Skottulækningar Samfylkingarinnar – lifir sjúklingurinn aðgerðina af?
Sverrir Pétursson skrifar:
Fjórði maður á lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi, Þórður Már Jónsson, er iðinn við kolann og kastar ítrekað fram órökstuddum fullyrðingum um íslenskan sjávarútveg í greinum sínum. Hugmyndafræði Samfylkingarinnar í sjávarútvegi má e.t.v. best líkja við skottulækningar, sjúklingurinn er sjaldnast til frásagnar eftir aðgerð. Málflutningurinn er og í samræmi við hugmyndirnar - hljómurinn er holur.
Samfylkingin leggur ofurkapp á aðild að ESB og að Ísland sé virkt í „samfélagi þjóðanna". Ein af lykilstofnunum samfélags þjóðanna er Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO. Hún tiltekur jafnan Ísland fyrst allra þjóða þegar rætt er um ábyrgar fiskveiðar. Það er einmitt kvótakerfið sem er ástæða þess að íslenskur sjávarútegur er í fremstu röð í heiminum. Skyldu sérfræðingar FAO gera sér grein fyrir að þetta fiskveiðistjórnunarkerfi sé það sama og Þórður Már lýsir sem „fársjúku" í grein sinni í vikunni?
Þórður segir kvótakerfið hafa komið þjóðinni á kaldan klaka og tilgreinir veðsetningarupphæðir aflaheimilda sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Hann lítur líka framhjá þeirri staðreynd að í árslok 2007 námu heildarskuldir sjávarútvegsfyrirtækja aðeins 2% af heildarskuldum íslensks atvinnulífs. Er ekki nær að leita eitthvert annað eftir skýringum á hörmungum þjóðarinnar?
Þórði er annt um að spyrða sjávarútveginn við Sjálfstæðisflokkinn. Enginn fulltrúi þess flokks átti sæti í ríkisstjórn þegar kvótakerfinu var komið á. Og hvað með frjálst framsal aflaheimilda? Enginn hinna tuttugu þáverandi þingmanna Sjálfstæðisflokksins greiddi því atkvæði sitt á Alþingi. Það gerðu hins vegar bæði Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon! Bæði tvö hafa reyndar skipt um stefnu - og stjórnmálaflokk líka - og fara nú í fylkingarbrjósti þeirra sem vilja gera aflaheimildir upptækar.
Þær hugmyndir Samfylkingarinnar að ráðast að rótum grundvallaratvinnuvegar landsins með 5% árlegri fyrningu aflaheimilda eru skottulækningar. Þær eru aðför að ábyrgri fiskveiðistjórnun, aðför að rekstargrundvelli sjávarútvegsfyrirtækja, aðför að atvinnuöryggi sjómanna og fiskverkafólks og síðast en ekki síst ávísun á verðfall eigna fólks í NV-kjördæmi.
- Sverrir Pétursson,
útgerðarstjóri hjá Hraðfrystihúsinu-Gunnvöru hf.