Skattlagning til þess að stúta störfum
Einar Kristinn Guðfinnsson skrifar:
Hvernig ætli best sé að skapa atvinnu í landinu? Þetta er kannski mikilvægasta spurningin sem við getum spurt okkur núna, þegar á milli 17 og 18 þúsund manns ganga um atvinnulausir. Þetta er spurningin sem stjórnmálamenn eiga umfram allt að velta fyrir sér og hlýtur að vera efst í kolli allra þeirra sem láta sig þetta mikilvægasta úrlausnarefni þjóðfélagsins einhverju varða.
Tvær leiðir til að örva atvinnulífið
Svarið er auðvitað það að búa sem best að atvinnulífinu. Gefa því tækifæri innan skynsamlegra marka á grundvelli almennra leikreglna. Við höfum oft kallað það að bæta rekstrarskilyrðin og kemur fáum spánskt fyrir sjónir. Síðan geta menn til viðbótar beitt alls konar örvandi aðgerðum sem allir þekkja og hefur oft gefið góða raun. Dæmi: Uppbygging í vegamálum, átak í viðhaldi opinberra bygginga, endurgerð gamalla húsa. Þetta eru dæmi um það hvernig nýta má almannafé beinlínis í þessu skyni.
Síðan er það önnur nálgun. Skattaleg örvun leysir úr læðingi störf sem ella yrðu ekki til. Tvö slík mál liggja nú á borðum stjórnmálamanna. Annað er óumdeilt. Það er ákvörðun um að endurgreiða að fullu virðisaukaskatt vegna vinnu á byggingarstað. Þetta mál kom fyrst upp í síðustu ríkisstjórn, núverandi ríkisstjórn fékk það í arf og við erum öll sammála um að festa í lög. Þetta örvar húsbyggingar og viðhald húsa, býr þannig til störf fyrir iðnaðarmenn, arkitekta og verkfræðinga, en atvinnuleysi er mikið í þessum starfshópum.
Hitt er umdeildara. Það mál er líka úr síðustu ríkisstjórn og felur í sér heimild til að gera fjárfestingarsamning við stóriðjufyrirtæki til þess að auðvelda þeim að ná sér í fjármagn, sem er svo erfitt á þessum tímum. Þetta er forsenda þess að hægt sé að fara í framkvæmdir í Helguvík og skapa 2000 störf eða þar um bil. Þetta vilja allir nema Vinstri grænir því þeim hugnast ekki stóriðja. Helmingur ríkisstjórnarinnar er sem sé á móti þessari atvinnusköpun, en það breytir engu um ákvörðunina. Við hin á þinginu ætlum að tryggja framgang málsins enda sjálfsagt mál. Það þýðir ekki að láta afturhaldssjónarmiðin eyðileggja endalaust atvinnutækifærin.
Skattlagning til að drepa niður atvinnulíf
Þetta er um atvinnusköpunina og hvernig hægt er að nýta örvandi skattaaðgerðir til að búa til störf. En svo er það hinn hluti krónupeningins. Það er hvernig menn geta beitt skattalegum aðgerðum til að tortíma störfum; stúta þeim. Það er ekki algengt tiltæki en vofir nú yfir, vegna þess að núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur kunngert fyrirætlan sína að innheimta svimandi háa skatta af hvalveiðum, sem geta þess vegna gert út af við þessa atvinnugrein, sem í sumar hefði getað skapað 200 til 300 störf, auk alls annars.
Og allt stafar þetta af þeim tiktúrufullu sjónarmiðum að ekki megi veiða hval! Þetta sé eitthvað minna verðug atvinna en önnur, þótt hún sé sjálfbær og í samræmi við innlend lög og alþjóðlegar samþykktir. Með öðrum orðum: Andstaðan við hvalveiðar stafar af hleypidómum og nú á að nota skatta til þess að ná sér niðri á þessari atvinnugrein.
Þetta er í rauninni ótrúlegt, en satt þó, því miður. Hér er verið að nota skattlagningu til að verðleggja í rauninni störfin út af markaðnum. Þarna sjáum við auðlindagjaldshugmyndina í ýktri mynd og sannar fyrir okkur hversu háskaleg þessi hugmyndafræði er.
Hugsunin er hins vegar alveg kýrskýr. Skatta má nota til að örva atvinnustarfsemi. Þá má líka nota til að drepa hana niður. Með því að setja á tiltekinn atvinnurekstur nógu háa skatta er hægt að gera þessa atvinnugrein alveg vonlausa. Þannig geta menn drepið niður störf sem þeim líkar ekki við. Milljón króna skattur á hverja veidda langreyð er galin hugmynd. 150 milljóna skattur á langreyðarúthald er út úr öllu korti. Þessar upphæðir fara ekki til þess að styrkja grundvöll viðkomandi atvinnustarfsemi, né til þess að fjárfesta, eða bæta kjör starfsfólks til sjós og lands.
Tortímandinn kominn á kreik
Aðalhættan er sú að þetta verði til þess að drepa niður þessa sjálfsögðu atvinnugrein. Og þegar upp er staðið verður niðurstaðan sú að allir tapa. Fyrirtækið sem ekki getur farið af stað í reksturinn, fólkið sem ekki fær vinnuna, þjónustugreinarnar sem ekki fá verkefni, sveitarfélögin sem ekki fá tekjur af umsvifum sem ella hefðu orðið. Og loks ríkissjóður sem fær vitaskuld ekki skatttekjurnar af atvinnustarfsemi sem er ekki til. Þetta hljóta allir að sjá; eða hvað?
Núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kýs þessa skattlagningarleið. Hann er, í óeiginlegri merkingu, kominn í hlutverk Tortímandans, Terminator, sem Arnold Schwarzenegger gerði frægan í bíómyndum á sinni tíð. Það er merkilegt að hann varð stjórnmálamaður eftir sigurgöngu í þessu hlutverki í bíómyndum. Ætli minn gamli starfsbróðir á Alþingi (en pólitíski andstæðingur) ætli sér að feta öfuga leið? Vera fyrst stjórnmálamaður og gerast síðar Tortímandinn sjálfur, þegar kemur að atvinnusköpun. Ég held að við ættum að forða honum frá þeirri ógæfu.
- Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.