Tenglar

13. mars 2009 |

Til liðs við Frjálslynda flokkinn

Karl V. Matthíasson.
Karl V. Matthíasson.

Sr. Karl V. Matthíasson alþm. skrifar

 

Ég hef ákveðið að ganga til liðs við Frjálslynda flokkinn. Ákvörðun þessi helgast af því að skoðanir mínar og hugsjónir um sjávarútvegsmál á Íslandi eiga ríkan hljómgrunn í Frjálslynda flokknum. Viðhorf mín á þessu sviði hafa ekki skipað þann sess innan Samfylkingarinnar sem ég hefði kosið á undanförnum tveimur árum, sem kom vel í ljós í niðurstöðum prófkjörs Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fyrir skömmu.

 

Ein meginástæða þess að ég hóf þátttöku í stjórnmálum er löngun mín til að stuðla að breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfi landsins, sem að mínu mati er með eindæmum ranglátt og felur í sér mikla mismunun. Það hefur ekki síst komið í ljós eftir að efnahagskreppan skall á Íslandi í október á síðasta ári, en ég er þeirrar skoðunar að fyrirkomulag þessa kerfis eigi stóran þátt í þeim vanda sem þjóðin glímir nú við. Því verður eitt mikilvægasta verkefni í endurreisn landsins að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu á þann veg að arður þessarar dýrmætustu náttúruauðlindar landsins komi þjóðinni allri til góða og skapi um leið fleiri atvinnutækifæri.

 

Frjálslyndi flokkurinn hefur ávallt sett þessi mál í öndvegi. Ég hef því ákveðið að ganga til liðs við flokkinn og hlakka ég til að eiga gott samstarf við félaga hans.

 

Á þessum tímamótum vil ég nota tækifærið til að þakka kærum vinum mínum í Samfylkingunni samstarfið á undanförnum árum og óska þeim alls hins besta.

 

Virðingarfyllst,

Karl V. Matthíasson, alþingismaður.

 

Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31