiri umræða um vegamál frá mér (allavega næstu 6 vikurnar því þá byrjar næsta barátta).

 

Jóhanna Ösp Einarsdóttir

  

Athugasemdir

Stefán Skafti Steinólfsson, mivikudagur 23 janar kl: 15:54

Vel mælt. Jóhanna Ösp.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31