Tenglar

22. desember 2009 |

Það tók sjö mánuði!

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson alþingismaður skrifar:

 

Hörmungarsagan af framkvæmdum, eða öllu heldur framkvæmdaleysi, á Vestfjarðavegi er fyrir löngu orðin sagan endalausa. Nýgenginn hæstaréttardómur setti vegagerð út Þorskafjörð og þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar í uppnám og allsendis óljóst hvernig hægt verður að bregðast við þeirri stöðu sem þar er uppi. Fyrirsjáanlegt er að vegagerð um þær slóðir mun tefjast. Hversu lengi vitum við ekki, en alveg ljóst að ekki er þess að vænta að bráðnauðsynlegar úrbætur á handónýtu vegakerfi á þessu svæði hefjist á næstunni.

 

Jafn hörmulegt og það er, þá er þetta hinn bitri veruleiki sem ekki verður umflúinn. En því miður er þetta ekki eina vegagerðarverkefnið á Vestfjarðavegi sem bíður. Annar kafli vegarins, alls 24 kílómetrar, er í annars konar óvissu. Hér er átt við kaflann frá Eiði við Vattarfjörð, með þverunum á Mjóafirði og Kjálkafirði og að Þverá í Kjálkafirði, þar sem núverandi framkvæmdum sleppir. Sú óvissa stafaði lengstum af því að þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli úrskurðaði umhverfisráðherra ekki um þennan vegakafla fyrr en heilum fimm mánuðum eftir að lög kváðu á um. Það tók sem sé ráðherrann og ráðuneytið heila sjö mánuði að komast að niðurstöðu.

 

Harðlega gagnrýnt


Ég gagnrýndi harðlega þessar tafir í grein í Morgunblaðinu fimmtudaginn 26. nóvember sl. Mánudaginn 30. nóvember tók ég síðan málið upp á Alþingi og krafði umhverfisráðherra svara. Ráðherrann upplýsti að úrskurður hefði loks verið upp kveðinn þann 27. nóvember. Í þeim úrskurði væri staðfest það álit Skipulagsstofnunar að vegurinn þyrfti á þessum slóðum að fara í umhverfismat og kom varla á óvart að sú yrði niðurstaðan af sjö mánaða athuguninni. Sérkennilegt er að vita til að staðfesting á þegar útgefnum úrskurði undirstofnunar ráðuneytisins skuli hafa tekið allan þennan tíma. Og undarlegar eru tilviljanirnar. Úrskurðurinn birtist daginn eftir að gagnrýni mín hafði birst í Morgunblaðinu! Eftirgrennslan mín á heimasíðu ráðuneytisins leiddi hins vegar í ljós að úrskurðinn var þar ekki að finna og leit þar ekki dagsins ljós fyrr en nokkru eftir að hann hafði verið upp kveðinn, enda þurfti að kynna hann hlutaðeigandi áður en hann færi í opinbera birtingu.

 

Þetta vinnulag er auðvitað mjög ámælisvert. Vel má skilja að tafir geti orðið á úrskurðum ráðuneytis, þó ekki sé það gott. En í þessu máli eru aðstæður sérstakar og alvarlegar. Í húfi eru miklir hagsmunir. Hin langa töf á úrskurðinum gerði það að verkum að ekki var hægt að leita lausna á vegamálum á þessu svæði. Þeir sem gjalda seinagangsins í stjórnsýslunni eru því íbúar Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslu og þeir aðrir sem hafa mikla hagsmuni af að vegagerð á umtöluðum Vestfjarðavegi haldi áfram.

 

Hér hyggst ég fara yfir þessi mál frekar og styðst að nokkru við grein mína í Morgunblaðinu frá 26. nóvember sem fyrr er vitnað til.

 

Þýðingarmikill kafli í vegagerðinni


Sá kafli sem hér er um að ræða er frá svo kölluðu Eiði við Vattarfjörð, yfir Mjóafjörð, fyrir Litlanes, inn Kjálkafjörð og síðan yfir fjörðinn við Skiptá og Þverá. Þetta er alls 24 kílómetra leið og gert ráð fyrir að stytta megi leiðina um heila 9 kílómetra eða um meira en 37%, hvorki meira né minna. Þarna er því um að ræða gríðarlega þýðingarmikinn áfanga, sem bíður eins og flest annað í vegagerð á þessum slóðum.

 

Þegar ljóst var snemma vors á þessu ári að Skipulagsstofnun teldi að vegagerð á þessari leið þyrfti að fara í umhverfismat með afleiðingum sem því fylgir, skrifuðum við Ásbjörn Óttarsson alþingismaður bréf til Vegagerðarinnar, dags. 12. maí sl. Í bréfinu óskuðum við eftir því að leitað yrði leiða til þess að bjóða út verkþætti í vegagerð á þeim köflum þessarar leiðar sem ætla mætti að fylgdi að mestu núverandi veglínu og ylli óumdeilanlega lítilli röskun. Var þetta hugsað af okkar hálfu til þess að tryggja að eitthvað mætti þumlungast áfram með vegagerð á því svæði á Íslandi þar sem þörfin er mest himinhrópandi.

 

Staða málsins


Svar Vegagerðarinnar var, að slíkt væri ekki heimilt, með vísan til bréfs Skipulagsstofnunar sem gaf álit sitt á málinu. Þar er álitið rökstutt með því að ekki megi gefa út framkvæmdaleyfi fyrr en álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir eða að ákvörðunin um framkvæmd sé ekki matsskyld. Þar sem niðurstöðu stofnunarinnar var vísað til umhverfisráðherra til úrskurðar sé ekki hægt að taka málið fyrir fyrr en hann liggur fyrir.

 

Nú þegar niðurstaða Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra er fyrirliggjandi er ekkert að vanbúnaði að huga að þessum málum í samræmi við það sem Ásbjörn Óttarsson lögðum til strax sl. sumar. Það er ljóst mál að allt er í uppnámi og óvissu varðandi þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar sem og vegagerð út Þorskafjörð. Tækifærin liggja þá í því að leita praktískra lausna þar sem því verður við komið. Fyrrnefndur vegarkafli frá Eiði að Þverá í Kjálkafirði mun liggja á og við núverandi vegstæði að talsverðu marki. Þar verður því óumdeilanlega engin umhverfisröskun. Því verður ekki trúað að lög og reglur geti því staðið í vegi fyrir því að á þessum slóðum megi fara í vegabætur á meðan eitthvað skýrist varðandi ákvarðanir um vegagerð á öðrum svæðum Vestfjarðavegar.

 

Nú verður að nýta hverja stund


Við getum hreinlega ekki beðið lengur. Það verður að nýta hverja stund. Nú verður á næsta ári lokið vegagerð frá Vatnsfirði og í Kjálkafjörð. Gleymum því ekki að einnig það útboð tafðist von úr viti. Kannski upp undir ár eða svo miðað við það sem áður hafði verið áformað. Það væri hörmulegt ef ekkert framhald yrði á vegagerð á því landsvæði þar sem þörfin er mest á Íslandi. Við getum einfaldlega ekki látið það yfir okkur ganga. Við verðum að sjá til þess að vegabætur haldi áfram. Þrátt fyrir vonbrigða- og hörmungarsöguna í þeim efnum á þessum slóðum. Lágmarkskrafan er að hafist verði handa sem fyrst á nýju ári í vegagerð á einstökum köflum á margnefndum vegarkafla frá Eiði við Vattarfjörð og að Þverá í Kjálkafirði.

 

Ég skora á samgönguráðherra


Ég skora því á samgönguráðherra að beita sér af fullri hörku í þessu máli og sjá til þess að hleypt verði tafarlaust af stað útboði á umræddum vegarkafla þar sem umhverfisröskun verður óumdeilanlega lítil sem engin.

 

Mikilvægt er síðan að vinna af fullri einurð að umhverfismati að öðru leyti á leiðinni, svo unnt sé að því búnu að hefja útboð og framkvæmdir á öðrum köflum Vestfjarðavegar. Síðast en ekki síst er rétt að minna á að fram kom í máli ráðherra á Alþingi, í utandagskrárumræðum sem ég efndi til 19. nóvember sl. að ætlunin væri að ljúka því snemma í þessum mánuði að komast að niðurstöðu vegna vegagerðarinnar yfir Gufufjörð og Djúpafjörð og út Þorskafjörð. Brýnt er að sjálfsögðu að það takist svo okkur auðnist að fara yfir þau mál nú í byrjun næsta árs og taka ákvarðanir um framhaldið að því búnu.

 

Að lokum skal þetta undirstrikað og áréttað:

 

Hér er hvorki meira né minna en um að tefla vegagerð á svæði þar sem allir virðast sammála um að þörfin er brýnust, samanber umræður sem fóru fram á Alþingi utandagskrár um þessi mál og ég vitnaði til hér að framan. Það er nóg óvissan í vegagerðinni annars staðar á Vestfjarðavegi svo ekki sé verið að framkalla frekari vandræði. Við hljótum öll að sameinast um að knýja fram ákvarðanir og framkvæmdir á því svæði sem bókstaflega hrópar á úrbætur.

 

- Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður.

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30