Tenglar

30. apríl 2010 |

Skiljanlegar fjarvistir frá byggðaumræðunni

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson skrifar:

 

Sú var tíðin að þingmenn Vinstri grænna létu sig ekki vanta þegar byggðamál voru rædd á Alþingi. Hér áður og fyrr hefði það verið útilokað að þingmenn flokksins tækju ekki þátt í umræðunni þegar á dagskrá var ný byggðaáætlun. En nú eru breyttir tímar. Iðnaðarráðherra, ráðherra byggðamála, lagði fram byggðaáætlun og mælti fyrir henni á dögunum. Tveir þingmenn VG sátu yfir umræðunni, að hluta amk. Enginn þingmaður flokksins ómakaði sig á hinn bóginn upp í ræðustólinn þennan dag til þess að fjalla um stefnumótun ríkisstjórnarinnar í byggðamálum.

 

Hvað veldur? Eru þingmenn flokksins áhugalausir um þennan málaflokk? Kæra þeir sig kollótta þegar þessi mál eru á dagskrá? Er forgangsröðunin þannig að þeim finnist önnur mál brýnni?

 

Eða er skýringin kannski sú að þeir sjá það sem blasir við öllum: Byggðaáætlunin er hvorki fugl né fiskur. Hún er ekkert innlegg í byggðamálin. Þetta þingplagg er hins vegar á ábyrgð Vinstri grænna rétt eins og Samfylkingarinnar. Þetta er stjórnartillaga, lögð fram á ábyrgð þingflokka Vinstri grænna rétt eins og Samfylkingarinnar.

 

Fjarvera þingmanna flokksins frá umræðunum bendir því til þess að þeir hafa ekki viljað axla ábyrgð á þessari snautlegu áætlun. Það er hin líklega skýring á fjarveru þeirra. Og hún er vel skiljanleg.

 

Sjávarútvegs og landbúnaðar hvergi getið

 

Inni í áætluninni er margs konar samtíningur, sem í mörgum tilvikum á ekkert skylt við byggðamál í sjálfu sér. Greinilegt er að í byggðamálum telur ríkisstjórnin til dæmis ekki að sjávarútvegur eða landbúnaður gegni merkilegu hlutverki. Sjávarútvegs er getið einu sinni i byggðaáætluninni og þar er um lítilfjörlegt atriði að ræða. Hvergi er stafkrók að finna um landbúnað. Aukinnar hlutdeildar landsbyggðarinnar í opinberum verkefnum er heldur ekki getið. Hefði þó verið sérstök ástæða til þess núna þegar verið er að draga saman seglin, sameina stofnanir á landsbyggðinni og fækka þar sérstaklega opinberum störfum, rétt eins og Samband sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hefur til dæmis bent á í nýlegri ályktun.

 

Þetta tómlæti gagnvart mikilvægum þáttum í atvinnumálum landsbyggðarinnar getur ekki verið að skapi Vinstri grænna. Þeir hafa því séð sitt óvænna og haldið sig fjarri þessum ósköpum. En hvað sem líður fjarveru þeirra frá umræðunni firra þeir sig ekki ábyrgð á ályktuninni. Hún er á ábyrgð beggja stjórnarflokkanna.

 

Iðnaðarráðherrann útskýrði þetta hins vegar með því að allt væri í svo miklu himnalagi í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum, að þessara málaflokka þyrfti ekki að geta í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar. En um opinberu störfin á landbyggðinni var ekkert sagt. Þá vitum við það.

 

Málum bjargað með lurkakyndingu!

 

Hins vegar verður að vekja athygli á hugkvæmni í byggðaáætlun Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Í ályktunarplagginu segir að ekki verði hægt að ná frekari árangri við lækkun orkukostnaðar á köldum svæðum með frekari hitaveituvæðingu. Ekkert er hins vegar fjallað um niðurgreiðslur orkuverðs í dreifbýli eða á köldum svæðum til lækkunar húshitunar og raforkukostnaðar. Hinu er slegið föstu, að ekkert verði aðhafst frekar í jarðhitaleit.

 

En við skulum samt ekki örvænta. Ríkisstjórnin hefur ráð undir rifi hverju. Lausnin er sú að orkunotendur á köldum svæðum breyti yfir í aðra orkugjafa og fari að kynda hús sín með lurkum!

 

Og lesendur góðir, þetta er ekkert grín. Þeir meina það. Þetta stendur í byggðaáætlun Vinstri grænna og Samfylkingarinnar á bls. 15 í 19. tölulið aðgerðaráætlunar ríkisstjórnarinnar. Hið nýja slagorð er sem sagt: Lurkakynding í stað hitaveitna!

 

- Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30