Tenglar

21. apríl 2009 |

Þjóðnýting á þjóðareign

Grímur Atlason.
Grímur Atlason.

Grímur Atlason skrifar:

 

Þrír bæjarstjórar Sjálfstæðisflokksins skrifuðu grein í Morgunblaðið í síðustu viku. Þeir óttast fyrningarleið í kvótakerfinu og telja að hamfarir bíði handan hornsins. En þeir gerðu meira, því þeir sögðu að með fyrningu væri farin þjóðnýtingarleið. Þjóðnýting á hverju? Auðvitað auðlindinni. Það er þannig komið fram: Auðlindin í hafinu er ekki þjóðareign, samkvæmt skilgreiningu Sjálfstæðisflokksins, og hefur ekki verið frá því að framsal aflaheimilda var heimilað.

 

Auðvitað stöðvaði flokkurinn auðlindaákvæðið sem átti að setja í stjórnarskrána. Björn Bjarnason ætlaði að tala fram á næstu öld á þingi ef með þyrfti. Stjórnarskránni skyldi ekki breytt. Hverra hagsmuna er verið að gæta hérna? Þorra þeirra sem kjósa að vinna og starfa á landsbyggðinni eða lénsherrana sem geta með einu pennastriki kippt fótunum undan afkomu heils byggðarlags? Höfum í huga að nokkrir frambjóðendur flokksins eiga persónulegra hagsmuna að gæta að viðhalda núverandi kerfi.

 

Þetta rímar allt saman. Þú þjóðnýtir ekki nema það sé í eigu einhvers annars en þjóðarinnar - þannig að Sjálfstæðisflokkurinn lítur svo á að auðlindin í hafinu sé í raun og veru eign útvaldra. Það er sorglegt að fylgjast með málflutningnum. Hvernig er hægt að halda því fram að allt fari í kaldakol við það eitt að þjóðin eigi auðlindir sínar? Útgerðarmenn munu eftirleiðis gera út fiskibáta og græða peninga. Þeir munu bara ekki getað braskað með aflaheimildir áfram, og veðsetning óveiddra þorskflaka, til kaupa á hlutabréfum í loftbólufyrirtækjum, mun heyra sögunni til.

 

Vinur minn Halldór Halldórsson var heldur óhress þegar kvótagreifinn í Ísafjarðarbæ ákvað að selja allt sitt stuttu eftir kosningarnar 2007 og flytjast til Hafnarfjarðar. En Halldór getur varla verið mjög ósáttur ef hann telur að auðlindin eigi að vera eign útvaldra vina Flokksins. Framsal veiðiheimilda úr byggðarlögum er afleiðing kerfisins sem hann ásamt kollegum sínum kaus að verja í Mogganum.

 

Fyrningarleið kvótakerfisins er raunhæf leið til að vinda ofan af byggðafjandsamlegu kerfi. Það er vert að hafa það í huga þegar kosið verður á laugardaginn kemur.

 

- Grímur Atlason, skipar 6. sæti á lista VG í NV-kjördæmi.

 

Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30