Það liggur ekkert á!
Einar Kristinn Guðfinnsson skrifar:
Stjórnarmyndunarleikritið er eingöngu illa ófyndinn farsi. Eða hvað er hægt að segja um stjórnarmyndunarviðræður sem standa í heila viku áður en fyrsti starfshópurinn, um þau mál sem mest eru knýjandi, kemst á koppinn? Það blasir við risaverkefni í ríkisfjármálum, málefnum heimila og atvinnulífs. En að sögn ríkisstjórnarforkólfanna hefur fyrsta vikan aðallega farið í að pússa saman ágreining um ESB! - Eins og það sé málið sem mest liggur á.
Á meðan segja fyrirtækin upp starfsfólki. Almenningur hrópar eftir raunverulegum aðgerðum í skuldamálum heimilanna. Forsætisráðherrann og viðskiptaráðherrann þræta við fólkið í landinu og vísa því á aðgerðir sem allir vita að mæta alls ekki þörfum fjölskyldnanna. Jafnvel helsta krúnudjásnið í aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar er óbrúklegt af því að reglugerðina vantar sem vinna á eftir. - Þetta er ótrúlegt framtaksleysi - ótrúlegt skilningsleysi.
Þegar þörfin er himinhrópandi setjast Steingrímur J. og Jóhanna niður og reyna að fá botn í ágreining sinn um furður Evrópusambandsins. Þetta staðfestir hversu óralangt þau hafa færst frá raunverulegum vandamálum samfélagsins.
Og síðan er það enn eitt dæmið til marks um verkleysið og skilningsleysið, að heilum tveimur mánuðum eftir að samþykkt voru lög sem heimila fullan frádrátt á virðisaukaskatti vegna vinnu á byggingarstað (sem vel að merkja hafði verið undirbúið í tíð síðustu ríkisstjórnar) er enn ekki búið að setja reglugerð til þess að því máli yrði hrint í framkvæmd. Var þessum lögum þó ætlað að hrinda af stað verkefnum í byggingariðnaði, þar sem ástandinu nú er líkt við alkul, drepa niður svarta atvinnustarfsemi og auðvelda almenningi fjárfestingar. - En þá erum við svo stálheppin að hafa við völd svo verklausa ríkisstjórn, að hún kemur ekki einu sinni frá sér reglugerð um málið til að vinna eftir!
Nú skilur maður loksins hvað þau Jóhanna og Steingrímur J. eiga við þegar þau segja að ekkert liggi á. Það er greinilega ekki bara í stjórnarmyndunarviðræðum sem ekkert liggur á. Það liggur heldur ekki á að hrinda í framkvæmd þeim málum sem Alþingi hefur samþykkt og horfa til hagsbóta fyrir almenning og atvinnulíf. Ekkert liggur á, allt má bíða og allt er látið danka.
- Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.