Tenglar

11. janúar 2013 | vefstjori@reykholar.is

Skerðingin á elli- og örorkulífeyri er 16,4 milljarðar

Kristinn H. Gunnarsson.
Kristinn H. Gunnarsson.

Kristinn H. Gunnarsson fyrrv. alþingismaður skrifar:

 

Við mig hafði samband forsvarsmaður Landssambands eldri borgara vegna pistils sem ég hafði skrifað 9. nóvember um skerðingar sem elli- og örorkulífeyrisþegar hafa mátt þola á þessu kjörtímabili. Erindið var að fá rökstuðning minn fyrir því að skerðingin hefði orðið 13 milljarðar króna frá gildistöku laganna 1. júlí 2009 til ársloka 2012, en vitnað hafði verið til pistilsins og þau viðbrögð komið frá velferðarráðuneytinu, að tölurnar væru véfengdar.

 

Er því bæði rétt og skylt að rökstyðja mína niðurstöðu.

 

Eftir aðra yfirferð yfir gögnin fæ ég sömu niðurstöðu, og reyndar hækkar talan upp í 16,4 milljarða króna þar sem öll skerðingarákvæði laganna frá 1. júlí 2009 gilda út árið 2013, en þá felllur niður stærsta skerðingarákvæðið og eftir það verður skerðingin 1.150 mkr. á hverju ári.

 

Alþingi samþykkti lög um sumarið 2009 sem tóku gildi 1. júlí 2009 með ýmsum skerðingarákvæðum. Öll voru þau ótímabundið, þ.e. varanleg, en eitt þeirra, hækkun á skerðingarhlutfalli tekjutryggingar upp í 45% er tímabundið og gildir út árið 2013. Það lækkar greiðslur almannatrygginga til nærri 28.000 lífeyris- og örorkuþega um 2.500 mkr. á hverju ári skv. upplýsingum í bréfi félags- og tryggingamálaráðuneytisins frá 19. júní 2009 sem er að finna á vef Alþingis.

 

Fimm aðrar sparnaðaraðgerðir eru í lögunum og metur ráðuneytið í fyrrgreindu bréfi að áhrifin af þeim verði samtals 1.150 mkr. Alls verður árleg lækkun greiðslnanna 3.650 mkr. miðað við heilt ár út árið 2013.

 

Í greinargerð með frumvarpinu sjálfu metur fjármálaráðuneytið að „sparnaðurinn“ verði sama fjárhæð eða 3.650 mkr. miðað við heilt ár, en aðeins 1.830 mkr. árið 2009, þar sem breytingin tók ekki gildi fyrr en á miðju ári.

 

Þessar upplýsingar notaði ég í pistlinum. Samanlagður niðurskurður greiðslnanna til elli- og örorkulífeyrisþeganna er 1.830 mkr. árið 2009 og síðan 3.650 mkr. fyrir hvert ár frá 2010 til og með 2013 og loks 1.150 mkr. árlega þaðan í frá.

 

Skerðingin nemur því 13 milljörðum króna frá setningu laganna til ársloka 2012, eins og kom fram í pistlinum, og reyndar 16,4 milljörðum króna til ársloka 2013 þegar langþyngsta skerðingin fellur loks úr gildi.

 

Ekki verður séð, þrátt fyrir eftirgrennslan, að þessum ákvæðum hafi verið breytt og standa lögin óbreytt. Það er umhugsunarvert, sem gagnrýnt var í pistlinum, að kjör aldraðra og öryrkja eru skert verulega. Og þegar stjórnvöld telja sig geta aukið fjármagn til velferðarmála að nýju, eins og gert var í desember síðastliðnum, þá er valið að viðhalda harðri skerðingu þegar elli- og örorkulífeyrisþegar eiga í hlut, en barnabætur hækkaðar um fjórðung til fólks með 8 milljónir króna í árstekjur og umtalsverð hækkun er til fæðingarorlofs.

 

Þetta er val, pólitískt val, og um það snúast stjórnmálin. Þegar ekki er hægt að gera allt verða stjórnmálamenn að velja á milli. Það er auðvelt að vera sammála um að bæta kjör einstakra hópa með hækkun barnabóta og fæðingarorlofs.

 

En vandinn í þessu máli, sérstaklega fyrir jafnaðarmenn, er að svara því hvers vegna á að viðhalda skerðingu á kjörum elli- og örorkulífeyrisþega og færa fjármagnið til ungs og fullfrísks vinnandi fólks. Það vefst verulega fyrir mér.

 

- Kristinn H. Gunnarsson.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30