Tenglar

26. maí 2009 |

Stjórnin stuðlar að óvissu

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.

Einar K. Guðfinnsson skrifar:

 

Hvað svo sem menn segja um hlutverk stjórnvalda er þó allavega eitt ljóst. Ríkisstjórnum er ætlað að draga úr óvissu og skapa skynsamlegan rekstrargrunn og bærilegar aðstæður fyrir almenning og fyrirtækin í landinu. Núverandi ríkisstjórn hagar sér með þveröfugum hætti. Þrátt fyrir yfirlýsingagleði og tilskipanatakta liggur aðeins eitt fyrir. Rikisstjórnin dregur ekki úr óvissu, né kemur með leiðir út úr ógöngunum. Þvert á móti. Stjórnin stuðlar í rauninni að óvissu í landinu.

 

Tökum nokkur dæmi.

 

Peningamálastjórnin og gengisfall

 

Í fyrsta lagi: Nú virðist ríkja algjör óvissa um hvernig peningamálastjórninni í landinu verður háttað á næstunni. Peningastefnunefnd Seðlabankans gaf fyrirheit við síðustu vaxtaákvörðun um hratt vaxtalækkunarferli, sem við myndum sjá stað í byrjun næsta mánaðar. En þá er þess að geta að stjórnvöld eru í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem lýsir því yfir að hægja verði á vaxtalækkunum og að fara beri hægar í sakirnar. Ástæðan sem sjóðurinn tilgreinir eru aðstæður í efnahagslífinu og sú mikla óvissa sem ríkir um ákvarðanir í efnahagsmálum, svo sem stefnu í ríkisfjármálum.

 

Enginn treystir sér þess vegna að segja til um hvort hægja muni á vaxtalækkunum eða hvort þær verði snarpari. Um þau mál heyja menn nú ágiskanakeppni úti í þjóðfélaginu.

 

Í annan stað: Gengi krónunnar er sem í frjálsu falli. Ástæðuna rekja menn til helsta einkennis stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar; óvissunnar. Verðbólguþrýstingur eykst, skuldir fyrirtækja og heimila hækka . Engin svör fást frá ríkisstjórninni um hvort eða þá hvernig verður brugðist við. Skortur á stefnumörkun í ríkis og peningamálum býr til uppskrift að gengisfalli, sem við höfum orðið vitni að síðustu vikurnar.

 

Skjóta fyrst - spyrja svo

 

Í þriðja lagi: Á sama tíma og ráðherrar ríkisstjórnarinnar keppast við að segja okkur að sjávarútvegurinn þurfi að gegna stærra hlutverki í þjóðarbúskapnum, boða stjórnvöld algjörlega óundirbúin áform um fyrningu veiðiréttar. Enginn hefur fært fyrir því rök að slíkt efli sjávarútveginn. Öðru nær. Öllum er ljóst að slíkt veikir sjávarútveginn. Ég krafði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svara um þessi mál á Alþingi í síðustu viku og fékk engin svör. Nema þau að allt væri óljóst um framkvæmdina og ekkert - nákvæmlega ekkert - hefði verið gert í faglegum undirbúningi málsins. Þetta er ótrúlegt, en satt, því miður.

Skaðinn er þó skeður. Afleiðingarnar fyrir greinina eru þegar orðnar neikvæðar. Þetta heitir að skjóta fyrst og spyrja svo.

 

Ágreiningur um ESB og stóriðju

 

Fjórða dæmið: Ríkisstjórnin boðar þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þá gerist það að einn ráðherra ríkisstjórnarinnar, þingflokksformaður og hópur þingmanna úr öðrum stjórnarflokknum gjalda opinberlega varhug við slíku. Enginn þingmaður eða ráðherra Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hefur stigið fram til þess að lýsa yfir stuðningi við málið; nema kannski helst formaður flokksins Steingrímur J. Sigfússon.

Ekki verður annað séð en að hér sé þá í burðarliðnum þingsályktunartillaga sem hafi allt eðli þingmannamáls, en sé ekki stjórnartillaga. Alla vega er ljóst að stjórnarliðið stendur ekki að baki þessum áformum.

 

Og loks liggur það fyrir að algjör óvissa er um hvernig staðið verður að uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Ekki bara álvera, heldur margs konar annars iðnaðar, þar sem menn tala út og suður. Stærsti einstaki þáttur atvinnuuppbyggingar ríkisstjórnarinnar sem var kynntur í vetur laut að stóriðjumálum. Fyrir liggur andstaða annars ríkisstjórnarflokksins við slík áform. Þarna virðist líka allt í uppnámi og fullkominni óvissu.

 

Helsti boðskapur ríkisstjórnarinnar er því óvissan á þeim tímum þegar við þurfum á öllu öðru fremur að halda. Ríkisstjórnin býður ekki fram lausnir, heldur skapar vandamál.

 

- Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30