Tenglar

20. apríl 2009 |

Þeim er sama, alveg nákvæmlega sama

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.

Einar Kristinn Guðfinnsson skrifar:

Það er örugglega einsdæmi. Frumvarpið sem samþykkt var um fjárfestingarsamning til að greiða fyrir uppbyggingu álvers í Helguvík, nefndist stjórnarfrumvarp, en helmingur ríkisstjórnarinnar studdi það ekki! Ef atkvæði hefðu verið greidd í ríkisstjórn hefði það verið fellt á jöfnu og því ekki komið til kasta Alþingis.

 

Þannig er staðan þegar kemur að því að samþykkja svo sjálfsagt framfaramál. Vinstri grænir, þverir og endilangir, voru á móti. Það var Mörður Árnason líka og Þórunn Sveinbjarnardóttir sat svo hjá; tveir samfylkingarþingmenn.

 

Af þessu sjáum við að þessum flokkum er ekki treystandi til að standa að atvinnuuppbyggingu. Þeir eru flinkari þegar kemur að því að eyðileggja atvinnuuppbyggingu, sbr. áform þeirra um ofurskattlagningu til þess að tortíma hvalveiðum.

 

Við sjálfstæðismenn jafnframt fulltrúum Framsóknar og Frjálslyndra björguðum málinu. Þetta frumvarp var samþykkt af okkur í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, eftir miklar innantökur og kvalir í Samfylkingunni. Þar þurfa þeir sífellt að kljást við stóriðjuandstæðinga sem samsama sig Vinstri grænum. Þess vegna áttu þeir í mesta basli að koma málinu í gegn hjá sér.

 

Þetta fólk, fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna, ætti að koma upp á Grundartanga og kynna sér þau glæsilegu fyrirtæki sem þar starfa. Svo gæti leiðin legið á Skagann til þess að læra hvernig starfsemin á Grundartanga hefur stóreflt allt atvinnulífið þar og um héraðið allt. Þá myndu þeir átta sig á margfeldisáhrifum stóriðjunnar, hvernig hún skapar fjölbreytileg störf, eykur umsvif út um allt og er eftirsóttur vinnustaður.

 

Loks gætu þeir áttað sig á miklum metnaði á umhverfissviðinu, nýtingu vistvænnar orku og að stóriðja skapar nauðsynlegan gjaldeyri.

 

Sennilega vita þau í Vinstri hreyfingunni grænu framboði þetta allt. - Já þau vita þetta örugglega. En þau halda áfram þvermóðsku sinni. Ef þau hefðu fengið að ráða væri þessi glæsilega atvinnustarfsemi á Grundartanga ekki til, störfin ekki til og atvinnuástandið í sunnanverðu Norðvesturkjördæmi margfalt verra en núna. Þau vita þetta allt, en kæra sig greinilega kollótta um það. Svo ömurlegt sem er til þess að vita.

 

- Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.

 

Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31