Tenglar

6. ágúst 2009 |

Þessi forréttindi ætlum við að verja

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson skrifar:

 

Yfirlýstur tilgangur umsóknar að ESB hefur verið að kanna í eitt skipti fyrir öll hvað í boði sé þannig að enginn þurfi að velkjast í vafa. Það gildir ekki síst um sjávarútvegsmálin, því margir helstu ESB sinnarnir hafa reynt að segja okkur að ekkert sé að óttast. Nú hefur spænski Evrópumálaráðherrann Diego López Garrido sagt okkur hvað sé í boði. Hverjir skilmálarnir séu. Sú lýsing er í algjöru ósamræmi við það sem trúuðustu ESB sinnarnir hafa sagt okkur.

 

Það er óhætt að taka mark á senjór Garrido. Spánverjar eru heimsveldi á sjávarútvegssviðinu. Fátt óttast aðrar evrópskar sjávarútvegsþjóðir meira en mögulegan ágang spænska fiskiskipaflotans, eftir hálft ár verða Spánverjar í forsvari ESB og svo er Diego Lópes Garrido Evrópumálaráðherra. Orð hans hafa því mikla vigt og skipta höfuðmáli þegar kemur að því að ræða um stöðu Íslands almennt og sjávarútvegsins sérstaklega innan ESB. Og hann svarar skýrt þegar hann er spurður um þessi mál í Ríkisútvarpinu 30. júlí sl. Spænski ráðherrann segir þar orðrétt:

 

Íslendingar eru í forréttindastöðu

 

„En það er auðvitað mikilvægt, og ekki bara fyrir Spán heldur allt Evrópusambandið að við varðveitum í framtíðinni, að Íslandi gengnu í það, réttarreglur bandalagsins. Sú staða sem Ísland hefur nú, við getum kallað hana forréttindastöðu, enda er Ísland fyrir utan Evrópusambandið, og getur þannig útilokað önnur ríki frá miðum sínum og náð að hindra erlend fyrirtæki í að kaupa hlut í íslenskum útgerðum ... Þetta er nokkuð sem verður augljóslega að endurskoða þegar viðræður hefjast."

 

Þetta má heita kjarni málsins. Og það er rétt hjá spænska ráðherranum. Við Íslendingar erum sannkallaðir lukkunnar pamfílar; forréttindafólk þegar kemur að sjávarútvegsmálum, séð frá sjónarhóli ESB. Við erum með okkar eigin lögsögu. Við ráðum fiskveiðunum sem hér eru stundaðar, samkvæmt okkar eigin vilja, á grundvelli íslenskra laga og reglna og í samræmi við ákvarðanir íslenskra stjórnvalda. Þetta kallar ráðherrann forréttindi og þau telur hann augljóslega að verði að endurskoða.

 

En það er einmitt þessum meintu forréttindum sem við ætlum að viðhalda. Það er kjarni málsins. Út á það ganga hagsmunir sjávarútvegsins okkar; hagsmunir íslensku þjóðarinnar. Það sem spænski ráðherrann bendir á, er að slíkur réttur fullvalda þjóðar með eigin efnahagslögsögu sé ósamrýmanlegur því að starfa innan ESB. Þarna blasir við okkur alvara málsins.

 

Íslendingar sitja ekki einir að fiskimiðunum í ESB

 

Málflutningur Spánverjans er í sjálfu sér alveg rökréttur, séður frá tröppum ráðamanna í Brussel eða Madríd. Forræði einnar þjóðar yfir sinni helstu auðlind, jafnar spænski Evrópumálaráðherrann til forréttinda. Hann telur að sá möguleiki þurfi að vera til staðar að Spánverjar veiði hér við land og í aðildarviðræðum Íslands við ESB verði að greiða fyrir því. Síðan segir hann í sama viðtali: „Og mér sýnist að það verði erfitt fyrir Íslendinga þegar þeir verða komnir í ESB að sitja að öllu leyti einir að fiskimiðum sínum eða halda erlendu fjármagni frá útgerðum. Það gefur augaleið að innganga táknar að játast kostum hennar og göllum, öllu. Og við látum allir eftir í þessu."

 

Menn velja ekki bestu berin á trjánum ...

 

Út á þetta gengur allt heila klabbið einfaldlega. Í ESB er óhjákvæmilegt að opna fyrir erlenda fjárfestingu og þar með aðgang útlendinga að fiskveiðiauðlindinni. Það verður erfitt fyrir okkur að sitja einir að fiskveiðiauðlindinni að gefinni ESB aðild. Menn velja ekki bara bestu berin á trjánum þegar játast er undir ESB aðild. Menn samþykkja ESB með kostum og göllum þess, en velja ekki bara úr það sem þeim þóknast. Í ljósi þessa verða menn að skoða athyglisverða yfirlýsingu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra um að við fáum ekki varanlega undanþágu frá sjávarútvegsstefnu ESB.

 

Frá íslenskum sjónarhóli er réttur okkar til þess að fara með forræði yfir fiskveiðiauðlindinni sjálfsagður réttur fullvalda þjóðar; ekki forréttindi. Frá sjónarhóli ESB er forræði okkar sem fullvalda þjóðar yfir fiskveiðiauðlindinni forréttindi. Það blasir við öllum að þetta eru ósamrýmanleg sjónarmið. En með aðild Íslands að ESB verðum við að horfa á þessi mál með augum Brussel, en ekki okkar eigin. Það eru nefnilega íslensk stjórnvöld sem eru að sækja um aðild að ESB fyrir hönd þjóðarinnar, en ESB hefur ekki sótt um að gerast partur af íslenskri löggjöf.

 

- Einar K. Guðfinnsson alþingismaður.

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30