Skynvillutoppar við Fretvog
Pistill Jóhönnu Sveinsdóttur dagskrárgerðarmanns
sem hún flutti í RÚV á degi íslenskrar náttúru 2011
Allt sem íslenskt er þykir agalega merkilegt. Að minnsta kosti í augum Íslendinga. Þess vegna höldum við hátíðlega dag íslenskrar tungu og dag íslenskrar náttúru. Hvort tveggja fléttast svo saman í alíslenskum örnefnum á alíslenskri náttúru.
Mörg örnefnanna er ekki auðvelt að læra við fyrstu heyrn. Ætli maður til dæmis að finna á korti Hnífla þá eru þeir norðan Gjóstu, vestan við Gapuxa, skammt frá Skrauti, norðaustan af Kisu og Klifshagavallakvísl. En þótt örnefni hljómi undarlega í fyrstu verða þau æ eðlilegri með aukinni notkun, eins og Trékyllisvík, Surtsey eða Saurbær.
En nafngiftin þarf ekki að vera flókin. Til að mynda fékk fjallaþyrping ein heitið Kerlingarfjöll. Þá þótti kjörið að skíra ána sem þaðan rennur Kerlingará, og gilið Kerlingargil, og fossinn sem þar er Kerlingarfoss.
Að sama skapi virðist fólk ekki alltaf hafa nennt að hafa upp á nýjungum í nafngiftum. Til dæmis eru hundrað og fjögur skráð örnefni á landinu kennd við Búrfell. Fellin sjálf eru yfir fimmtíu talsins og svo er til ógrynni af Búrfellsöldum, dölum, flóum, giljum, gjám, heiðum, hálsum og hólum, vötnum og völlum.
Þetta hefur þann kost að það eru færri heiti að leggja á minnið. En hefur þann ókost að komi til þess að maður villist í íslensku náttúrunni, og Búrfell er eina kennileitið manns, þá er erfitt að vita hvort maður er í námunda við Grenivík eða Selfoss, einhversstaðar þar mitt á milli eða lengst frá.
Þegar sömu nöfnin eru notuð svo títt er stundum farin sú leið að aðgreina staðhætti í innri og ytri, syðri og nyrðri, litla og stóra, styttri og lengri, vestri og eystri eða háa og lága. Önnur örnefni þurfa ekki slíka aðgreiningu enda alveg sér á þjálum báti. Þar má nefna Títublaðavörðu við Grindavík, Vælaskorafjall í Vesturbyggð eða Surtluflæðu á Sprengisandi.
Sumir staðir hafa blásið mönnum í brjóst og hlotið nöfn á við Glæsivellir, Fagrihvammur, Unaðsdalur, Fríðá, Gleðivík, Góðhagar eða Skínandi. Fyrir þá sem ekki vissu þá er Himnaríki í Grímsnes- og Grafningshreppi og til að komast þangað má nota Himnastiga sem er að finna í Skagafirði.
Önnur nafngift er ekki eins aðlaðandi og maður veltir fyrir sér hvort henni hafi verið ætlað að halda fólki frá. Það hljómar sem öfugmæli að ætla að ganga inn að Ógöngum eða Ófæruhöfða. Yrði maður spenntur að fá boðsferð inn í Manndrápsgil þar sem svala ætti þorstanum úr Drekkingarpytti? Ætli það sé óhætt að ganga yfir Slysaöldu eða Leggjabrjót? Ég efa að það sé mikið útsýni í Muggudölum og ég vil hvorki tjalda við Fýluvog né Blóðpoll og þaðan af síður á Óyndishöfða eða við Drullustykki.
Svo eru til örnefni sem er gaman að flissa yfir. Þar má nefna Upptyppinga við Öskju en heitið býður upp á allskyns orðaleiki. Á Austfjörðum, skammt frá Innri- og Ytri-Timburgatnatindum er að finna Hundsrass. Í Loðmundarfirði skarta Gunnhildarbrjóst sínu fegursta, hafi einhver hug á að ganga á þau. En vanti upp á brjóstin, þá eru Geirvörtur í sunnanverðum Vatnajökli. Fretvog er að finna í Mývatnssveit og áin Pissa rennur úr Sauðdrápsbotnum. Ljótahlíð í Reykhólahreppi þykir afar fögur. En fáir staðir þykja ilma betur en Æluengi sem er skammt frá Handklæðisholti í Borgarfirði. Og ég ætla að hún hafi verið þurr á manninn hjónaferðin sem leiddi af sér nafngiftina Kaldaklof, ólíkt ferðinni við Ballará í Klofningi. Sýslumannsskó og Jólaborðin er að finna við Vestmannaeyjabæ og einnig Austur-Há, Blá-Há og Há-Há.
En hvort sem íslenska náttúran er kölluð fögru, ljótu eða fyndnu nafni, þá er hún mikilfengleg hvernig sem á hana er litið. Og þann mikilfengleika má þakka því að gróðurinn hérlendis er lágvaxinn, þannig að fjöllin virðast miklu stærri. Því mætti skíra íslensk fjöll samheitinu Skynvillutoppar.
- Síðdegisútvarpið á RÚV 16. september 2011, á degi íslenskrar náttúru.
__________________________________________________________
Ljótahlíð í Reykhólahreppi, sem Jóhanna Sveinsdóttir nefnir í pistli sínum, er merkt á meðfylgjandi kort (smellið á myndina til að stækka hana) úr kortasafninu á vef Landmælinga Íslands. Einmitt sama dag og pistillinn var fluttur, á degi íslenskrar náttúru, var enn einum möguleikanum bætt við á vef Landmælinga. Það er örnefnasjáin þar sem aðeins andartak þurfti til að finna Ljótuhlíð. Síðan er hægt að þysja út og inn eftir vild en staðurinn er áfram merktur þó að þysjað sé út þannig að sjálft letrið hverfi. Minnt skal á borða og tengil Landmælinga Íslands neðan við efstu frétt hér á vefnum.