Tenglar

20. apríl 2009 |

Spurningunni um ESB verður að svara

Þórður Már Jónsson.
Þórður Már Jónsson.

Þórður Már Jónsson skrifar:

 

Samfylkingin hefur fengið ágjafir úr ýmsum áttum vegna Evrópustefnu sinnar, meðal annars frá Sjálfstæðisflokknum. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, var jákvæður í afstöðu sinni gagnvart ESB fyrir landsfund Sjálfstæðismanna en skyndilega í kringum landsfund flokksins breyttist hljóðið í Bjarna gjörsamlega. Það mátti ekki ræða það að fara í aðildarviðræður. Á bloggsíður Bjarna Harðarsonar sagði einn harður ESB andstæðingur: „Aðildarviðræður fer fólk í sem hefur hugsað sér aðild. Við erum andsnúin aðild. Bara til að setja upp fljótlega samlíkingu þá langar mig ekki til að vera meðlimur í mótorhjólaklúbbnum Fáfni, og dettur því ekki í hug að ræða við þá um það." Þetta þykir mér vera lýsandi fyrir það hversu einhæfur málflutningur þessara manna er oft á tíðum. Skemmst er frá því að segja að Bjarni og félagar í L-listanum hafa nú dregið sig í hlé.

 

Hvað þýða „aðildarviðræður"?

 

Það eru fleiri flokkar sem hafa tekið eindregna afstöðu gegn aðildarviðræðum að ESB. Það er einkennilegt að hugsa til þess að stjórnmálaflokkar sem vilja láta taka sig alvarlega séu tilbúnir til þess að taka jafn eindregna afstöðu gegn aðildarviðræðum án þess að hafa áhuga á því að vita hvað það myndi raunverulega þýða fyrir okkur að ganga í ESB. Hvort við getum hagnast á því. Ég hef orðið var við það úti í samfélaginu að fólk almennt virðist ekki gera sér ekki næga grein fyrir því hvað aðildarviðræður þýða. Þessu gæti Samfylkingin þurft að breyta. Hugsanlegt er að gefa þurfi fólki skýra hugmynd um að það hafi í raun ekkert að óttast og af hverju. Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur og myndi aldrei styðja aðild að ESB ef það myndi þýða að stoðunum yrði kippt undan sjávarútveginum eða landbúnaðinum. Til þess að komast að því hvort slíkt myndi gerast við aðild er eina leiðin að fara í aðildarviðræður. Út úr aðildarviðræðunum fáum við skýra mynd af því hvað það þýðir fyrir okkur að ganga í ESB. Niðurstöðurnar yrðu lagðar fyrir þjóðina til samþykkis eða synjunar.

 

Lægra vaxtastig, minni gengisáhætta, lægra vöruverð og engin verðtrygging

 

Það eru ekki margir eftir sem halda því fram að krónan gefi okkur þann stöðugleika sem heimilin og atvinnuvegirnir þurfa. Þær gengissveiflur sem hafa dunið á okkur hefðum við getað forðast að stórum hluta til ef við hefðum haft stærri og tryggari gjaldmiðil. Þar hlýtur Evran að koma inn sem fyrsti kostur, enda er hún sá gjaldmiðill sem notaður er á okkar stærsta markaðssvæði. Krónan er verðtryggð sem þýðir að við höfum þurft að búa við langt yfir 20% vaxtabyrði húsnæðislána (verðbólga plús vextir). Þetta þýðir að áhættan af lántöku liggur alltaf hjá lántakanum. Evran er aftur á móti óverðtryggð. Vaxtastigið á Evrusvæðinu er nú í kringum 3,5-4,5% á húsnæðislánum. Miðað við ástandið undanfarið er munurinn á vaxtabyrðinni því hátt í 20% á  ársgrundvelli! Allar líkur eru einnig á því að aðild að ESB myndi hafa í för með sér lægra vöruverð. Þetta eru kostir sem myndu skipta heimilin og fyrirtækin gríðarlega miklu. Lægra vaxtastig, mun minni gengisáhætta og lægra vöruverð. Ungt fólk sem á eftir að greiða vexti í áratugi ætti svo sannarlega að hafa áhuga á slíkri kjarabót.

 

Hvaða verð þurfum við að greiða fyrir aðild?

 

Vissulega fáum við þetta ekki allt frítt. Hins vegar er spurning hvað við komum til með að þurfa greiða fyrir þessa kosti? Þar ber hæst að nefna hvort við munum geta haldið fullum yfirráðum yfir auðlindum okkar og hvort við getum varið landbúnaðinn á Íslandi. Ég tel enga ástæðu til þess að ætla að við munum ekki geta náð hagstæðum samningum vegna þess. Við munum ekki komast að því nema við tökum skrefið og förum í aðildarviðræður við ESB. Þetta stórhættulega orð „aðildarviðræður" þurfa allir Íslendingar að gera sér grein fyrir hvað þýðir. Í stuttu máli þá yrðu þær niðurstöður sem út úr aðildarviðræðunum koma sá grundvöllur sem við gætum lagt fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ljóst í mínum huga að mig langar mikið í þá kosti sem ESB hefur upp á að bjóða, en ef það þýðir að við myndum glata yfirráðum okkar yfir auðlindunum eða að það myndi þýða endalok íslensks landbúnaðar þá yrði ég að segja nei takk við aðild að ESB. Ég get raunar fullyrt að það séu ekki til margir Íslendingar sem myndu samþykkja slíka fórn, hvorki í Samfylkingunni né í öðrum flokkum.

 

Svörum spurningunni

 

Ég hef aldrei verið yfirlýstur ESB sinni, en ég er opinn fyrir öllum hugmyndum sem geta bætt hag heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Augljóst er að spurningunni um ESB þarf að svara hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Evran er fyrsti kostur sem við getum litið til þegar kemur að myntvandanum. Evruna og þá kosti sem henni fylgja fáum við aldrei nema við göngum í ESB, hvað svo sem talsmenn annarra flokka reyna af veikum mætti að halda fram. Því er brýnt að svara því með játandi eða neitandi hætti hvort við hyggjumst fara í Evrópusambandið. Verði aðildarviðræðurnar óhagstæðar og svarið yrði nei, þá getum við farið að líta á næst besta kostinn í stöðunni til lausnar á myntvanda okkar okkar. Við verðum hins vegar að líta á besta kostinn fyrst! Það er lífsspursmál fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu að svara þessari spurningu. Verum óhrædd og leitum svara við spurningunni um ESB.

 

- Þórður Már Jónsson, viðskiptalögfræðingur, skipar fjórða sæti á lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi í komandi kosningum.

www.thordurmar.blog.is

 

Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31