Tenglar

28. september 2013 | vefstjori@reykholar.is

Stjórnvöld standi við yfirlýsingar og gefin loforð

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.
Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Ályktun kjaranefndar Landssambands eldri borgara (LEB)

27. september 2013

 

Nú þegar þingsetning nálgast er rétt að minna þingmenn og stjórnvöld á að standa við loforðin gagnvart eldri borgurum þessa lands. Stóru loforðin skipta okkur miklu máli og því ítrekum við þær kröfur að staðið verði við gefin loforð. Í ræðu sem Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, flutti á útifundi þann 10. september sagði hún meðal annars:

 

Í bréfi sem Bjarni Benediktsson sendi til kjósenda fyrir kosningar segir hann: Eldri kynslóðir verðskulda að búa við öryggi og góð lífsgæði. Fái Sjálfstæðisflokkurinn umboð til að leiða næstu ríkisstjórn munum við setja eftirfarandi mál í öndvegi:

  • Við viljum að þeir sem komnir eru á efri ár njóti afraksturs erfiðis síns.
  • Stjórnvöld eiga að hlúa að öldruðum en ekki íþyngja þeim með ósanngjarnri skattlagningu.
  • Við ætlum að afturkalla kjaraskerðingu ellilífeyrisþega sem komið var á árið 2009.
  • Við ætlum að afnema eignaskattinn. Sá skattur er ekkert annað en árás á eldra fólk sem býr í skuldlausu eða skuldlitlu húsnæði.
  • Við ætlum að lækka fjármagnstekjuskattinn, sem kemur einna harðast niður á eldri borgurum landsins.
  • Við ætlum að afnema tekjutengingar ellilífeyris. Þar er sannarlega um réttlætismál að ræða.

Þetta eru fögur loforð frá núverandi fjármálaráðherra og við eldri borgarar myndum fagna því ef við sæjum þau öll verða að veruleika, núna þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur til þess völd og áhrif, og ekki síður hefur Framsóknarflokkurinn lofað bættum kjörum og afnámi skerðingarákvæða frá árinu 2009 í sínum ræðum og ritum fyrir og eftir kosningar.

 

Í grein sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skrifaði í Morgunblaðið 27. apríl sagði hann m.a.: Fjölmargir sem hafa mátt þola óeðlilegar skerðingar, t.d. eldri borgarar og öryrkjar, þurfa að fá bót sinna mála. Í lokin sagði hann í greininni: Ísland býr yfir nægum auðlindum, framleiðslugetu og þekkingu til að allir geti notið velferðar. Til þess þarf bara skynsemi við stjórn landsins. Í fréttum RÚV eftir kosningar eða 25. maí sagði hann m.a.: Gengið verður strax í að leiðrétta kjör öryrkja og aldraðra. Þessi hópur hefur þurft að þola mun meiri skerðingar á kjörum en flestir aðrir.

 

Félagsmálaráðherra, Eygló Harðardóttir, sagði í fréttum RÚV 27. maí eftir kosningar, þar sem rætt var við hana um kjör aldraðra og öryrkja: Við höfum talað um það að taka til baka þær skerðingar og munum gera það.

 

 

Hér að ofan er vitnað í ræðu Jónu Valgerðar 10. september og teljum við rétt að minna á þau orð.

 

Við þetta er því að bæta, að aldraðir hafa verulegar áhyggjur af lyfjakostnaði og flækjustigi þar. Einnig af auknu álagi á lækna við að gefa fólki vottorð, þegar jafnvel þarf að bíða lengi eftir viðtali við heimilislækni. Þeirri umræðu að hækka komugjöld til lækna eða hækka kostnað í heilbrigðiskerfinu er harðlega mótmælt. Um það mun aldrei ríkja sátt. Samfélagið ætti að virða þann kynslóðasáttmála, að þeir sem núna eru eldri borgarar hafa byggt þetta þjóðfélag upp, með vinnu og sköttum, og eiga því rétt á að njóta öryggis á efri árum. Kjaranefnd Landssambands eldri borgara skorar á stjórnvöld að standa við gefin loforð og yfirlýsingar varðandi kjör eldri borgara í aðdraganda kosninga á liðnu vori.

 

 

Samþykkt á fundi kjaranefndar LEB 27. september 2013.

 

- Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður kjaranefndar LEB.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30