Tenglar

12. september 2016 |

Teigsskógur við Þorskafjörð

Reynitré í utanverðum Teigsskógi.
Reynitré í utanverðum Teigsskógi.
1 af 5

Ólafur Arnalds, náttúrufræðingur og prófessor skrifar:

 

Vitrir menn hafa ritað eitthvað á þá leið að víðerni og óröskuð náttúra séu ekki munaður heldur lífsbjörg sem nærir mannsandann, jafn nauðsynleg sem vatn og brauð. Ísfirðingar og nærsveitamenn þekkja vel gildi víðerna með Hornstrandir handan fjarðar. Þau merkilegu víðerni eru nú þegar orðin meðal hornsteina efnahags Vestfjarða.

 

En víkjum sögunni í Reykhólahrepp. Gönguleiðin um Teigsskóg, frá Hallsteinsnesi að Gröf í Þorskafirði, er meðal þeirra fallegustu sem finnast á landinu. Landið er ósnortið og viði vaxið, birki með stökum reynitrjám, sem mörg hver eru ansi státin. Skóglendið er illfært gangandi fólki svo nota verður leiðina neðan skógar nærri flæðarmálinu. Fjaran einkennist af gríðarlega miklum fjölbreytileika; hvers kyns flæður og leirur, ofar eru votlendi af misjöfnu seltustigi, en síðan tekur skógarþykknið við. Hér er að finna einna mestan mun flóðs og fjöru á landinu og þótt víðar væri leitað, sem eykur mjög á fjölbreytni strandsvæðisins. Boðaföll og fossar á innflæðinu auka náttúrufegurðina.

 

Lífríkið er feykilega fjölskrúðugt, hér búa margar fuglategundir: mófuglar, votlendistegundir og ýmsar tegundir sem treysta á fjöruna og sjóinn. Ernir nýta innlögnina og svífa inn með hjallanum og sækja sér æti að vild. Óðalið úti fyrir nesinu. Óvíða á landinu er að finna jafn heillandi óraskaða heild frá fjöru til fjalls, en að auki hefur skógurinn mjög sérstaka stöðu sem óraskaður birkiskógur. Ljóst að þessi gönguleið er einna fallegust á öllum Vestfjörðum og ætti tvímælalaust að sinna henni betur. Svæðið gæti dregið björg í bú Reykhólahrepps. En nú stendur til að raska þessu svæði með vegalagningu.

 

Sá er þetta ritar hefur aðeins kynnt sér tillögur þær sem liggja fyrir um vegalagningu um Teigsskóg og röksemdafærslur fyrir henni. Það er augljóst að bæta þarf samgöngur í Reykhólahreppi og lífæðina á milli vesturhluta Vestfjarða og Dala. Um leið skapast góð hringleið um Vestfirði sem á eftir að efla ferðamennsku og renna (líklega öðru fremur) nýjum stoðum undir byggð á Vestfjörðum. En það skiptir feykilega miklu máli hvaða leið er valin, hverju er fórnað og hverju ekki. Og forsendur þurfa að vera skýrar. Það eru þær ekki nú.

 

Sínum augum lítur hver silfrið. Það verður þó að segjast að manni bregður við að sjá myndefni frá Teigsskógi á heimasíðu Vegagerðarinnar, þar er ekki verið að draga fram fegurð og sérstæði svæðisins. Þar er m.a. þessi mynd áberandi (sjá mynd nr. 3).

 

Nánari skýringar á útlistun vegagerðarkosta kalla á kort (fengið af heimasíðu Vegagerðarinnar). Þar eru sýndir nokkrir kostir (númer í appelsínugulum kössum eru frá ÓA en merkingar Vegagerðarinnar halda sér líka, hvítir kassar). Sjá mynd nr. 4.

 

1. Brú yfir Þorskafjörð utanverðan (sneiðir hjá Gufufirði og Djúpafirði). Aðkoman að þessari leið getur verið um Reykhóla eða suðaustanverðan Þorskafjörð (A1 í hvítum kassa á korti), ein brú. Leiðin út Þorskafjörð spillir þó víðerni í Teigsskógi handan fjarðar.

 

2. Brú á Þorskafirði miðjum með veg út suðaustanverðan Þorskafjörð (Leið I á korti) sem kallar síðan á brú yfir Djúpafjörð og Gufufjörð (rauð leið á korti), þrjár brýr.

 

3. Brú innarlega í Þorskafirði og leið út Teigsskóg og síðan brú á Djúpafirði og Gufufirði (Leið ÞH), þrjár brýr.

 

4. Jarðgöng undir Hjallaháls, út Djúpafjörð að suðaustanverðu og síðan brýr yfir Djúpafjörð og Gufufjörð (Leið H á korti). Brú innarlega á Þorskafirði. Göng og tvær-þrjár brýr. Efni úr göngum notað í brúarfyllingu.

 

5. Aðrir kostir (óbreytt eða lítið breyttar leiðir, D og D2 á korti Vegagerðar).

 

Við lestur skýrslna Vegagerðarinnar (sjá heimildir neðst) fær maður sterklega á tilfinninguna að athuganir og skrif séu til þess ætlaðar að styðja við kost 3 (veg um Teigsskóg) án þess að aðrir kostir séu raunverulega vegnir á móti.

 

Ljóst er að hagsmunir þéttbýliskjarnans á Reykhólum ættu að vega þungt. Með það í huga færi best á að velja kost nr. 1 (veg hjá Reykhólum um Reykjanes og brúa Þorskafjörð, ein brú). Brú yfir Þorskafjörð yrði álíka löng og brú um Gilsfjörð, en brúarhöf þyrftu að vera lengri en þar.

 

Höfnun Vegagerðarinnar á þessari leið og útlistun á vandamálum sem henni fylgja eru nokkuð sérstök og sumt jafnvel órökrétt. Brúarmannvirki yfir Þorskafjörð er ekki mikið lengra en hinar þrjár brýrnar til samans. Aðrir nýir vegir yrðu mun styttri. Heildarlengd er sambærileg samkvæmt báðum leiðum og ekki þyrfti nýjan veg nema á stuttum kafla. Að sú leið kalli síðar á þrýsting á þverun Berufjarðar (til hægri á kortinu) eru ekki rök í þessu máli.

 

Undirritaður fær ekki séð að þéttbýlið á Reykhólum sé tekið með í reikninginn eða samfélagsleg áhrif hinna ýmsu kosta. Hugsanleg þróun byggðar og fólksfjölgun á svæðinu er þó mjög tengd þessum þéttbýliskjarna. Vegagerðin telur leiðina út á Reykhóla torvelda. En þjóðvegur er auðvitað nú þegar út á Reykhóla og honum þarf að halda við (og bæta) hvort sem er. Haldið er á lofti að vegurinn út á nesið standist ekki kröfur um þjóðveg með 90 km hámarkshraða. En vitaskuld er það ekki til vansa þótt hámarkshraði sé minni en 90 km á nokkrum vegabútum ef önnur mikilvæg markmið nást.

 

Frásögn af vandamálum Reykjanesmegin við Þorskafjörð virðist ýkt, eiginlega eins og slæm veglína hafi verið valin sérstaklega og henni síðan lýst. Deilur aðila um flatarmál skógar sem fer undir veg samkvæmt leið 3 (Teigsskógur) eru órökréttar, það er hin vistfræðilega heild sem Teigsskógur og umhverfi hans mynda sem skiptir máli en ekki flatarmál skógarins út af fyrir sig. Þá er gert mjög mikið úr áhrifum mismunandi vegastæða á tvo sveitabæi í byggð (Gufudal og Djúpadal). Samfélagið ætti þó ekki að þurfa að fórna gríðarlegum náttúruverðmætum og milljörðum króna í vegagerð til að koma þeim í vegasamband: það liggja nú þegar þjóðleiðir að þessum bæjum.

 

Undirritaður tekur samt fram að honum er ekki að fullu ljós umhverfisáhrif Þorskafjarðarbrúar í einu hafi. Kannski eru umhverfisáhrif þverunar of mikil en þá er einboðið að kanna betur og útfæra jarðgöng undir Hjallaháls. Enda þótt jarðgöng séu dýr er kostnaðurinn við veg um Teigsskóg miklum mun meiri þegar litið er til framtíðar. Hér er verið að bera saman skammtímagróða (vegur um Teigsskóg) með miklum fórnarkostnaði við mun meiri og varanlegri verðmæti (jarðgöng og óröskuð víðerni í og við Teigsskóg).

 

Það kviknar sú tilfinning að vegur um Teigsskóg sé að verða að einhvers konar þráhyggju: þarna skal vegurinn fara og hananú! Fórnarkostnaður sem færður er með vegi um Teigsskóg er gríðarlegur og mun hafa mikil neikvæð áhrif til allrar framtíðar. Ég skora á íbúa svæðisins og Vegagerð ríkisins að skoða aðra möguleika með mun opnara hugarfari en sjá má í skýrslum og skrifum fram til þessa.

 

Ólafur Arnalds,

náttúrufræðingur og prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.

 

Heimildir:

 

http://www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/frettir/nr/7500 (17.9.2014)

 

http://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/MAUVestfjardavegur-Bjarkarl-Melanes-Matsaaetlun_Drog/$file/60_25-28Mau_2012.07.03_Drög%20að%20tillögu%20að%20MAU.pdf

 

Athugasemdir

Vestfirðingur, mnudagur 12 september kl: 22:32

Það er undarlegt í meira lagi hvað hægt er að klæða Teigskó í hástemmdar lýsingar.
Því þegar ég ætlaði einu sinni að skoða fyrirbærið var sjálfskipaður landráðandi búinn að ryðja svo miklu grjóti að ekki varð farið um slóðan á venjulegum bíl vegna þess,
Það er löngu ljóst að þarna er peningamál gert að náttúruverndarmáli og þvælt aftur og fram um kerfisófreskjuna sem er löngu orðin stjórnlaus.
Ef það væri einhver dugur í þingmönnum NV kjördæmis væri löngu kominn vegur um þetta hrís sem þeim þykir svona merkilegt.
Þingmennirnir ættu að reka af sér slyðruorðið og í stað þess að vera áskrifendur að laununum ættu þeir allir sem einn að breyta til og vinna vinnuna sem þeir eru kosnir til að vinna. það mætti nefna það að ekkert er haft á móti því að rífa og spæna náttúrumyndanir á SV horninu en ekki má hreyfa neinu úti á landi.
Nærtækt dæmi um hvað þeir eru færir um hafi þeir áhuga eru Vaðlaheiðargöngin
Þar er mikið talað um umferðaröryggi það er akkúrat sama og farið er fram á með láglendisvegi vestur á firði.
Með auknum ferðamannastraum eykst slysahættan því ungt fólk kann ekki að aka á malarvegi sama á við um alla útlendingana.
Vestfirðir eru með fegurstu hlutum þessa lands og mannslíf eru of dýrmæt til að sólunda þeim svona vísvitandi. Þeir sem ráða þarna ferð eru varla svo samviskulausir að þeim sé sama um að verða óbeint valdir að mannsláti, með þvergirðingshættinum.

Þetta á reyndar við um margt annað en vegamál það mætti nefna þarna orkumálin því það væri hægt að gera vestfirði sjálfum sér nóga um rafmagn ef ekki væri þessi sama ófreskja sem stendur í veginum fyrir veginum.

Halldór Sverrisson, mnudagur 12 september kl: 23:45

Þér eruð fífl Vestfirðingur

Kristinn frá Gufudal, rijudagur 13 september kl: 10:42

Ég vil taka undir athugasemd Halldórs Sverrissonar, en vil bæta við, að fræðimaðurinn Ólafur Arnalds á að vera vandari að virðingu sinni en þetta bull gefur til kynna.

Vestfirðingur, rijudagur 13 september kl: 21:36

Rökþrota manneskjur og þær sem ekki hafa gott mál að verja bregðast við með fúkyrðum.
það eitt og sér er ber vott um lélega dómgreind. því það lýtur hver sínum augum á silfrið.
Svo er jú skoðanafrelsi á Íslandi. Ég deili skoðunum með fjölmörgum um þetta leiðindamál.

Sigurður Sunnandvindur, laugardagur 17 september kl: 14:49

Líklega er farælasta vegarstæðið fólgið í því að gera 4 km göng undir mynni Þorskafjarðar í stað brúar og losna þar með við ferðalag um Gufufjörð og Djúpafjörð og hálsana milli þeirra.
Reykhólar eru þar með í alfaraleið.

Stóra málið er hinsvegar tengingin til suðurs frá Arnarfirði.

Vestfirðingur, rijudagur 20 september kl: 23:00

Vel mælt Sigurður Sunnanvindur. Líka mætti byggja veg á fyllingu frá Reykjanesi yfir í Skálanes, og setja þar í sjávarfallavirkjun og gera aðra innst í Djúpinu þá er tímamunurinn á flóði og fjöru það mikill að stöðug framleiðsla væri tryggð.
Þarna væru slegnar tvær flugur eða jafnvel þrjár í einu höggi. Góður vegur, Reykhólar í þjóðbraut og orkumálum skipað til betri vegar og ávinningurinn er að hlífa öllum ám á vestfjörðum og þessum plöntum sem styrinn hefur staðið um.
Svo er að leiðrétta mistökin með Klettháls þar þarf að gera göng. Hefði átt að gera strax í stað þess að endurbyggja veginn þar yfir.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31