Þjóðin og ESB
Arna Lára Jónsdóttir skrifar:
Eitt af þeim stærstu hagsmunamálum sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir núna, er hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu. Það er skylda stjórnmálamanna að taka málið á dagskrá og leyfa þjóðinni að kjósa um aðild. Þjóðin á það skilið að fá vita hvað aðild að Evrópusambandinu þýðir, kosti þess og galla, svo hún geti metið sjálf í þjóðaratkvæðagreiðslu hvar hagsmunum hennar er best borgið eftir að niðurstöður aðildarviðræðna liggja fyrir.
Skilyrði Samfylkingarinnar fyrir aðild að ESB
Samfylkingin vill fara í aðildarviðræður við ESB strax eftir kosningar. Í þeim aðildarviðræðum á að tryggja grundvallarhagsmuni atvinnuveganna, sérstaklega íslensks sjávarútvegs og landbúnaðar, og standa vörð um náttúruauðlindir Íslands. Þetta eru þau skilyrði sem Samfylkingin setur. Við getum verið bjartsýn fyrir okkar hönd þegar kemur að samningaviðræðunum um íslenskan landbúnað. Við þurfum bara að líta til Finna og Svía, en þeir sem sömdu sérstaklega um að landbúnaður þeirra yrði skilgreindur sem heimskautalandbúnaður.
Sjávarútvegurinn er ein okkar mikilvægasta auðlind og gæta þarf hagsmuna hans í hvívetna. Aðildarríki ESB ráða sjálf yfir auðlindum sínum en fiskveiðistefnan er undantekning frá því. En það er vegna þess, að mörg ríki innan ESB hafa verið að nýta sömu fiskistofnana, á sameiginlegu hafsvæði í gegnum tíðina, og þarf því að semja um það. Samningsstaða okkar gagnvart ESB um forræði yfir efnahagslögsögunni er öll önnur en þessara þjóða. Íslenska efnahagslögsagan er algerlega aðskilin frá sameiginlegri lögsögu bandalagsins. Helstu nytjastofnar á Íslandsmiðum eru staðbundnir og nú þegar er búið að semja um flökkustofnana við Ísland. Við úthlutun kvóta innan ESB er horft til 10 ára veiðireynslu, en engar þjóðir hafa slíka veiðireynslu innan íslensku lögsögunnar aðrar en Íslendingar. Við höfum ekkert að óttast.
Er ESB brýnasta málið núna?
Um þessar mundir erum við að ganga í gegnum mikla efnahagslega erfiðleika. Margir spyrja hvort það sé skynsamlegt að vera hugsa um ESB núna og hvort við ættum ekki að einbeita okkur að bjarga heimilum og fyrirtækjum í landinu, áður en sótt er um aðild að ESB. Helstu hagsmunasamtök launþega og atvinnulífs hafa lagt ríka áherslu á aðild að Evrópusambandinu, ásamt Samfylkingunni, þau sjá hagsmunum sinna félagsmanna og fyrirtækja best borgið þar inni. Við verðum að reisa við íslenskt efnahagslíf hratt og örugglega og skapa fyrirtækjum landsins rekstrarhæft umhverfi með stöðugu gengi, hóflegum vöxtum og lágri verðbólgu. Til að gera það með skjótum hætti er afar mikilvægt að sækja um aðild að Evrópusambandinu strax, einmitt til þess að bjarga heimilunum og fyrirtækjunum í landinu.
Hvað hagnast ESB á aðild Íslands?
Hvað þurfum við að láta af hendi við inngöngu í ESB, ætlum við að gefa Evrópusambandinu allan fiskinn okkar, á að leggja íslenskan landbúnað í rúst? Þetta eru fullyrðingar sem heyrast oft í umræðunni um aðild að Evrópusambandinu. Þær eiga ekki við rök að styðjast. Áhugi hefur verið fyrir hendi að hálfu ESB, og þá sérstaklega stækkunarstjórans Olli Rehn, að ganga til viðræðna við Ísland. Það er yfirlýst markmið Evrópusambandsins að taka móti öllum Evrópuríkjum og þess vegna hefur ESB áhuga á að fá okkur inn. Það liggja pólitískar hvatir að baki áhuga ESB en ekki efnahagslegar hvatir. Hins vegar er það klár efnahagslegur ávinningur fyrir okkur Íslendinga að ganga inn.
Samningsstaða Íslands
Við skulum ekki tala okkur niður áður en við förum í aðildarviðræður. Við getum vel gengið til viðræðna hnakkreist. Við erum ekki eina ríkið sem hugar að aðildarviðræðum í kjölfar kreppu, flest ríki ganga inn af þeirri ástæðu. Þetta er ekki spurning um að segja já og amen við öllu sem ESB býður. Við þurfum að skilgreina samningsmarkmið okkar og reyna ná sem bestu samningnum, þannig gengur þetta fyrir sig.
Til þess að þjóðin fái að segja sitt álit í þessu stærsta hagsmunamáli síðustu áratuga er afar mikilvægt að Samfylkingin fái sem mestan stuðning í kosningunum 25. apríl. Samfylkingin þarf að leiða næstu ríkisstjórn, svo hún geti sótt um aðild Evrópusambandinu og lagt niðurstöður samningsins fyrir þjóðina í kjölfarið.
- Arna Lára Jónsdóttir skipar 3ja sætið á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.