Tenglar

22. október 2015 |

Stórar áætlanir kalla á spurningar

Jón Einar Jónsson.
Jón Einar Jónsson.

Jón Einar Jónsson líffræðingur skrifar:

 

Undanfarið rúmt ár hefur verið rætt að skera þang og þara til vinnslu úr grunnsævi Breiðafjarðar. Síðan virðast enn fleiri aðilar vilja sækja í botn Breiðafjarðar til slíkrar vinnslu og stórar tölur nefndar í tonnum af lönduðum þara og þangi. Nefnd hefur verið fimmföld núverandi þarataka Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum sem mögulegt markmið í þeim efnum.

 

Þessir „skógar sjávar“ eru hins vegar undirstaða alls lífs í Breiðafirði. T.d hrygnir grásleppan í þaraskógunum og æðarkollan elur unga sína í klóþangsbreiðunum. Fari menn of geyst í þara- og þangtöku mun það raska tilveru lífríkisins sem er samfélagi okkar svo nákomið. Það er nú einu sinni náttúran sem gerir þennan stað að því sem hann er.

 

Stórar áætlanir kalla á spurningar um hversu langt verður hægt að ganga. Þær spurningar eiga fullt erindi til samfélagsins, því það virðist ekki vera nein löggjöf um hve mikinn þara eða þang má taka eða hve oft.

 

Hversu mikið ætli lífríkið þoli en haldi samt starfsgetu sinni óbreyttri? Það eru engar rannsóknir til um það, hversu lengi X ferkílómetrar af brottnumdum þaraskógi eru að koma til baka, eða hvenær krabbarnir, kuðungarnir og marflærnar sem hurfu þaðan koma svo aftur. Það eru í mesta lagi til menntaðar ágiskanir um það hversu marga ferkílómetra er að finna af þara eða þangi í Breiðafirði.

 

Til er tæplega ársgömul ályktun (17.12.2014) frá Umhverfisnefnd Stykkishólms um málið:

 

Í ljósi hugmynda og umræðu um mögulega þörungaverksmiðju í Stykkishólmi hvetur umhverfisnefnd bæjarstjórn til að standa vörð um einstaka náttúru svæðisins og hafa hag umhverfisins að leiðarljósi í allri atvinnuuppbyggingu.

 

Þarna þykir mér vel að orði komist, en hvað er átt við nákvæmlega? Hvernig tryggjum við að ekki verði of langt gengið í nýtingu á þara og þangi, þegar afleiðingar svona vinnslu, ásamt höfuðstólnum sem á verður gengið, eru jafn illa þekktar og nú er? Hvaða ráðstafanir verða þaravinnslumenn látnir gera til að fyrirhuguð nýting verði sjálfbær, þ.e. fuglarnir verpi áfram og grásleppan hrygni?

 

Er ekki kominn tími til að ræða þetta eitthvað, og þá einhvern tíma áður en drengirnir mæta niður á bryggju?

 

 

- Höfundur er líffræðingur, starfsmaður Háskóla Íslands og forstöðumaður Háskólaseturs Snæfellsness. Hann er búsettur í Stykkishólmi.

 

Um Jón Einar Jónsson og rannsóknasetrið í Stykkishólmi á vef Háskóla Íslands

 

Sjá einnig:

03.10.2015  Óttast ofnýtingu þörunga í Breiðafirði

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31